Mjúk kanilsnúðakaka

Ég byrjaði á þessari færslu í byrjun apríl en af einhverjum ástæðum gleymdist hún hálfkláruð og það var ekki fyrr en í gærkvöldi, þegar Malín fór að segja mér að vinur hennar óskaði sér þessa köku í afmælisgjöf, að ég rankaði við mér. Ég sem er alltaf með lista yfir allt og þykist plana vikurnar svo vel að það á ekkert að geta út af brugðið…

Það er þó óhætt að segja að biðin var þess virði því kakan er æðisleg og núna langar mig mest til að baka hana aftur til að eiga með kaffinu. Ég veit að krakkarnir yrðu alsæl og sjálfri þykir mér svo óendanlega notalegt að eiga eitthvað gott með helgarkaffinu.

Mjúk kanilsnúðakaka

 • 150 g smjör
 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 1½ msk kanill
 • 4 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 ½ dl mjólk

Glassúr

 • 75 g smjör
 • 1 msk rjómi
 • 2-3 tsk kanill
 • 3 ½ dl flórsykur

Yfir kökuna:

 • kókosmjöl

Kakan: Bræðið smjör og látið kólna aðeins (það er gott að setja mjólkina saman við brædda smjörið, þá kólnar það). Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Blandið hveiti, kanil og lyftidufti saman og hrærið ásamt smjörinu og mjólkinni saman við eggjablönduna í slétt deig. Setjið deigið í skúffukökuform í stærðinni 20 x 30 cm, sem hefur verið klætt með smjörpappír. Bakið við 175° í um 20-30 mínútur. Látið kökuna kólna áður en glassúrinn er sett á hana.

Glassúr: Bræðið smjörið og hrærið rjóma, kanil og flórsykur saman við það, þar til glassúrinn er sléttur. Hellið glassúrnum yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Mjúk súkkulaðikaka með glassúr og kókos

Mér þykir svo notalegt að eiga heimabakað með helgarkaffinu og myndi helst vilja að það stæði alltaf nýbakað á fallegum kökudiski á eldhúsbekknum yfir helgarnar. Það er auðvitað fjarstæðukenndur draumur, bæði vegna þess að hér er ekki bakað um hverja helgi og líka vegna þess að við klárum oftast það sem bakað er samdægurs. Ef það sem kæmi úr ofninum stæði svo dögum skipti óhreyft á borðinu væri það einfaldlega vegna þess að okkur þætti það ekki gott.

Það eru til óteljandi uppskriftir af góðum súkkulaðikökum og margir halda sér við sína uppáhalds. Ég baka sjálf oftast sömu skúffukökuuppskriftinar (þessa hér eða þessa hér) en stundum bregð ég út af vananum og prófa nýjar uppskriftir. Það gerði ég núna og með frábærum árangri. Kakan var mjúk, bragðgóð og æðisleg með glasi af ískaldri mjólk eða góðum kaffibolla. Klárlega kaka sem klárast samdægurs!

Mjúk súkkulaðikaka með glassúr og kókos – uppskrift frá Lindas bakskola

 • 3 egg
 • 3 dl sykur
 • ½ dl kakó
 • 3 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 125 g smjör, brætt
 • 1 dl mjólk

Glassúr

 • 50 g smjör, brætt
 • 2 msk kakó
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3½ dl flórsykur
 • 1 msk sterkt kaffi (meira eftir þörfum)

Skraut

 • kókosmjöl

Hitið ofninn í 180°. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Blandið kakói, hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman og hrærið saman við eggjablönduna. Hræri bræddu smjöri og mjólk snögglega saman við deigið. Setjið deigið í smurt formkökuform (ég var með hringlaga). Bakið kökuna neðst í ofninum í um 35-40 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu.

