Ég er búin að vera með pannerað hakkabuff á heilanum síðan ég las komment hér á síðunni frá Halldóri Tjörva. Til að fá hugarró kom ég við í búð á leiðinni heim í gær og keypti nautahakk. Þegar heim var komið reyndist lítið til af meðlæti á heimilinu, enda kom hakkabuff alveg óvænt inn á vikumatseðilinn, en það má alltaf tína eitthvað til. Það kom á daginn að kartöflur, hrásalat, sveppasósa og sulta fór ljómandi vel með buffinu, þó að rauðbeður og lauksósa hefðu eflaust ekki skemmt fyrir.
Það er langt síðan ég komst að því að mér þykir allt í raspi gott en hamingjan hjálpi mér hvað mér þótti þetta góður matur. Ég sendi Halldóri Tjörva mínar bestu þakkir fyrir kommentið sem varð til þess að þessi ljúffengu buff enduðu á diskunum okkar.
Hakkabuff með parmesan í raspi
- 500 g nautahakk
- 100 g rifinn parmesan ostur
- 1 laukur, fínhakkaður (ég mauka hann með töfrasprota)
- 1 hvítlauskrif
- 2 egg
- 2 msk Dijon sinnep
- 1 tsk salt
- 1/2 tsk pipar
Hitið ofninn í 175° og sjóðið kartöflur.
Blandið nautahakki, parmesan osti, lauki, pressuðu hvítlauskrifi, sinnepi, eggjum, salti og pipar saman. Mótið 8 buff og leggið til hliðar.
Takið 3 skálar og setjið hveiti í eina, upphrært egg í eina og rasp í eina.
Veltið buffinu fyrst upp úr hveiti, síðan eggi og að lokum raspi. Steikið upp úr vel af smjöri og olíu og færið svo yfir í eldfast mót. Þegar öll buffin hafa verið steikt eru þau sett í ofninn í ca 10 mínútur.
Gerði þessa í gærkveldi og þeir eru svaka góðir, mæli með þeim. Takk fyrir flotta síðu!
Ég gerði þetta í gærkvöldi og þetta var algjört æði! Takk fyrir frábæra síðu, ég er búin að prófa nokkra rétti og ég held að við séum hreinlega með sömu bragðlaukana hahhaha 🙂
Kveðja frá áhugamanneskju um mat.
Það eru ekki allir sem nenna að velta fyrst uppúr hveiti á undan eggi og raspi. Ég sé þú nennir því og það gerir gæfumuninn, finnst mér.
Ég geri það til dæmis alltaf þegar ég steiki kótilettur í raspi, sem ég er farinn að gera æ oftar í seinni tíð. Ég nánast djúpsteiki þær í ólífuolíu og smjöri, tek hryggjarbeinið úr (ekki rifin) og ber gjarnan fram smjörsteiktar kartöflur með (eða roasted í smjöri eða andafitu) og það grænmeti sem andinn blæs mér í bjóst hverju sinni.
Kótilettur í raspi, lamba- og svína. Tær snilld.
Eini vandinn finnst mér þegar maður klárar þær í ofni er að halda þeim stökkum. Trixið mitt er að láta þær ekki liggja í fitunni heldur hafa þær á grind.
Hef aldrei haft sinnep í buffinu. Góð hugmynd, prófa það næst 🙂
Ég gerði þetta í gær, svakalega gott 🙂
Ég var að gera þessar áðan, þær eru mjög góðar. Ég átti reynndar ekki Dijon sinnep en notaði bara það sem ég átti til í ísskápnum sem var gróft sinnep 🙂 Takk fyrir flottar og einfaldar uppskriftir 🙂
Ég er hætt að steikja kótilettur á pönnu eins og mamma kenndi mér. Ég lærði það á hótelinu þar sem ég vann sem unglingur að smyrja steikarform með olíu, setja kótilettur (eða annað sambærilegt) í formið og smjörklípu á hvert stykki og baka í ofni. Aldeilis frábært og þá er maður laus við allt frussið í kringum pönnuna.
Annars þakka ég margar frábærar uppskriftir.
Valgerður
Gott dijonsinnep er ómissandi í svona rétti, mæli líka með snitselinu hans Ragnars Freys, aldrei komist nær himnaríki en þegar við elduðum það í fyrsta sinn. Ég man ekki hvort hann er með sinnep í sinni uppskrift en það má ekki vanta á þessu heimili.
Æðisleg uppskrift 😀
Prófaði líka að setja piparost í staðinn fyrir parmessan og það var líka æði 😀
Takk fyrir dásamlega síðu og uppskriftir 😀