Plokkfiskur

Plokkfiskur

Við byrjum vikuna á hversdagsmat sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, plokkfiski. Ég elska plokkfisk og eldaði hann svo oft á tímabili að krakkarnir fengu nóg og settu hnefann í borðið. Núna hafa þau tekið hann aftur í sátt og enginn er ánægðari en ég.

Plokkfiskur

Ég verð að viðurkenna að ég kaupi plokkfiskinn allt of oft tilbúinn. Oftast kaupi ég hann frá Grími (sem fæst í matvöruverslunum) en annars í fiskbúðum. Ég set vel af osti yfir áður en hann fer í ofninn og ber hann svo fram með rúgbrauði frá HP og smjöri.

Í þetta sinn gerði ég þó plokkfiskinn eftir uppskrift sem hefur lengi verið í fórum mínum og mig minnir að ég hafi tekið upp úr Gestgjafanum á sínum tíma. Ögga þótti hann svo mikið betri en plokkfiskurinn sem ég er vön að kaupa og mér fannst hann góð tilbreyting. Ég er ekki viss um að börnin hafi fundið mikinn mun en öll borðuðu þau af bestu lyst.

Plokkfiskur

Plokkfiskur

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2-3 msk smjör
  • ½-1 tsk karrí
  • 4-5 msk hveiti
  • 3½ – 4 dl mjólk
  • ½ tsk svartur pipar
  • ½ tsk salt
  • ½ tsk fiskikraftur
  • 600 g soðin ýsa eða þorskur
  • 300 g soðnar kartöflur í bitum
  • 1-2 tsk dijon sinnep
  • 120 g rifinn ostur

Plokkfiskur

Hitið ofninn í 200°. Saxið lauk og hvítlauk og steikið upp úr smjöri við miðlungsháan hita þar til laukurinn verður glær. Setjið karrý saman við og steikið í ½ mínútu til viðbótar. Stráið hveiti yfir og hrærið vel saman. Bætið mjólkinni saman við í smáum skömmtum og hrærið stöðugt á meðan. Setjið fiskikraft út í ásamt pipar og salti. Látið sjóða við vægan hita um stund og hrærið í á meðan.  Skerið fiskinn og kartöflurnar í bita og bætið þeim út í með sleif.

Setjið blönduna í eldfast mót. Hrærið sinnepi saman við rifinn ost og stráið yfir plokkfiskinn. Bakið í 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað. Berið fram með rúgbrauði.

15 athugasemdir á “Plokkfiskur

  1. Þetta er mjög svipað því sem ég geri, set þó oftast góða klípu af smurosti í jafninginn og það er æði 😉

  2. Mjög svipað fiskgratíninu sem tengdamamma bjó til í den, nema hún hrærði útí einsog einu eggi áður en ostinum var dreift yfir og allt sett í ofninn.
    Ég kallaði gratínið stundum í hálfum hljóðum plokkfisk í sparifötunum.
    Heima hjá mér var plokkfiskur bara svissaður laukur í smjöri, sósa bökuð upp úr því og soðnum fiski (afgöngum af soðningunni) og kartöflum blandað varlega samanvið. Saltað og piprað og seytt rúgbrauð (helst frá Bernhöft) með miklu smjöri borðað með. Sinnep haft með ef til var. Hjá tengdamömmu voru oft hafðar rauðbeður með gratíninu.

  3. Takk fyrir hugmyndinna að bæta dijon sinnepi útí – það bjó til alveg nýjan plokkfisk í sparifötunum á mínu heimili.

  4. Ég hef aldrei eldað plokkfisk en sá uppskriftina þína og hún hljómaði svo einföld og girnileg svo ég sló til í gær og vá hvað þetta var gott, við „hjónin“ átum yfir okkur, hafði rúgbrauð með en bý ekki á Íslandi svo það var ekki alveg eins og þetta íslenska en gott samtsem áður, mér var skipað að passa uppá þessa uppskrift og elda oft, svo ég þakka bara fyrir okkur héðan frá Manchester 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s