Í gær pakkaði ég nokkrum sörum í poka, skrifaði kort til mömmu og gaf henni til að eiga með helgarkaffinu. Hún varð svo ánægð með uppátækið. Mér þykja sörur ómótstæðilega góðar og alveg ómissandi um jólin.
Í dag ætlum við að kíkja á bókamessuna í Ráðhúsinu en fyrst bíður afmælisveisla. Mér finnst ég gera lítið annað en að pakka inn gjöfum þessa dagana en mun seint kvarta undan því, mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að pakka inn. Í dag á tónlistarmaður afmæli og því fengu nótur að prýða pakkann. Merkispjaldið prentaði ég út á netinu.
Matseðill vikunnar býður upp á sitt lítið af hverju. Hakkabuffið á fimmtudeginum er tilhlökkunarefni en ég held að ekkert toppi orange chicken réttinn á föstudeginum.
Mánudagur: Af hverju ekki að byrja vikuna á plokkfiski og rúgbrauði? Stórgóð máltíð að mínu mati.
Þriðjudagur: Lasagnabaka þykir mér æðislega góð. Ég ber hana fram með salati og allir verða glaðir.
Miðvikudagur: Aspassúpa passar vel í miðri viku. Það tekur stutta stund að útbúa hana og máltíðin er ódýr.
Fimmtudagur: Þetta hakkabuff með parmesan í raspi þykir mér stórkostlega gott.
Föstudagur: Orange chicken er ómótstæðilegur réttur sem við Öggi höfum boðið ófáum matargestum upp á við miklar vinsældir.
Með helgarkaffinu: Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði er kaka sem að mér þykir passa vel að bjóða upp á þegar aðventan gengur í garð.
Takk innilega fyrir vikumatseðlana! Æðislegir réttir og frábært að fá þetta svona uppsett fyrir vikuna.
Má ég spurja hvaðan nótnapappírinn er ??
Hann er úr Ikea 🙂
Maður minn hvað Orange kjúllinn er góður, en djúpsteikingarbrælan er svakaleg.
Væri hægt að gera hann öðruvísi en með djúpsteikingu?
Alveg er ég sammála þér, hann er æði! Ég kann því miður enga aðra aðferð en að djúpsteikja kjúklinginn og efast um að hann verði jafn góður sé því sleppt. Bara að setja viftuna á fullt og opna alla glugga 🙂
úff, get ekki beðið eftir að prófa orange chicken. Elska einmitt báða þessa rétti og fæ mér þá í Boston 🙂
má forvitnast um hvaða veitingastað þið farið á í Boston fyrir þessa rétti ? Svona til að hafa fyrir næstu ferð 🙂
Við uppgötvuðum þessa rétti þegar við vorum með son okkar í aðgerðum á barnaspítalanum í Boston. Veitingastaðurinn var rétt hjá spítalanum og var ekkert sérlega spennandi að heimsækja. Ég mun því seint mæla með að gera sér ferð á hann þó að maturinn hafi verið góður 🙂
skil þig 🙂
Við höldum þá bara áfram að finna okkur staði þegar að við erum úti, eigum einn sem er í uppáhaldi í Financial hverfinu (en get ómögulega munað nafnið á honum núna en rata þangað 🙂 )
kveðja
Kristín S
Takk fyrir frábærar uppskriftir og skemmtilega síðu, þú ert algjörlega búin að bjarga matarmálum heimilisins 🙂 Hvar fékkstu glæru pokana undir sörurnar?
En æðislega gaman að heyra Berglind! Ég fékk pokana í Söstrene Grene 🙂
Hæhæ, ég var að spá hvort þú gætir gert auka dálk í „Uppskriftir“ síðunni sem heitir Vikumatseðlar og hafa þar bara vika 1, vika 2 osfrv. Mig hefur stundum langað að skoða eldri matseðla hjá þér og þarf þá að fletta og leita af þeim hér á síðunni 🙂