Mig langar til að byrja á að þakka ykkur fyrir allar fallegu kveðjurnar sem ég hef fengið vegna viðtalsins í kökublaði Vikunnar. Þær hlýja mér inn að hjartarótum og gleðja mig meira en orð fá lýst. Þúsund þakkir ♥
Núna er síðasta helgi fyrir aðventu gengin í garð sem þýðir söru- og jólasnúðabaksturshelgi hjá mér. Ég vil alltaf vera búin að baka sörur og snúða til að eiga í frystinum þegar desember gengur í garð. Ég ætlaði að flýta fyrir mér í gærkvöldi og gera sörubotnana en gat svo ekki látið þar við sitja og rétt eftir miðnætti kláraði ég að hjúpa síðustu kökurnar. Það var góð tilfinning að setjast niður með fyrstu söru ársins, vitandi af fullum boxum í frystinum og aðventunni handan við hornið.
Ég held mig alltaf við sömu uppskriftina og birti hana hér fyrir jólin í fyrra. Leyfi henni að fylgja aftur núna.
Sörur (uppskriftin gefur 60-70 kökur)
- 200 g möndlur
- 180 g flórsykur
- 3 eggjahvítur
- salt á hnífsoddi
Hitið ofninn í 180°. Malið möndlurnar fínt í matvinnsluvél og blandið flórsykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að hvíturnar renni úr. Blandið möndlunum og flórsykrinum varlega saman við með sleikju. Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeiðar og setjið á bökunarpappír. Bakið í ca 12 mínútur.
Krem
- 5-6 msk sýróp (velgt)
- 6 eggjarauður
- 300 g smjör
- 2 msk kakó
- 2 tsk kaffiduft (instant kaffi sem ég myl fínt í mortéli)
Velgjið sýrópið. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru orðnar kremgular og þykkar. Hellið sýrópinu þá í mjórri bunu saman við og þeytið á meðan. Síðan er mjúku smjöri bætt í og þeytt á meðan. Bætið kakó og kaffi út í og hrærið vel saman. Látið kremið kólna í ísskáp í 1-2 klst. áður en það er sett á kökurnar.
Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á sörubotnana. Notið skeið til að slétta úr kreminu þannig að það þynnist við kanntana. Kælið kökurnar vel, helst í frysti, áður en þær eru hjúpaðar.
Hjúpur
- 400 g suðusúkkulaði
Skerið súkkulaðið í bita og bræðið yfir vatnsbaði. Látið kólna aðeins áður en kremhlutanum á sörunum er dýft ofan í.
Æði, girnilegt. En langaði að forvitnast hvernig sýróp þú notar. Takk
Ég var núna með sýróp frá Dan Sukker og fannst það koma mjög vel út. Hef hingað til notað sýrópið sem er í grænu áldósunum, það er líka gott.
Takk fyrir alveg hreint frábært blogg, Svava!
Myndirnar af nýbökuðum sörum freistuðu… ég ætla að mana sjálfa mig í sörubakstur í kvöld (ein heima og börnin sofnuð!) eftir að hafa lesið þessa færslu frá þér. Vonandi verður það eins auðvelt og skrifin þín bera með sér (þrátt fyrir að margar vinkonur mínar hafa átt misjafna daga í sörubakstri).
Líst vel á þig Harpa! Þetta er ekkert mál, bara svolítið tímafrekt. Passaðu bara að spara ekki kremið á þær, það er svo gott að hafa vel af því 🙂
Her. Hopið tú skylir feyrisku. 🙂 Skylji eg tað rætt, at køkurnar kunnu geymast í frystiskápið.? Í fall, hvussu leingið? Og hvussu leingið tina, innan tær kunnu etast.? Vinarliga Jákup
Já, það á að geyma kökurnar í frystinum. Þær taka enga stund að þiðna, bara nokkrar mínútur 🙂
Ætla að gera þessar. En hvar fékkstu hreindýrin á myndinni?
Ég fékk hreindýrin í verslun á Laugarvegi sem heitir Fakó. Þau eru frá House doctor og fást því eflaust víða, t.d. í Púkó og Smart eða Tekk company 🙂
Sæl
Langar svo að vita hvar þú færð rauðu og hvítu böndin á pakkana þína?
Ég fékk þau í Ikea 🙂
Takk fyrir bloggið þitt, kíki reglulega inn til þín. Mig langar að deila smá til þín: ég var á konfektnámskeiði um daginn, sú sem kenndi okkur hafði búið til sörukrem til að fylla inn í molana, hún hafði sett núgat í kremið, það er æði! Mæli með því á sörunar.
Frábærar uppskriftir hjá þér 🙂 Mig langar svo að spyrja þig …hvar fékkstu grænu skálina sem þú ert með sörurnar í ?