Súkkulaðiformkaka með kaffiglassúr

Í gærkvöldi vorum við með steiktan fisk í ofni í matinn og gerðum síðan vel við okkur með nýbakaðri súkkulaðiköku í eftirrétt. Þetta mætti verða að mánudagshefð mín vegna. Ljúfari byrjun á vikunni er varla hægt að fá.

Kakan er með æðislegum kaffikeim og ég mæli með að setja smá rommdropa í glassúrið. Það fer mjög vel saman við kaffibragðið. Ég setti hluta af glassúrinu yfir kökuna og bar restina af því fram í skál, fyrir þá sem vildu setja meira af því yfir kökuna. Það enduðu allir á að gera það.

Súkkulaðiformkaka með kaffiglassúr (uppskrift frá Ida Gran Jansen)

 • 125 g sykur
 • 1 egg
 • 125 g hveiti
 • smá salt
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 50 g kakó
 • 1 dl mjólk
 • 3/4 dl uppáhellt kaffi
 • 2 msk rapsolía

Glassúr

 • 60 g smjör
 • 0.5 dl uppáhellt kaffi
 • 1/2 msk kakó
 • 250 g flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 5 dropar rommdropar (má sleppa)
 • 1 smá salt

Hitið ofninn í 175°og klæðið formkökuform með bökunarpappír. Setjið egg og sykur í hrærivél og þeytið saman á mesta hraða í 5 mínútur. Blandið saman hveiti, salti, matarsóda og kakói. Hrærið þurrefnunum í eggjablönduna ásamt kaffinu, mjólkinni og rapsolíunni. Setjið deigið í formið og bakið í 30-35 mínútur.

Glassúr:

Bræðið smjörið í potti og hrærið hinum hráefnunum saman við þar til blandan er slétt (flórsykurskekkir bráðna í hitanum, hrærið bara áfram þar til þeir eru horfnir). Þegar kakan kemur úr ofninum er stungið með hnífi um hana til að gera smá holur og glassúrnum síðan hellt yfir.

Frosin Nutella-ostakaka með heslihnetum

 

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur. Ég hef undanfarin ár tekið saman árið og birt lista yfir vinsælustu uppskriftir ársins í kringum áramótin en klikkaði á því núna. Það getur þó verið að ég taki saman vinsældarlistann á næstu dögum. Mér þykir alltaf svo gaman að sjá hvaða uppskriftir falla í kramið og verða vinsælar.

Bloggfærslurnar voru færri undir lok árs en ég hefði viljað. Það gafst bara ekki tími fyrir meira. Lokaspretturinn á 2018 var öflugur með útskrift Malínar, þremur afmælum, jólahátíð, áramótum og svo Bostonferð beint í kjölfarið, þar sem ég er stödd í þessum skrifuðu orðum.

Um áramótin prófaði ég tvo nýja eftirrétti sem mig langar að setja hingað inn. Ég ætla að byrja á frosinni ostaköku sem krakkarnir elskuðu. Ég er svo hrifin af eftirréttum sem hægt er að undirbúa með góðum fyrirvara og þessi kaka er einmitt þannig. Leyfið henni aðeins að þiðna og setjið léttþeyttan rjóma og ristaðar heslihnetur yfir rétt áður en kakan er borin fram. Klikkaðslega gott!

Frosin Nutella-ostakaka með heslihnetum – Uppskrift frá Roy Fares

Botn:

 • 100 g smjör
 • 200 g digestivekex
 • 30 g sykur

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið og myljið kexið. Blandið saman hráefnunum og þrýstið blöndunni í 22 cm bökuform með lausum botni. Bakið í miðjum ofni í um 10 mínútur. Látið botninn kólna alveg áður en fyllingin er sett í hann.

Fylling:

 • 400 g Philadelphia rjómaostur, við stofuhita
 • 2,5 dl rjómi
 • 200 g Nutella
 • 100 g púðursykur
 • 1 msk vanillusykur

Hrærið saman Philadelphia rjómaosti, 0,5 dl af rjóma, Nutella, púðursykri og vanillusykri þar til blandan er létt í sér. Hrærið því sem eftir er af rjómanum saman við í smáum skömmtum og hrærið þar til fyllingin er mjúk og létt. Setjið fyllinguna í bökubotninn og látið standa í frysti í að minnsta kosti 2 klst.

Yfir kökuna:

 • 5 dl rjómi
 • 30 g ristaðar hakkaðar heslihnetur (ég þurrrista þær á pönnu)

Takið kökuna út 20 mínútum áður en hún er borin fram. Léttþeytið rjómann og setjið yfir kökuna og endið á að strá ristuðum hökkuðum heslihnetum yfir.

*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes

Skúffukaka

Ég sit við eldhúsborðið með þriðja kaffibolla dagsins og er að fara í gegnum uppskriftir sem mig langar að prófa. Krakkarnir sofa alltaf fram yfir hádegi um helgar og mér þykir svo notalegt að læðast fram, kveikja á útvarpinu og byrja daginn rólega.

Ég er að vona að veðrið lagist svo ég geti farið út og sett útiseríuna upp. Það er farið að dimma svo snemma að það verður notalegt að fá smá ljós á pallinn. Síðan langar mig að baka eitthvað gott með kaffinu. Um daginn bakaði ég þessa skúffuköku eftir uppskrift frá Mitt Kök sem var æðisleg og myndi sóma sér vel með helgarkaffinu. Ég má því til með að mæla með henni á þessum rigningardegi.

Skúffukaka

 • 225 g smjör
 • 2 dl mjólk
 • 5 egg
 • 4 ½ dl sykur
 • 1 ½ msk vanillusykur
 • 1 ¼ dl kakó
 • 3 tsk lyftiduft
 • 6 dl hveiti

Glassúr

 • 75 g smjör
 • ¾ dl sterkt kaffi
 • ½ dl kakó
 • 1 ½ msk vanillusykur
 • 5 dl flórsykur

Yfir kökuna

 • 1 dl kókosmjöl

Hitið ofninn í 175° og klæðið ofnskúffu með bökunarpappír.

Bræðið smjörið, blandið mjólkinni saman við og leggið til hliðar. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er ljós og létt. Sigtið vanillusykur, kakó, lyftiduft og hveiti út í eggja- og sykurblönduna. Bætið smjör- og mjólkurblöndunni saman við og hrærið saman í slétt deig. Setjið deigið í formið og bakið í miðjum ofni í um 20 mínútur.

Glassúr: Bræðið smjörið í potti og hrærið kaffi, kakó, vanillusykur og flórsykur út í. Látið mesta hitann rjúka úr kökunni áður en glassúrinn er settur yfir (best að setja hann yfir kökuna þegar hún er volg). Endið á að strá kókosmjöli yfir.

Marmara-bananakaka

Mér finnst ég hafa hrúgað ansi mörgum uppskriftum af bananakökum hingað inn og held nú áfram að bera í barmafullan lækinn. Það er bara ekki hægt að eiga of margar uppskriftir af bananakökum. Þær geymast vel en klárast þó alltaf strax. Ég baka því oftast tvær í einu því ég veit að fyrri kakan klárast samdægurs. Þessi uppskrift kemur frá Smitten Kitchen og er jafn dásamleg og allt sem kemur þaðan.

Marmara-bananakaka

 • 3 stórir þroskaðir bananar
 • 1/2 bolli (115 g) smjör, brætt
 • 3/4 bolli (145 g) ljós púðursykur
 • 1 stórt egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/4 tsk salt
 • 1 bolli (130 g) plús 1/4 bolli (35 g) hveiti
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/4 bolli (20 g) kakó
 • 3/4 bolli (130 g) súkkulaðidropar (eða hakkað súkkulaði)

Hitið ofn í 180° og smyrjið formkökuform.

Bræðið smjörið og stappið bananana saman við það. Hrærið púðursykri, eggi, vanilludropum, matarsóda og salti saman við. Bætið 1 bolla (130 g) af hveiti saman við og hrærið snögglega saman við deigið.

Setjið helminginn af deiginu í aðra skál (þarf ekki að vera nákvæmt mál en helmingurinn af deiginu er um 365 g, veltur þó á stærðinni á bönununum). Hrærið því sem eftir var af hveitinu  ásamt kanilnum saman við annan helming deigsins. Hrærið kakó og súkkulaðibitum saman við hinn helming deigsins.

Setjið stórar doppur af deigunum í botninn á forminu (það getur verið gott að miða við að setja einn lit í miðjuna á forminu og hinn sitt hvoru megin við). Setjið næsta lag af deigi þannig að ljóst deig fari yfir dökkt deig og öfugt. Endurtakið þar til allt deigið er komið í formið. Notið smjörhníf eða spaða til að blanda deiginu örlítið saman (það getur verið gott að miða við að gera áttur með hnífnum á tveim til þrem stöðum – passið að gera ekki of mikið!).

Bakið kökuna í 55-65 mínútur eða þar til prjónn sem hefur verið stungið í kökuna kemur hreinn upp (það má þó gera ráð fyrir að það komi brætt súkkulaði á hann). Látið kökuna standa í forminu í smá stund áður en hún er tekin úr því.

Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir fyrir helgar sem gætu hentað sem helgarmatur. Nú er hins vegar ekki um auðugan garð að gresja í uppskriftabankanum hjá mér þar sem ég hef satt að segja ekki staðið mig neitt sérlega vel í eldhúsinu upp á síðkastið. Eftir að við komum frá New York hefur verið stöðugt útstáelsi á mér og eini maturinn sem ég hef reitt fram eru hversdagsréttir á borð við steiktan fisk, pulsupasta og hakk og spaghetti.

Ég ætla því að gefa uppskrift af köku núna og það ætti enginn að verða svikinn af henni. Kakan er algjör súkkulaðidraumur! Ef þið eigið ekki steypujárnspönnu þá er hægt að nota eldfast mót eða venjulegt kökuform. Ég notaði pönnuna af því að ég hafði fyrir því að drösla henni heim frá Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og hef lítið sem ekkert notað hana síðan þá (ég furða mig á útlitinu á henni því hún er svo lítið notuð). Það var því kominn tími til að draga hana fram. Berið kökuna fram heita með ís og jafnvel auka súkkulaðisósu. Súpergott!!

Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

 • 100 g smjör
 • 1 dl hveiti
 • 3 dl sykur
 • 3 msk kakó
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1/2 tsk salt
 • 3 egg

Bræðið smjörið. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim út í smjörið. Hrærið eggjunum saman við og hellið deiginu í steypijárnspönnu. Bakið við 175° í um 15 mínútur. Gerið súkkulaðikremið á meðan.

Súkkulaðikrem

 • 200 g mjólkur- eða rjómasúkkulaði, gjarnan með hnetum í (ég var með mjólkursúkkulaði með salthnetum í)
 • 1 dl rjómi

Bræðið súkkulaði og rjómi saman í potti. Hellið blöndunni yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum. Látið standa í smá stund (þannig að mesti hitinn rjúki úr henni) en berið kökuna fram meðan hún er ennþá heit/volg.

Bananarúlluterta

Ég ætlaði að setja vikumatseðil inn um helgina en komst aldrei í það þar sem helgin var gjörsamlega á yfirsnúningi. Þrjár stúdentsveislur, kosningar (með tilheyrandi kosningavöku fram eftir nóttu), saumaklúbbur, skutl á fótboltaæfingu og annað hversdagsamstur gerði það að verkum að ég náði aldrei að setjast almennilega niður við tölvuna. Ég er þó síður en svo að kvarta enda alveg frábær helgi að baki.

Ég bakaði um daginn bananarúllurtertu eftir uppskrift sem ég sá hjá Salt eldhúsi. Ég furða mig á því hvað ég baka sjaldan rúllutertur því þær eru svo fljótgerðar og krökkunum mínum þykja þær svo góðar. Þessi er sérlega góð, enda bæði með súkkulaði og banana, sem er skotheld blanda. Ég mæli með að prófa!

Bananarúlluterta – uppskrift fyrir 8

4 egg
160 g sykur
65 g kartöflumjöl
2 tsk. lyftiduft
3 msk. kakó

4 bananar
4 dl rjómi

20 g súkkulaði, saxað eða rifið gróft

sítrónusafi til að kreista yfir bananana
Hitið ofninn í 250°C, 220 á blástur. Þeytið egg og sykur mjög vel saman eða þar til það er létt og loftmikið. Blandið kartöflumjöli, lyftidufti og kakó saman og sigtið út í eggjamassann, blandið varlega saman með sleikju. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, smyrjið pappírinn með matarolíu. Hellið deiginu í formið og bakið kökuna í miðjum ofni í 4 -5 mín. Setjið örk af bökunarpappír á borðið, stráið svolitlum sykri á hann. Hvolfið kökunni á pappírinn, látið kólna smástund og flettið pappírnum síðan varlega af. Ef það reynist erfitt að ná pappírnum af er ráð að setja rakt viskustykki ofan á smástund og fletta kökkunni af pappírnum með hníf. Látið kökuna kólna.
Þeytið rjómann, takið smávegis frá til að skreyta með. Stappið 3 banana og blandið saman við rjómann sem fer í fyllinguna. Smyrjið bananarjómanum á kökuna og rúllið henni upp. Sprautið eða setjið rjóma ofan á rúlluna með skeið og skreytið með banananasneiðum. Kreistið sítrónusafa yfir bananana svo þeir verði ekki brúnir. Stráið súkkulaði ofan á.

