Í gær áttum við Malin mæðgnadag, nokkuð sem við höfum verið duglegar með upp á síðkastið. Mér þykir tíminn líða svo hratt, finnst svo stutt síðan hún var lítil og skrýtið að hugsa til þess að í haust byrji hún í menntaskóla. Ég nýt þess svo að eiga þessar stundir með henni, bara við tvær. Í gær röltum við Laugarveginn, kíktum í búðir og enduðum á Laundromat þar sem við fengum okkur að borða. Eftir það hittum við Ögga og strákana og fórum svo í afmælisveislu. Þaðan fórum við til mömmu í pizzuveislu/kveðjupartý fyrir systur mína sem flaug heim til Köben í dag. Ég er strax farin að sakna hennar.
Ég fékk ábendingu frá lesenda um að setja vikumatseðlana undir uppskriftaflipann til að gamlir vikumatseðlar verði aðgengilegri. Mér þykir þetta góð ábending og lofa að þetta stendur til bóta hjá mér. Þar til ég kem mér í að laga þetta þá bendi ég á að það má finna alla vikumatseðlana með því að velja vikumatseðlar undir efnisflokkaleitinni hér til hliðar.
Matseðill vikunnar er einfaldur og góður. Tælenska kjúklingaenchiladas á föstudeginum er ó svo gott og tilhlökkunarefni fyrir vikuna.
Mánudagur: Mér þykir ofnbakaður fiskur í paprikusósu æðislega góður og hef ekkert á móti því að byrja vikuna á honum.
Þriðjudagur: Einfalt og stórgott lasagna borið fram með salati og jafnvel hvítlauksbrauði. Drjúgt og alltaf afgangur til að taka með í nesti daginn eftir eða að nýta í kvöldmat daginn eftir.
Miðvikudagur: Þar sem það er eflaust til afgangur af lasagnanu (nema það hafi verið tekið í nesti) þá þykri mér sniðugt að gera grjónagraut í dag fyrir krakkana og njóta afganganna sjálf. Þau taka grautnum alltaf fagnandi en ég er minna hrifin af honum. Ódýrt, einfalt og góð nýting á hráefnum þar sem afgangurinn af lasagnanu mun klárast.
Fimmtudagur: Spaghetti með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu er enn ein dásemdin úr smiðju Nigellu. Einfaldur og stórgóður réttur.
Föstudagur: Tælenskt kjúklingaenchiladas má gjarnan vera á disknum mínum alla föstudaga. Stórkostlega góður réttur!
Með helgarkaffinu: Mér þykir eplakaka með marsípani fara vel með helgarkaffinu.
112350 mamma
Sent from my iPad
>
This looks delicious!