Mér þykja sörurnar vera ómissandi á aðventunni, rétt eins og saffransnúðarnir, og það kæmi ekki til greina að láta aðventuna líða án þeirra. Það jafnast ekkert á við að setjast niður með krökkunum eftir vinnu með heitan saffransnúð og á kvöldin með Ögga og sörurboxinu. Þetta er desemberdekur sem er mér kært og ég mun halda í.
Það tók mig þó nokkurn tíma að finna góða uppskrift að sörum og þegar mér fannst ég vera komin með réttu uppskriftina þá skrifaði ég hana inn í eina af uppskriftarbókum mínum og kallaði þær Svövur. Það var gert í gríni en nafnið hefur haldist við þær hér á bæ, mér til mikils heiðurs. Ég á þó ekkert í uppskriftinni heldur einfaldlega valdi hana úr hópi uppskrifta sem ég hafði sankað að mér.
Ég veit að þetta eru ekki fljótbökuðustu smákökurnar en tíminn sem fer í þær er hverrar mínútu virði og vel það. Ég hef lagt það í vana minn að baka botnana deginum áður en ég set kremið og hjúpinn á. Fljótlegast er að setja kremið í sprautupoka og sprauta því beint á botnana og fallegastar verða þær með því að nota teskeið til að dreifa úr kreminu þannig að það sé þykkast í miðjunni og þynnist út að köntunum. Ég vil hafa sörurnar þannig að kremið í miðjunni sé ekki þynnra en botninn. Síðan nota ég Nóa-Síríus súkkulaði til að hjúpa þær með því mér þykir það svo gott. Það má þó vel nota hvaða súkkulaði sem er, t.d. bragðbætt súkkulaði eins og appelsínusúkkulaði.
Sörur
- 200 g möndlur
- 180 g flórsykur
- 3 eggjahvítur
- salt á hnífsoddi
Hitið ofninn í 180°. Malið möndlurnar fínt í matvinnsluvél og blandið flórsykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að hvíturnar renni úr. Blandið möndlunum og flórsykrinum varlega saman við með sleikju. Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeiðar og setjið á bökunarpappír. Bakið í ca 12 mínútur.
Krem
- 5-6 msk sýróp (velgt)
- 6 eggjarauður
- 300 g smjör
- 2 msk kakó
- 2 tsk kaffiduft (instant kaffi sem ég myl fínt í mortéli)
Velgjið sýrópið. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru orðnar kremgular og þykkar. Hellið sýrópinu þá í mjórri bunu saman við og þeytið á meðan. Síðan er mjúku smjöri bætt í og þeytt á meðan. Bætið kakó og kaffi út í og hrærið vel saman. Látið kremið kólna í ísskáp í 1-2 klst. áður en það er sett á kökurnar.
Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á sörubotnana. Notið skeið til að slétta úr kreminu þannig að það þynnist við kanntana. Kælið kökurnar vel, helst í frysti, áður en þær eru hjúpaðar.
Hjúpur
- 400 g suðusúkkulaði
Skerið súkkulaðið í bita og bræðið yfir vatnsbaði. Látið kólna aðeins áður en kremhlutanum á sörunum er dýft ofan í.
Afar girnilegt! Hvar færðu svona mót fyrir sörurnar?
kv
Guðrúnþ
Þetta er silíkonmotta sem ég keypti í vefversluninni hjá Salt eldhúsi. Bakhliðin á henni er alveg slétt og því hægt að nota hana undir hvað sem er 🙂
Spyr eins hvar færðu svona mót ?
Kv.
Rósa Ingólfs.
Hvað með smjörið, hvenær er það sett í kremið?
Ég sé að ég hef gleymt að segja frá því – er búin að laga það núna 🙂 Takk fyrir ábendinguna.
Takk fyrir 😉
Girnó!! Setur þú súkkulaði i kremið??
Nei, ég set bara kakó og kaffi í kremið 🙂 Ég hjúpa þær síðan með súkkulaðinu.
Mig langar að spyrja hvort þú temprir súkkulaðið áður en þú dýfir kökunum í bráðið suðusúkkulaðið. Ég hef alltaf heyrt að geri maður það ekki verði það grátt en þínar líta svo vel út 🙂
Nei, ég bræði súkkulaðið bara varlega yfir vatnsbaði og tek það af hitanum áður en allt súkkulaðið hefur bráðnað. Ég hef aldrei lent í því að súkkulaðið verði grátt við það.
Það getur líka verið gott að grófhakka súkkulaðið, bræða helminginn yfir vatnsbaði og þegar það hefur bráðnað að taka það af hitanum og blanda seinni helmingnum saman við.
Sæl Svava,
Ég hef mjög gaman af því að lesa þetta blogg þitt. Í sambandi við að bræða súkkulaði þá veit ég til þess að sumir nota örbylgjuofn. Hef ekki prófað það sjálf og þori það ekki án þess að vita hvernig það reynist hjá þeim sem hafa reynslu.
Fyrirfram þökk,
Guðríður
Sæl og takk fyrir frábært blogg. Rakst á þessa uppskrift og fíla að það þurfi ekki að bræða saman sykur og vatn. En hvað verða þetta margar sörur ca.?
Sæl Margrét og fyrirgefðu sein svör. Ég man því miður ekki hvað uppskriftin gefur margar sörur en ég stefni á að baka þær um helgina og get þá sett fjöldann sem ég fæ úr uppskriftinni inn 🙂
Sæl varstu búin að sjá ca hvað þú færð margar sörur úr uppskriftinni ???
Sæl
eru þetta stór eða lítil egg?
Heil og sael,
thessi uppskrift er frabaer. Eg hef aldrei almennilega filad sorur fyrr en eg profadi thessa uppskrift. Malid er ad florsykur i smjorkreminu er of vaemid ad minu mati en med syropi eru thaer alveg aedi! Minar er ekki alveg svona fallegar, eg set marengs botninn i ofnskuffu, smer svo kreminu goda a og pensla sukkuladi yfir. En bragid er alveg afbragds gott. Takk fyrir frabaert og fallegt blogg 🙂
Kvedja,
Elisabet
Sæl
Er hitastigið miðað við blastursofni eða venjulegum?
ert þú að nota tilbúið síróp eða sýður þú það sjálf?
Takk fyrir frábæra uppskrift. Heppnaðist fullkomnlega og eru fallegar og góðar. Gleðilega hátíð.
Gaman að heyra! Takk fyrir kveðjuna og gleðilega hátíð sömuleiðis ❤
er hægt að nota eitthvað annað en kaffiduft?
Mig langar lika til að forvitnast hvort þú notir bara kaffiduftið út í kakóið eða leysir þú það upp í vatni áður en þú blandar því saman við?
Ég nota bara kaffiduftið, þ.e. ég leysi það ekki upp í vatni.
Þú getur skipt kaffiduftinu út fyrir eitthvað annað eða einfaldlega sleppt því, bara eftir smekk 🙂
Hvaða sýróp er notað?
Hvað eru margar Sörur í uppskriftinni ca.
Sæl,
Er í lagi að gera kremið deginum áður ?