Í gær tendruðum við annað aðventuljós, Betlehemljósið, og í dag eru bara tvær vikur til jóla. Ótrúlegt hvað þessar vikur líða hratt. Mér finnst ég ekki enn hafa náð að skreyta almennilega en það stendur þó til bóta í vikunni.
Ég man varla eftir jafn annasamri og skemmtilegri viku eins og þeirri sem leið. Eftir saumaklúbba og gönguhóp fyrripart vikunnar fór ég á jólahlaðborð á Kolabrautinni á föstudagskvöldinu og á Frostrósartónleikana á laugardagskvöldinu. Við Öggi vorum sérlega spennt fyrir tónleikunum því við buðum Malínu með okkur en það hefur lengi verið draumur hjá henni að fara á Frostrósartónleika. Hún var að vonum glöð þegar við sögðum henni að við værum að fara og það var ekki annað hægt en að smitast af upplifun hennar á tónleikunum. Í vikunni ætlum við Öggi enn og aftur í Hörpu og þá á jólatónleika KK og Ellenar. Þau hafa lengi verið í uppáhaldi og jóladiskurinn þeirra hljómar hér allan desembermánuð. Ég get því varla beðið.
Öggi kom mér á óvart með annarri aðventugjöf. Núna gaf hann mér æðislega bók, stútfulla af girnilegum súkkulaðiuppskriftum. Við Malín erum búnar að liggja yfir bókinni, flett síðunum fram og til baka og okkur langar í allt sem í henni er. Kannski jólagjafahugmynd fyrir sælkera?
Ég endaði vikuna á því að baka jólasnúðana okkar og hef aldrei áður verið jafn sein í því. Ég hef bakað þessa snúða í mörg ár og hef þá alltaf tilbúna fyrir aðventuna. Þeir eru með því besta sem við fáum og það var því mikil gleði á heimilinu þegar ilmurinn af þeim fór að berast um húsið.
Uppskriftin hefur verið í fórum mínum síðan á Svíþjóðarárum okkar. Ég man að það var engin önnur en Charlotte Perelli, sænska söngkonan sem sigraði Eurovision 1999 við lítinn fögnuð íslendinga, sem gaf þessa uppskrift. Ég er eflaust ein af fáum íslenskum aðdáendum hennar og þykir jólaplatan hennar, Rimfrostjul, með þeim fallegri sem ég veit um.
Uppskriftin er mjög stór og ég frysti snúðana alltaf um leið og þeir koma úr ofninum. Það jafnast fátt við að hita sér snúð með kaffinu á aðventunni og þó uppskriftin sé stór þá klárast snúðarnir alltaf fyrir jól.
Saffransnúðar með marsípani
- 300 g smjör
- 1 líter mjólk
- 2 pokar þurrger
- 2 dl sykur
- 1 tsk salt
- 2,2-2,5 lítrar hveiti (ég mæli það aldrei heldur nota bara eins mikið og mér þykir þurfa)
- 1 g saffran
Fylling
- brætt smjör
- rifið marsípan
- kanilsykur
- vanillusykur (má sleppa)
Bræðið smjörið í potti og bætið mjólkinni saman við. Hitið blönduna í 37°.
Setjið gerið í skál og hellið mjólkurblöndunni yfir. Bætið saffran saman við og hrærið aðeins í blöndunni. Bætið sykri og salti saman við.
Hellið hveitinu í lítramál beint úr pokanum (þessu hef ég alltaf sleppt) og bætið saman við mjólkurblönduna. Farið varlega af stað með hveitið og ekki setja allt í einu. Vinnið deigið vel saman og hafið það eins blautt og þið komist upp með til að snúðarnir verði ekki þurrir.
Látið deigið hefast undir viskastykki í 30 mínútur (ég læt það oft hefast aðeins lengur). Hnoðið deigið þá á hveitistráðu borði. Skiptið deiginu í þrjá hluta og fletjið hvern hluta út í aflanga köku.
Smyrjið bræddu smjöri yfir deigið, stráið kanilsykri síðan yfir smjörið, þar næst rifnu marsípani og að lokum smá vanillusykri. Rúllið deiginu upp í rúllu, skerið í sneiðar og setjið í stór muffinsform.
Látið snúðana hefast undir viskastykki í 30 mínútur.
Penslið snúðana með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir þá.
Bakið við 250° í 5-8 mínútur.
Ég er nú alveg með þér í liði varðandi Charlotte! 😉 Það er aldeilis að Öggi er að slá í gegn á aðventunni! En hann græðir nú líka á þessum gjöfum þar sem að þú galdrar örugglega eitthvað gómsætt fram úr þessum bókum. 🙂 Þetta eru hrikalega girnilegir snúðar hjá þér! Fékkstu mandelmassa hér? Ég hef bara séð hér það sem merkt marsipan frá Odense. Ég keypti einmitt fullt af mandelmassa núna út í Stokkhólmi (sleppti samt basilikunni í þetta sinn! 😉 )
Ég er ekki hissa að heyra að þér líki við Charlotte, enda ertu með sérlega góðan smekk 🙂 Öggi veit vel hvað hann er að gera og nokkuð víst að hann á eftir að njóta góðs af þessum gjöfum. Það má kannski segja að þetta séu gjafir sem gefa hihihi…
Mandelmassann hef ég einmitt líka hingað til keypt í Svíþjóð en núna var verið að selja hann í Ikea. Ég er að spá í að fara að ná mér í meira á meðan hann er til. Veit samt ekki hvort þeir selji basilikuna 🙂
Mætti nota pressuger í stað þurrgers, mér gengur svo illa að með þurrgerið.
Takk fyrir frábæra síðu, ég er búin að prófa ýmislegt af henni og finnst mér uppskriftirnar algjörlega skotheldar og gott að fara eftir þeim.
Ekki áttu góða uppskrift af jólagraut?
Sæl
Hvar fær maður svona perlusykur ? 🙂
Sæl
Takk fyrir frábæra síðu, langar að prófa Saffransnúðana en finn hvergi möndlumassann sem þú bendir á, búin að leita víða. Er hægt að nota 60% möndlumassa sem fæst út í búð? Er magnið 200 g í eina uppskrift?
Takk takk kv. Sandra
Datt inn í þessa umræðu….flottar uppskriftir hér! var að baka snúðana og notaði marsipan ( odense) með 60% mandelmassa.Kom vel út finnst mér og allir mjög ánægðir með snúðana.200 gr passaði akkúrat í uppskriftina! Er mest hrædd um að þurfa að baka meira fyrir jól…….snúðarnir hverfa hreinlega!!
VÁ hvað þessi snúðar eru æði 😋 Ég og elsti strákurinn minn gerðum þá um daginn, öðruvisi en sjúklega góðir 😊 takk fyrir allar frábæru uppskriftirnar