Glassúr: Hrærið öllum hráefnunum saman í skál. Þynnið með smá kaffi ef þörf er á. Setjið glassúrinn yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Svíþjóðarkaka

Silvíukakan er ein af vinsælustu kökuuppskriftunum hér á blogginu enda er kakan æðislega góð, fljótgerð og hráefnin eru oftast til í skápunum. Ég hef bakað hana óteljandi sinnum og alltaf klárast hún jafn hratt. Um daginn bakaði ég köku sem minnti svolítið á silvíukökuna nema í þessari er botninn klofinn í tvennt og vanillusmjörfylling sett á milli, sem botninn sýgur í sig og gerir hann dásamlega góðan.

Það sem kökurnar eiga sameiginlegt er að botninn er svipaður, það tekur stutta stund að baka þær og hráefnin eru einföld. Mikilvægast af öllu er þó að þær eru báðar æðislega góðar!

Svíþjóðarkaka

 • 3 egg
 • 3 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 dl sjóðandi vatn

Fylling:

 • 100 g smjör
 • 1 dl mjólk
 • 3 msk vanillusykur

Hitið ofn í 175°. Klæðið botn á kökuformi með smjörpappír og smyrjið hliðarnar.

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin mjög létt í sér og ljós. Blandið hveiti og lyftidufti saman við með sleikju. Hellið sjóðandi vatni saman við og hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í um 30-35 mínútur. Kakan á að vera þurr þegar prjóni er stungið í hana.

Fylling: Hitið mjólk og smjör að suðu og hrærið vanillusykri saman við þar til blandan er slétt.

Látið kökuna kólna. Kljúfið hana svo í tvennt, þannig að það sé botn og lok. Hellið mjólkurblöndunni yfir botninn, hellið varlega þannig að kakan nái að sjúga í sig vökvann. Setjið síðan lokið yfir og sigtið flórsykur yfir kökuna.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

 

 

Afmæliskaka

Það sem mér þykir best við helgarnar er að geta sofið út og fengið mér góðan morgunmat. Á virkum dögum gef ég mér aldrei tíma til að setjast niður yfir morgunverði heldur geri grænan safa sem ég tek með mér á hlaupum. Um helgar bæti ég upp fyrir það með að sofa lengi (fer létt með 10 tíma án þess að rumska) og sitja lengi yfir morgunverðinum. Oftast verður eggjahræra og Finn Crisp fyrir valinu en núna er ég með æði fyrir ristuðu súrdeigsbrauði með avocadó, sítrónusafa, chili explotion og maldonsalti. Svo gott!

En að máli málanna, kökunni sem ég setti inn á Instagram um síðustu helgi og hef fengið ófáar fyrirspurnir um uppskrift af. Okkur þótti þessi kaka æðisleg! Ég mæli með að sleppa ekki rommdropunum í glassúrnum, þeir gera svo mikið. Á unglingsárum mínum bakaði ég oft súkkulaðiköku með smjörkremi sem var með rommdropum í og ég man enn hvað mér hún æðislega góð. Uppskriftin er stór og við nutum hennar með kvöldkaffinu í þrjú kvöld í röð. Svo notalegt!

Afmæliskaka

 • 4 egg
 • 400 g sykur
 • 300 g smjör
 • 50 g suðusúkkulaði
 • 3 dl mjólk
 • 575 g hveiti
 • 1 msk kakó
 • 5 tsk lyftiduft
 • 4 tsk vanillusykur

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og þykk (það tekur um 5 mínútur á mesta hraða á hrærivélinni).

Bræðið smjörið, takið pottinn af hitanum og hrærið hökkuðu súkkulaði saman við þar til blandan er slétt. Hrærið mjólk saman við og leggið til hliðar.

Blandið hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman. Hrærið smjörblöndunni og þurrefnablöndunni á víxl saman við eggjablönduna. Hrærið saman í slétt deig. Klæðið ofnskúffu með bökunarpappir og setjið deigið í hana. Bakið við 200° í miðjum ofni í 25 mínútur (ef þið notið skúffukökuform í staðin fyrir ofnskúffu þá þarf að bæta 10-15 mínútum við bökunartímann). Útbúið glassúrinn á meðan kakan er í ofninum því hann fer yfir heita kökuna.

