Þá er einn skemmtilegasti mánuður ársins runninn upp. Ég hef alltaf verið svo mikið jólabarn og elska þennan árstíma. Jólahlaðborð, jólatónleikar, jólasaumaklúbbar og hittingar með vinahópum. Síðan eigum við strákarnir öll afmæli í desember. Það er því sjaldan dauð stund.
Í ár er ég óvenju sein í jólabakstrinum. Malín hefur bakað nokkrar sortir en þær hafa allar klárast jafn óðum. Hún fyllti þó frystinn af jólasnúðunum sem okkur þykja ómissandi á aðventunni og bakaði sörur, en þær kláruðust áður en aðventan rann upp og það þarf því að baka annan umgang sem fyrst. Þær verða að vera til með kaffinu yfir aðventuna.
Ég nýtti tækifærið í gær og eldaði góðan mat í tilefni af fyrstu aðventunni, svínalund í sósu sem er svo góð að það er nánast hægt að borða hana sem súpu. Við erum hrifin af kartöflumús með en hrísgrjón og salat passar auðvitað líka vel. Aðalmálið er að ná sem mestri sósu með hverjum bita!
Svínalund í rjómalagaðri balsamiksósu (uppskrift fyrir 4-5)
- um 900 g svínalund
- smjör
- salt og pipar
Sósa
- 2 dl vatn
- 5 dl rjómi
- 1-1½ msk sojasósa
- 2-3 msk fljótandi nautakraftur frá Oscar
- 200 g Philadelphia rjómaostur (1 askja)
- ½-1 msk balsamik gljái
- salt og pipar
Hreinsið svínalundina og skerið í sneiðar. Bræðið smjör á pönnu og brúnið kjötið. Takið kjötið af pönnunni og leggið á disk á meðan sósan er útbúin (ekki þvo pönnuna!).
Setjið vatn á pönnuna og látið sjóða upp með steikingarsmjörinu. Látið soðið renna í gegnum sigti ef þörf er á en setjið það síðan aftur á pönnuna. Hrærið rjóma, sojasósu og nautakrafti saman við og látið suðuna koma upp. Bætið Philadelphia rjómaosti út í og látið sjóða saman í slétta sósu. Hrærið reglulega í pönnunni. Smakkið til með balsamik gljáa, salti og pipar. Bætið kjötinu í sósuna og látið sjóða saman þar til kjötið er fulleldað.
*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes