Ég fæ reglulega löngun í lasagna og þykir gaman að breyta til og prófa nýjar lasagna uppskriftir. Þó ég sé mjög hrifin af lasagna með rjómakremi þá er þetta sú uppskrift sem hefur hangið lengst með mér og er sú sem ég elda oftast. Hún er í algjöri uppáhaldi hjá krökkunum og ég skil það vel því hún er stórgóð.
Þetta lasagna er mikill og góður fjölskyldumatur og ég hef enn ekki hitt það barn sem þykir það ekki gott. Mér þykir mikill kostur hvað uppskriftin er einföld og flest hráefnin á ég oftast til í skápnum. Hér er engum óþarfa bætt við og eflaust þess vegna sem börnin eru svona hrifin af því. Þetta er góður réttur sem passar bæði til hvunndags og betri tilefna.
Það hafa margir spurt mig út í Chili Explosion kryddið frá Santa Maria sem ég nota mikið og mér þykir nánast ómissandi í hakkrétti. Það virðist vera að valda ruglingi að kryddin frá Santa Maria eru yfirleitt með bláu loki en Chili Explosion kryddið er það ekki. Ég ákvað því að taka mynd af kryddinu ef fleiri eru spenntir fyrir að prófa það. Ég held að það fáist í flestum búðum en ég hef keypt mitt í Bónus.
Lasagna
- 1-2 laukar
- 1 msk smjör eða olía
- 400 gr nautahakk
- 1 dós hakkaðir tómatar
- 2 msk tómatpuré
- 1 grænmetisteningur
- 1 tsk basilika (þurrkuð)
- 1 tsk salt
- nýmalaður svartur pipar
- chili explosion
Ostasósa
- 4 msk hveiti
- 7 dl mjólk
- 2 dl (ca 70 gr) rifinn ostur
- salt
Ofanálag
- Rifinn ostur
Kjötsósan: Skalið og hakkið laukinn. Hitið olíu eða smjör á pönnu og steikið laukinn og nautahakkið. Bætið niðursoðnum tómötum, tómatpuré, basiliku, chili explosion og grænmetistening saman við og leyfið að sjóða við vægan hita undir loki í ca 20 mínútur. Smakkið til með salti og pipar og jafnvel meira af chili explosion eða basiliku.
Ostasósan: Hrærið hveitið saman við smá af mjólkinni í potti. Bætið restinni af mjólkinni út í og hrærið í pottinum á meðan suðan er að koma upp. Látið sjóða við vægan hita í 3 mínútur. Takið pottinn af hellunni og hrærið rifna ostinum út í ásamt smá salti. Athugið að sósan á ekki að sjóða eftir að osturinn er kominn í hana.
Setjið helminginn af ostasósunni í botninn á eldföstu móti og leggið lasagnaplötur yfir. Setjið helminginn af kjötsósunni yfir lasagnaplöturnar og leggið síðan annað lag af lasagnaplötum yfir. Setjið hinn helminginn af kjötsósunni yfir og leggið þriðja lagið af lasagnaplötum yfir. Endið á að setja seinni helminginn af ostasósunni yfir og stráið rifnum osti yfir ostasósuna.
Bakið lasagnað í 15-20 mínútur við 220°.
Sæl 🙂 Mér hefur oftast mistekist að gera Lasagna sem hægt er að borða en í kvöld tókst það með bravör!! Fór eftir þinni uppskrift og örverpið sem er mjög matvandur fékk sér tvisvar á diskinn. Alveg mergjaðslega gott 🙂
Frábær uppskrift! Þú klikkar ekki! 🙂
Eldaði þessa í kvöld og hún heppnaðist svakalega vel. Drengirnir mínir sem segjast ekki borða lasanja borðuðu þetta með bestu list. Á pottþétt eftir að gera þessa aftur.
Hæhæ, ég prófaði að elda þetta og þetta er mjög bragðgott. En ég var að spá.. Þegar ég gerði ostasósuna þá var hún bara eins og lím í pottinum.