Glassúr

 • 125 g smjör
 • 500 g flórsykur
 • 1 msk kakó
 • 4 msk uppáhellt kaffi
 • 1/2 tsk rommdropar
 • 1 tsk vanillusykur

Bræðið smjörið í potti. Lækkið hitann og bætið kaffi, kakói, vanillusykri, rommdropum og og flórsykri í pottinn og hrærið saman þar til glassúrinn er sléttur. Látið pottinn standa yfir lágum hita þannig að glassúrinn haldist heitur án þess að hann sjóði. Þegar kakan kemur úr ofninum er glassúrinn settur yfir heita kökuna. Skreytið að vild.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Mjúk súkkulaðikaka

 

Hvað passar betur með helgarkaffinu en mjúk og dásamleg súkkulaðikaka? Mér þykir nýbökuð súkkulaðikaka gjörsamlega ómótstæðileg. Þessa bakaði ég um síðustu helgi þegar ég var ein heima, sem var afleit hugmynd. Ég fékk mér kökuna með kaffinu yfir daginn og borðaði hana svo í kvöldmat. Ég varð því himinlifandi þegar ég kom heim úr vinnunni daginn eftir og krakkarnir voru búnir með kökuna.

 

 

Næst mun ég baka kökuna þegar krakkarnir eru heima því það er augljóst að ég hef enga sjálfsstjórn þegar kemur að þessari dásamlegu súkkulaðiköku.

Mjúk súkkulaðikaka

 • 3 egg
 • 4½ dl sykur
 • 4 ½ dl hveiti
 • 2 ½ msk kakó
 • 3 tsk lyftiduft
 • 1 ½ msk vanillusykur
 • 2 ½ dl mjólk
 • 150 g smjör, brætt

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin létt og ljós. Hrærið hveiti, kakó og vanillusykur saman við. Hrærið að lokum bræddu smjöri og mjólk saman við þar til deigið er slétt. Setjið í hringlaga form og bakið við 174° í 40-45 mínútur.

Krem

 • 100 g smjör
 • 1 ½ – 2 dl matreiðslurjómi
 • 4 msk sykur
 • 2 tsk kartöflumjöl
 • 2 msk kakó

Setjið öll hráefnin í pott og látið sjóða saman við vægan hita þar til kremið byrjar að þykkna. Hellið kreminu yfir heita kökuna og látið kökuna svo kólna. Berið kökuna fram með þeyttum rjóma.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Nutellafylltar blondies

Ég held að ég hafi aldrei verið eins sein í jólabakstrinum og þetta árið. Ég bakaði piparlakkrístoppana í nóvember sem kláruðust samstundis og síðan hefur tíminn bara flogið. Ég sem vil alltaf eiga sörur og saffransnúða í frystinum áður en aðventan byrjar klikkaði algjörlega þetta árið.

Þó ég hafi ekki staðið mig í smákökubakstrinum hef ég þó bakað ýmislegt annað. Þessar nutellafylltu blondies bauð ég upp á hér heima eitt kvöldið og daginn eftir kláruðum við þær. Okkur þóttu þær dásamlega góðar og ekki síðri daginn eftir.

Nutellafylltar blondies (uppskrift frá Ambitious Kitchen)

 • 1 bolli smjör
 • 2 bollar púðursykur
 • 2 egg
 • 1 msk vanilludropar
 • 2 bollar hveiti
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 • ¼ tsk salt
 • 2 bollar dökkt súkkulaði, grófhakkað (ég notaði suðusúkkulaðidropana frá Síríus)
 • 1 bolli Nutella (16 msk)
 • sjávarsalt til að strá yfir

Hitið ofn í 175° og klæðið skúffukökuform (í sirka stærðinni 23 x 33 cm, má líka vera aðeins minna) með smjörpappir.

