Þegar börnin voru sofnuð í gærkvöldi kom yfir mig skyndileg löngun til að baka brauð. Öggi var búinn að koma sér fyrir í sjónvarpsófanum, tilbúinn í Fraiserkvöld með mér (við erum búin að vera að horfa á Fraiser-þættina frá upphafi og erum loksins komin á lokaseríuna) þegar ég sagði honum frá brauðbaksturslöngun minni. Hann varð að vonum himinlifandi við tilhugsunina um nýtt brauð í morgunmat og hvatti mig til verka.
Það er óhætt að segja að brauðbaksturinn hafi ekki tekið kvöldið frá okkur því 10 mínútum síðar var brauðið komið í ofninn. Það tekur nefnilega ekki meira en nokkrar mínútur að hræra í það og áður en maður veit af stendur nýbakað brauð á eldhúsborðinu.
Gróft sírópsbrauð
- 4 dl hveiti
- 2 dl heilhveiti
- ½ dl rúgmjöl
- ½ tsk salt
- ½ dl sólblómafræ
- ½ dl hörfræ
- ½ dl rúsínur
- ½ dl hakkaðar heslihnetur
- 5 dl súrmjólk (eða ab-mjólk)
- 1 tsk matarsódi
- 1 dl síróp
Hrærið súrmjólk, sírópi og matarsóda saman í skál og leggið til hliðar. Blandið öllum öðrum hráefnum saman og hrærið súrmjólkurblöndunni vel saman við. Setjið deigið í smurt brauðform (ég velti fimmkornablöndu um það eftir að ég smurði formið) og stráið ef fræjum eða höfrum yfir (má sleppa). Bakið neðarlega í ofninum við 175° í 60 mínútur.
Búin að baka þetta frábæra brauð. takkitakk