Sörubakstur

Sörur

Mig langar til að byrja á að þakka ykkur fyrir allar fallegu kveðjurnar sem ég hef fengið vegna viðtalsins í kökublaði Vikunnar. Þær hlýja mér inn að hjartarótum og gleðja mig meira en orð fá lýst. Þúsund þakkir ♥

Sörur

Núna er síðasta helgi fyrir aðventu gengin í garð sem þýðir söru- og jólasnúðabaksturshelgi hjá mér. Ég vil alltaf vera búin að baka sörur og snúða til að eiga í frystinum þegar desember gengur í garð.  Ég ætlaði að flýta fyrir mér í gærkvöldi og gera sörubotnana en gat svo ekki látið þar við sitja og rétt eftir miðnætti kláraði ég að hjúpa síðustu kökurnar. Það var góð tilfinning að setjast niður með fyrstu söru ársins, vitandi af fullum boxum í frystinum og aðventunni handan við hornið.

Sörur

Ég held mig alltaf við sömu uppskriftina og birti hana hér fyrir jólin í fyrra. Leyfi henni að fylgja aftur núna.

Sörur (uppskriftin gefur 60-70 kökur)

  • 200 g möndlur
  • 180 g flórsykur
  • 3 eggjahvítur
  • salt á hnífsoddi

Sörur

Hitið ofninn í 180°. Malið möndlurnar fínt í matvinnsluvél og blandið flórsykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að hvíturnar renni úr. Blandið möndlunum og flórsykrinum varlega saman við með sleikju. Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeiðar og setjið á bökunarpappír. Bakið í ca 12 mínútur.

Krem

  • 5-6 msk sýróp (velgt)
  • 6 eggjarauður
  • 300 g smjör
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk kaffiduft (instant kaffi sem ég myl fínt í mortéli)

Velgjið sýrópið. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru orðnar kremgular og þykkar. Hellið sýrópinu þá í mjórri bunu saman við og þeytið á meðan. Síðan er mjúku smjöri bætt í og þeytt á meðan. Bætið kakó og kaffi út í og hrærið vel saman. Látið kremið kólna í ísskáp í 1-2 klst. áður en það er sett á kökurnar.

Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á sörubotnana. Notið skeið til að slétta úr kreminu þannig að það þynnist við kanntana. Kælið kökurnar vel, helst í frysti, áður en þær eru hjúpaðar.

Sörur

Hjúpur

  • 400 g suðusúkkulaði

Skerið súkkulaðið í bita og bræðið yfir vatnsbaði. Látið kólna aðeins áður en kremhlutanum á sörunum er dýft ofan í.