Bræðið smjör í potti yfir miðlungsháum hita. Þegar smjörið byrjar að freyða er byrjað að hræra í pottinum. Eftir nokkrar mínútur byrjar smjörið að brúnast  í botninum á pottinum, haldið þá áfram að hræra og takið af hitanum um leið og smjörið er komið með gylltan lit og farið að gefa frá sér hnetulykt. Takið smjörið strax úr pottinum og setjið í skál til að koma í veg fyrir að það haldi áfram að brúnast. Látið smjörið kólna áður en lengra er haldið.

Hrærið saman smjör og sykur þar til hefur blandast vel. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og hrærið þar til blandan er mjúk og létt. Bætið þurrefnunum varlega saman við og endið á að hræra varlega súkkulaðinu saman við deigið.

Skiptið deiginu í tvennt. Setjið helminginn í botninn á kökuforminu (deigið kann að virðast of lítið til að fylla út í formið en hafið ekki áhyggjur af því þótt það verði bara þunnt lag, það á eftir að hækka!). Setjið Nutella jafnt yfir (það getur verið gott að setja matskeiðar af Nutella með jöfnu millibili yfir deigið og dreifa svo úr því með sleif eða hníf). Endið á að setja seinni helminginn af deiginu yfir og passið að það hylji alveg Nutellafyllinguna. Bakið í 23-27 mínútur eða þar til kanntarnir á kökunni eru orðnir gylltir á lit. Það er betra að baka hana aðeins styttra en lengur, svo hún verði frekar blaut í sér en ekki þurr. Stráið sjávarsalti yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum og látið hana síðan standa í 20 mínútur áður en hún er skorin í bita.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Kókoskúlukaka

Krakkarnir mínir eru öll sólgin í kókoskúlur og þegar ég fer til Svíþjóðar reyni ég alltaf að kaupa sænskar kókoskúlur þar til að taka með heim. Okkur þykja þær bestar. Þegar Malín kom heim frá Stokkhólmi um daginn kom hún heim með bæði venjulegar kókoskúlur og kókoskúlur með dökku súkkulaði, sjávarsalti og karamellukurli. Þær voru dásamlegar. Í Ikeaferðum kippi ég oft kókoskúlum með mér, krökkunum til mikillar gleði. Það ætti því kannski ekki að koma á óvart að hér heima eru oft gerðar kókoskúlur og þá er þessi uppskrift vinsælust en þessi þykir okkur sú allra besta. Það er bara aðeins meira maus að gera þær og því verða hinar oftar fyrir valinu.

Um daginn bakaði ég síðan kókoskúluköku og var með í eftirrétt. Það þarf eflaust ekki að taka það fram að hún sló rækilega í gegn hér heima. Þetta er svo dásamlega einföld kaka sem er hrærð saman í potti með sleif. Það fylgir því bakstrinum lítið uppvask og ekkert vesen. Ég vil hafa kaffið sterkt í henni en það er auðvitað smekksatriði. Síðan þykir mér gott að hafa hana aðeins blauta í sér. Með léttþeyttum rjóma verður kakan gjörsamlega ómótstæðileg!

Kókoskúlukaka 

 • 125 g smjör
 • smá salt
 • 3 dl sykur
 • 1/2 dl kakó
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1 dl haframjöl
 • 1 msk kaffi (gjarnan sterkt kaffi)
 • 1 dl hveiti
 • 2 egg

Skraut

 • kókosmjöl

Hitið ofninn í 180°.

Bræðið smjörið í rúmgóðum potti. Bætið salti, sykri og kakói í pottinn og hrærið vel. Bætið öllum öðrum hráefnum í pottinn og hrærið saman í deig. Setjið deigið í smurt kökuform og stráið kókos yfir. Bakið neðst í ofninum í 20-24 mínútur. Látið kólna í forminu og berið síðan fram með léttþeyttum rjóma.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave