Vikan sem leið og frábær sumarkaka

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum

Vikan sem leið var viðburðarík þrátt fyrir að ég hafi legið í flensu meira eða minna alla vikuna. Öggi og krakkarnir voru hress og skelltu sér í miðnæturhlaupið á mánudagskvöldinu. Á meðan sat ég heima, horfði á sjónvarpið og borðaði kassa af litlum Lindubuffum. Það sem ég naut mín. Hlaupagarparnir nutu sín líka og komu alsælir heim. Með á myndinni er Auður Hrönn, vinkona Malínar.

Hlaupagarpar

Tengdó hafa verið í fríi á Ítaliu og komu heim í vikunni. Við vorum spennt að hitta þau og buðum þeim í lasagna, án þess að átta okkur á því að þau væru eflaust komin með nóg af ítölskum mat. Þau þvertóku fyrir að hafa fengið lasagna í ferðinni og gerðu sér matinn að góðu.

Lasagna!

Tengdamamma hugsar alltaf svo vel um mig og gaf mér matreiðslublöð sem hún náði að kaupa þegar hún millilenti í Kaupmannahöfn. Það væri ekki amalegt að gæða sér á kökunum á forsíðunum.

Ný tímarit

Ég bakaði köku sem lofaði góðu en misheppnaðist. Krakkarnir voru þó ekki á sama máli og sögðu hana stórgóða.

Þau fóru langt með að klára hana.

Það fjölgaði í fjölskyldunni þegar tengdó fengu loksins hvolpinn sinn. Hvolpurinn fékk nafnið Sunna og hefur heillað okkur öll upp úr skónum.

Sunna

Föndur fyrir útskriftarköku. Eyþór bróðir útskriftaðist sem hagfræðingur frá Copenhagen Business School á dögunum og blés til veislu í gær.

Ég bakaði köku – uppskriftin er væntanleg!

Í dag átti Öggi síðan afmæli og við buðum fjölskyldunni í kaffi og kruðerí. Ég gerði köku sem vakti rífandi lukku og það er óhætt að segja að hún sé komin í uppáhald. Kakan er einföld, falleg og dásamlega góð.

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum (uppskrift úr Buffé nr. 6, 2012)

  • 1 dós sæt niðursoðin mjólk (400 g) eða tilbúin dulce de leche í krukku (fæst t.d. í Hagkaup)
  • 150 g smjör
  • 300 g digestivekex
  • 1 l. jarðaber
  • 1 poki (100 g) daimkúlur eða 3 fínhökkuð daim
  • 3 dl rjómi

Karamellan (ef notuð er tilbúin Dulce de leche er hoppað yfir þetta skref): Leggið óopnaða dós með sætri niðursoðinni mjólk í stóran pott. Hellið vatni yfir svo það nái vel yfir dósina. Látið sjóða við vægan hita í 2½ klst. án þess að vera með lok á pottinum. Passið að vatnið sé alltaf yfir dósinni, það gæti þurft að bæta vatni í pottinn þegar líður á tímann.

Takið heita dósina úr pottinum og kælið undir köldu vatni. Látið dósina kólna alveg áður en hún er opnuð. Núna er niðursoðna mjólkin orðin að karamellu.

->  það er hægt að kaupa karamelluna tilbúna í krukkum. Þá heitir hún Dulce de leche sauce.

Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum

Smyrjið 24 cm form með lausum botni eða klæðið botninn með smjörpappír. Bræðið smjörið. Myljið digestivekexið í matvinnsluvél. Hellið smjörinu saman við og vinnið saman við kexmylsnuna. Þrýstið kexblöndunni í botninn á forminu og látið svo harðna í ísskáp í um klukkustund.

Hellið karamellunni yfir kexbotninn. Þeytið rjómann og blandið 2/3 af daimpokanum saman við. Breiðið rjómann yfir karamelluna. Leggið jarðaberin yfir og stráið restinni af daim yfir. Látið kökuna standa í ísskáp þar til hún er borin fram.

4 athugasemdir á “Vikan sem leið og frábær sumarkaka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s