Bananabrauð með Nutella

Bananabrauð með Nutella

Þetta mjúka, bragðgóða og dásamlega bananabrauð hefur verið á borðum hjá okkur þessa helgina. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar ég horfði á þrenna banana á síðasta snúningi í gærmorgun og þegar ég mundi eftir Nutella krukkunni í skápnum þá vissi ég strax hvað byði okkar.

Bananabrauð með Nutella

Í þessu brauði fara bananar og nutella ævintýralega vel saman og ég get ekki lýst því hvað það var gott að koma heim eftir göngutúr í snjónum í dag og fá heitt súkkulaði með rjóma og góða sneið af brauðinu.

Bananabrauð með Nutella

Uppskriftin miðast við tvenn brauð og ekki veitir af. Annað brauðið kláraðist strax í gær en hitt höfum við gert okkur að góðu í dag. Ég get fullyrt að það var ekki síðra daginn eftir, enn svo lungamjúkt og gott.

Bananabrauð með Nutella (uppskrift í tvenn brauð)

  • ½ bolli smjör
  • 1 ½ bolli sykur
  • 2 egg
  • 3 þroskaðir bananar
  • 1 bolli sýrður rjómi
  • 1 tsk vanillusykur (eða dropar)
  • 1 tsk kanil
  • 1/4 tsk salt
  • 3 tsk matarsódi
  • 2 1/4 bolli hveiti
  • 4 msk nutella

Hitið ofninn í 175°. Hrærið saman smjör og sykur þar til hefur blandast vel. Bætið eggjum, stöppuðum banönum, sýrðum rjóma, vanillusykri og kanil saman við og hrærið þar til allt hefur blandast saman. Bætið salti, matarsóda og hveiti út í og hrærið áfram þar til allt hefur blandast vel. Bætið að lokum nutella út í og hrærið svo það blandist vel í deigið.

Smyrjið tvenn formkökuform vel og skiptið deiginu jafnt í þau. Bakið í 35-45 mínútur eða þar til prjóni stungið í brauðið kemur hreinn upp.

Bananabrauð með Nutella

14 athugasemdir á “Bananabrauð með Nutella

  1. Mér finnst voðalega leiðinlegt að vera með leiðindi, sérstaklega þar sem mér finnst síðan þín frábær, en í þessari færslu notarðu orðið „tvenn“ tvisvar og „þrenna“ einu sinni þar sem þú átt við „tvö“ og „þrjá“. Tvenn og þrenn (og fern) notar maður þegar maður talar um pör af einhverju, t.d. tvennir skór, þrenn gleraugu, tvennar buxur. Þrennir bananar væru þá sex bananar, ef þeir væru venjulega hafðir í pörum.

    Uppskriftin lofar góðu – ég er ákveðin í að prófa!

  2. Hér er smá athugasemd á Sólveigu Sigurðardóttir.

    Það er fallegt af þér að benda á stafsetningarvillur eða málfarsvillur hjá þeim sem hafa ekki sömu þekkingu og þú. Væri samt ekki við hæfi að senda athugasemdir þínar í einkaskilaboðum. Annaðhvort á facebook eða í tölvupósti, eða er þér kannski umhugað um það að aðrir viti hvað þú ert góð í stafsetningu?

    kveðja,
    Anna

    1. Kærar þakkir fyrir ábendinguna Anna, þetta er alveg rétt hjá þér! Ég viðurkenni fúslega þau mistök að mér bara datt það ekki einu sinni í hug að senda einkaskilaboð. Ég mun að sjálfsögðu gera það í framtíðinni, ef ég geri eitthvað sambærilegt aftur (hef reyndar aldrei gert það áður, mér er einmitt ekki sérstaklega umhugað um að sýna mig í athugasemdum á netinu). Ég ætlaði reyndar að benda á að mér fyndist í góðu lagi að athugasemd minni væri eytt, hvort sem hún væri tekin til greina eða ekki. Það sama á við um þessa athugasemd, Svava, og kærar þakkir fyrir frábæra síðu!

    1. Nutella er súkkulaðismjör í plastkrukku, yfirleitt ekki fjarri sultukrukkum og öðru góðgæti í búðarhillunum. Hrikalega gott ofan á ristað brauð:) Annað mál, mér fannst Sólveig benda á málfarsvillur á mjög penan og kurteisan hátt og kannski óþarfi að taka því svona illa Anna. Óþarfi að vera með hroka og gefa í skyn að hún sé að hampa eigin íslenskukunnáttu á kostnað þessa frábæra bloggs. Nóg af tuði, ég er farin að baka brauð, líst vel á þessa uppskrift 😀

    1. Já, það er einhver blástur á ofninum hjá mér. Hef þó bakað þetta brauð í blásturslausum ofni á sama hita þannig að ég veit ekki hversu öflugur blásturinn er í mínum ofni!

  3. Sæl,

    Ég hef margoft smakkað þetta brauð og þykir það með eindæmum ljúffengt en ég hef aldrei bakað það svo mig langar að spyrja þig, hvað eru þessi form stór sirka?

    Kveðja
    Sæunn

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s