
Ég var með kvöldmat sem við hjónin erum hvorugt sérlega hrifin af en krakkarnir elska, grjónagraut og lifrapylsu. Ég elda grjónagraut eins sjaldan og ég kemst upp með en annað slagið læt ég það eftir krökkunum.
Þar sem ég er óspennt fyrir grjónagrautnum er áhuginn fyrir að standa yfir pottinum og passa að hann brenni ekki við botninn mjög takmarkaður. Að elda grautinn í ofninum hentar mér mun betur og kvöldmaturinn getur varla orðið einfaldari en þetta. Grauturinn sér um sig sjálfur í ofninum og það þarf ekki að svo mikið sem að líta á hann á meðan.
Grjónagrautur í ofni
- 2,5 dl hrísgrjón (t.d. frá River)
- 1,25 líter nýmjólk
- nokkrar smjörklípur
- 1 tsk salt
- 1 msk sykur
Hitið ofninn í 175°. Blandið öllum hráefnum saman í stórt eldfast mót (amk 2 lítra). Setjið álpappír yfir og bakið í miðjum ofni í ca 1,5 klst. (það er í lagi að sleppa álpappírnum því það myndast himna yfir grautinn sem er síðan flett af).
Þegar grauturinn er tilbúinn er efsta laginu á honum flett af og hrært vel í honum. Þynnið grjónagrautinn með mjólk ef þörf er á.
Jiii, þetta hefði mér aldrei dottið í hug! Grjónagrautur er einmitt í miklu uppáhaldi. Takk fyrir góða hugmynd og frábæra síðu:)
þetta er frábær aðferð við að elda grjónagraut.
Ég er búin að vera að kíkja á þessa uppskrift í alla nótt. Get ekki lýst því hvað mig langar í grjónagraut. Það er bara ekki um annað að ræða en að gera þetta í kvöld.
Ertu búin að vera vakandi í nótt.
Já barnabarnið þitt var ekkert á því að sofa, svo við höfðum það bara notalegt og skoðuðum uppskriftir og horfðum á sjónvarpið 🙂
Algjör snilld! Mér hefur einmitt alltaf leiðst þetta að standa yfir pottinum 🙂 Takk fyrir flinka kona 🙂
En dásamlega sniðug hugmynd, takk fyrir þetta Svava – gleymist einmitt oft að hræra í pottinum þegar það eru tvö lítil kríli á heimilinu svo að þetta breytir öllu
Yfirleitt eldað með þessari aðferð í leikskólunum, held ég…
Gmana að lesa þetta. Ég einmitt elda grjónagraut alltaf í ofni líka en á aðeins annan hátt. Byrja á því að sjóða grjónin í vatni í stuttan tíma, bæti svo mjólkinni út í og næ upp góðum hita og læt malla í smá stund. Hendi svo pottinum með lokinu inn í ofninn (ofninn óupphitaður) og þar klárar hann sig á 2-3 klst. án þess að fyrir sé haft. Svo þarf bara að hræra upp í honum og stundum bæta mjólk í. Algjör snilld líka.
Frábær uppskrift. Þetta er uppálds grjónagrauturinn okkar krakkana
en frekar rafmagnsfrek aðferð, getur ekki kallast græn máltíð 🙂
Þetta á ég pottþétt eftir að prófa enda grjónagrautur reglulega á borðum hér á bæ 🙂
Sæl, ég reyndi að elda grautinn eftir uppskriftinni og keypti mér Pyrex glerfat sem er eldfast og með loki en það sauð allt uppúr og lokið brotnaði ofan í grautinn.
Við elskum grjónagraut á þessu heimili og mér finnst svo mikil snilld að þurfa ekki að standa yfir potti og geta þess vegna skroppið í sund og komið heim í tilbúinn graut. Ætla því ekki að gefast upp.
Ég á potta sem mega fara í ofn, hvort heldurðu að það sé betra að nota þá eða eldfast mót með álpappír ?
Hefur aldrei soðið uppúr hjá þér ?
Yndislegt síða hjá þér og við bíðum spennt eftir vikumatseðilunum á hverjum sunnudegi, notum þá nánast 100%.
Kv. Guðrún
En leiðinlegt að glerfatið hafi brotnað. Ég hef aldrei lent í því að grauturinn sjóði upp úr. Nota brúnu skálina sem þú sérð hér á myndunum fyrir ofan og set álpappír yfir.
Ef þú átt djúpt eldfast mót þá myndi ég prófa að nota það og setja álpappír yfir (er þó ekki nauðsynlegt) en annars nota pott og sleppa lokinu (setja frekar álpappír).
Æðislega gaman að heyra að vikumatseðlarnir séu að nýtast 🙂
Bestu kveðjur, Svava.
Þessi er eldaður reglulega hjá okkur mikið uppáhald hjá krökkunum 🙂
Þetta er nú meiri snilldin. Drengurinn gæti lifað á grjónagraut ef hann mætti. Setti allt í breiðan pott og álpappír yfir. Setti að vísu 1msk vanillusykur í stað sykurs. Vel mjólkursoðin grjón. Takk fyrir gagnlega síðu
Hef aldrei sett smör í grjónagraut, hvað gerir það fyrir grautinn? Hefur þú notað grautargrjón?
Ætla að prófa þetta í kvöld þar sem annar strákurinn minn elskar grjónagraut en ég elska ekki að standa og hræra 🙂
En má ég spyrja af hverju maður á frekar að nota álpappír en lok (ef maður hitar t.d. í potti)?
Ég var að sjá þessa uppskrift núna og finnst þetta snilldar hugmynd þar sem það er afskaplega leiðinlegt að standa yfir pottinum í klukkutíma. Ein spurning, hefur e-r prófað þetta með möndlumjólk? Ætti það ekki að virka alveg jafn vel? Dóttirin er með mjólkurofnæmi svo við höfum verið að gera grautinn með möndlumjólk hingað til.
Sæl:)
Heirðu var að gera ofnbakaðann grjonagraut og eftir að hann var buin að vera i ofninum var eins og grjonin hefðu ekki drukkið i sig mjolkina svo hann vara bara mjolk og gejon i botninum ? Geturu imyndað þer afhverju það er ?
Bestu kveðjur
Takk! Var fyrst núna að prufa þessa aðferð, elda ekki oft grjónagraut, enda ekki verið aðdáandi. En fékk gríðarlega löngun í hann í dag og ákvað að prufa þessa aðferð þar sem mér finnst ekkert leiðinlegra en að standa yfir potti.
Og jeminn einasti! Þetta er með betri grjonagrautum sem ég hef smakkað! Endaði hann úr lettmjólk frá Örnu og það var bara ekkert verra.
Ég geri þetta alltaf í steypujárnspotti í ofni – klikkar ekki! Grjónagrautur lata fólksins 😉
Gerði minn með möndlumjólk sem heppnaðist mjög vel 🙂
Hef gert hann nokkru sinnum svona en svo prufaði ég að setja hann í slow cooker/crock pot og það er hreint út sagt awesome. Öll sömu hlutföll nema á high stillingu í 2.5-3klst. Ákvað að prufa því yngsta barnið er með álofnæmi og átti ekkert lok til að nota.