Himnesk Baileyskaka

Malín mín er tvítug í dag, sem þýðir að ég hef verið mamma í 20 ár! Það er enginn sem fangar afmælisdögum eins og hún. Á mánudaginn fagnaði hún því að afmælisvikan væri runnin upp og daginn eftir, 1. maí,  fagnaði hún því að afmælismánuðurinn væri formlega hafinn. Við erum dugleg að nýta hvert tækifæri til að gera okkur glaðan dag en Malín toppar okkur þó öll í fagnaðarhöldunum…

Malín hefur verið sólargeilsinn mínn síðan ég fékk hana fyrst í fangið og ég hef alltaf verið svo súperstolt af henni. Það er leitun að jafn glaðlyndri manneskju og henni. Hún er drífandi, hjálpsöm, sanngjörn og með hjarta úr gulli. Það hefur aldrei verið hægt að tala hana inn á nokkurn skapaðan hlut (ekki einu sinni að prófa tívolítæki eða drekka gosdrykk) og ég hef aldrei þurft að hafa neinar áhyggjur af henni. Hún hefur alltaf verið svo svakalega varkár og ég gleymi því ekki þegar hún var á leikskóla og við gáfum henni nýtt hjól með engum hjálpardekkjum. Hún var svo hneyksluð á þessu kæruleysi og sagði að henni þætti passlegt að taka hjálpardekkin af þegar hún yrði 7 ára. Þar með var það ákveðið.

Hér verður að sjálfsögðu fagnað í kvöld og áfram út vikuna. Bleikt kampavín liggur í kæli og uppáhalds kökur hafa verið bakaðar. Líf og fjör! Ég ætla að enda færsluna á köku sem er með þeim bestu sem ég hef smakkað en uppskriftina fann ég á danskri síðu, Anne au chocolat.  Kakan er best ef hún er bökuð deginum áður en hún er borin fram. Ef þið hafið pláss í ísskápnum þá er gott að geyma hana þar en takið kökuna þó út í tíma svo hún hafi náð stofuhita þegar hún er borin fram. Síðan er hún dásamleg með léttþeyttum rjóma en hann var því miður búinn þegar ég tók myndirnar.

Súkkulaðikaka með Baileys ganache (fyrir 8-10)

 • 200 g suðusúkkulaði
 • 200 g smjör
 • 250 g sykur
 • 5 egg, hrærð léttilega saman
 • 1 msk hveiti

Bræðið smjörið í potti og bætið svo hökkuðu súkkulaði í pottinn. Hrærið í pottinum þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Takið pottinn af hitanum og hrærið sykri í blönduna. Bætið eggjunum smátt og smátt út í og að lokum er hveitinu hrært saman við. Setjið deigið í ca 22 cm kökuform, sem hefur verið klætt með bökunarpappír, og bakið á blæstri i um 25 mínútur við 180°. Passið að baka kökuna ekki of lengi, hún á að vera blaut í sér.

Baileys ganache:
250 g rjómasúkkulaði
1 dl rjómi
1 dl Baileys
smá salt
10 g smjör

Hakkið súkkulaðið og setjið í skál. Setjið rjóma, Baileys og salt í pott og hitið að suðu. Hellið blöndunni strax yfir súkkulaðið og látið standa í 1 mínútur. Hrærið svo saman þar til blandan er slétt. Hrærið smjöri saman við. Það getur verið gott að nota töfrasprota til að fá mjúka áferð en það er ekki nauðsynlegt. Kælið blönduna, hún þykknar við það. Smyrjið yfir kökuna og skreytið að vild.

Mjúk kanilsnúðakaka

Ég byrjaði á þessari færslu í byrjun apríl en af einhverjum ástæðum gleymdist hún hálfkláruð og það var ekki fyrr en í gærkvöldi, þegar Malín fór að segja mér að vinur hennar óskaði sér þessa köku í afmælisgjöf, að ég rankaði við mér. Ég sem er alltaf með lista yfir allt og þykist plana vikurnar svo vel að það á ekkert að geta út af brugðið…

Það er þó óhætt að segja að biðin var þess virði því kakan er æðisleg og núna langar mig mest til að baka hana aftur til að eiga með kaffinu. Ég veit að krakkarnir yrðu alsæl og sjálfri þykir mér svo óendanlega notalegt að eiga eitthvað gott með helgarkaffinu.

Mjúk kanilsnúðakaka

 • 150 g smjör
 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 1½ msk kanill
 • 4 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 ½ dl mjólk

Glassúr

 • 75 g smjör
 • 1 msk rjómi
 • 2-3 tsk kanill
 • 3 ½ dl flórsykur

Yfir kökuna:

 • kókosmjöl

Kakan: Bræðið smjör og látið kólna aðeins (það er gott að setja mjólkina saman við brædda smjörið, þá kólnar það). Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Blandið hveiti, kanil og lyftidufti saman og hrærið ásamt smjörinu og mjólkinni saman við eggjablönduna í slétt deig. Setjið deigið í skúffukökuform í stærðinni 20 x 30 cm, sem hefur verið klætt með smjörpappír. Bakið við 175° í um 20-30 mínútur. Látið kökuna kólna áður en glassúrinn er sett á hana.

Glassúr: Bræðið smjörið og hrærið rjóma, kanil og flórsykur saman við það, þar til glassúrinn er sléttur. Hellið glassúrnum yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.

Mjúk súkkulaðikaka með glassúr og kókos

Mér þykir svo notalegt að eiga heimabakað með helgarkaffinu og myndi helst vilja að það stæði alltaf nýbakað á fallegum kökudiski á eldhúsbekknum yfir helgarnar. Það er auðvitað fjarstæðukenndur draumur, bæði vegna þess að hér er ekki bakað um hverja helgi og líka vegna þess að við klárum oftast það sem bakað er samdægurs. Ef það sem kæmi úr ofninum stæði svo dögum skipti óhreyft á borðinu væri það einfaldlega vegna þess að okkur þætti það ekki gott.

Það eru til óteljandi uppskriftir af góðum súkkulaðikökum og margir halda sér við sína uppáhalds. Ég baka sjálf oftast sömu skúffukökuuppskriftinar (þessa hér eða þessa hér) en stundum bregð ég út af vananum og prófa nýjar uppskriftir. Það gerði ég núna og með frábærum árangri. Kakan var mjúk, bragðgóð og æðisleg með glasi af ískaldri mjólk eða góðum kaffibolla. Klárlega kaka sem klárast samdægurs!

Mjúk súkkulaðikaka með glassúr og kókos – uppskrift frá Lindas bakskola

 • 3 egg
 • 3 dl sykur
 • ½ dl kakó
 • 3 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 125 g smjör, brætt
 • 1 dl mjólk

Glassúr

 • 50 g smjör, brætt
 • 2 msk kakó
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3½ dl flórsykur
 • 1 msk sterkt kaffi (meira eftir þörfum)

Skraut

 • kókosmjöl

Hitið ofninn í 180°. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Blandið kakói, hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman og hrærið saman við eggjablönduna. Hræri bræddu smjöri og mjólk snögglega saman við deigið. Setjið deigið í smurt formkökuform (ég var með hringlaga). Bakið kökuna neðst í ofninum í um 35-40 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu.

Glassúr: Hrærið öllum hráefnunum saman í skál. Þynnið með smá kaffi ef þörf er á. Setjið glassúrinn yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.

Svíþjóðarkaka

Silvíukakan er ein af vinsælustu kökuuppskriftunum hér á blogginu enda er kakan æðislega góð, fljótgerð og hráefnin eru oftast til í skápunum. Ég hef bakað hana óteljandi sinnum og alltaf klárast hún jafn hratt. Um daginn bakaði ég köku sem minnti svolítið á silvíukökuna nema í þessari er botninn klofinn í tvennt og vanillusmjörfylling sett á milli, sem botninn sýgur í sig og gerir hann dásamlega góðan.

Það sem kökurnar eiga sameiginlegt er að botninn er svipaður, það tekur stutta stund að baka þær og hráefnin eru einföld. Mikilvægast af öllu er þó að þær eru báðar æðislega góðar!

Svíþjóðarkaka

 • 3 egg
 • 3 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 dl sjóðandi vatn

Fylling:

 • 100 g smjör
 • 1 dl mjólk
 • 3 msk vanillusykur

Hitið ofn í 175°. Klæðið botn á kökuformi með smjörpappír og smyrjið hliðarnar.

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin mjög létt í sér og ljós. Blandið hveiti og lyftidufti saman við með sleikju. Hellið sjóðandi vatni saman við og hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í um 30-35 mínútur. Kakan á að vera þurr þegar prjóni er stungið í hana.

Fylling: Hitið mjólk og smjör að suðu og hrærið vanillusykri saman við þar til blandan er slétt.

Látið kökuna kólna. Kljúfið hana svo í tvennt, þannig að það sé botn og lok. Hellið mjólkurblöndunni yfir botninn, hellið varlega þannig að kakan nái að sjúga í sig vökvann. Setjið síðan lokið yfir og sigtið flórsykur yfir kökuna.