Bananabrauð með Nutella

Bananabrauð með Nutella

Þetta mjúka, bragðgóða og dásamlega bananabrauð hefur verið á borðum hjá okkur þessa helgina. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar ég horfði á þrenna banana á síðasta snúningi í gærmorgun og þegar ég mundi eftir Nutella krukkunni í skápnum þá vissi ég strax hvað byði okkar.

Bananabrauð með Nutella

Í þessu brauði fara bananar og nutella ævintýralega vel saman og ég get ekki lýst því hvað það var gott að koma heim eftir göngutúr í snjónum í dag og fá heitt súkkulaði með rjóma og góða sneið af brauðinu.

Bananabrauð með Nutella

Uppskriftin miðast við tvenn brauð og ekki veitir af. Annað brauðið kláraðist strax í gær en hitt höfum við gert okkur að góðu í dag. Ég get fullyrt að það var ekki síðra daginn eftir, enn svo lungamjúkt og gott.

Bananabrauð með Nutella (uppskrift í tvenn brauð)

 • ½ bolli smjör
 • 1 ½ bolli sykur
 • 2 egg
 • 3 þroskaðir bananar
 • 1 bolli sýrður rjómi
 • 1 tsk vanillusykur (eða dropar)
 • 1 tsk kanil
 • 1/4 tsk salt
 • 3 tsk matarsódi
 • 2 1/4 bolli hveiti
 • 4 msk nutella

Hitið ofninn í 175°. Hrærið saman smjör og sykur þar til hefur blandast vel. Bætið eggjum, stöppuðum banönum, sýrðum rjóma, vanillusykri og kanil saman við og hrærið þar til allt hefur blandast saman. Bætið salti, matarsóda og hveiti út í og hrærið áfram þar til allt hefur blandast vel. Bætið að lokum nutella út í og hrærið svo það blandist vel í deigið.

Smyrjið tvenn formkökuform vel og skiptið deiginu jafnt í þau. Bakið í 35-45 mínútur eða þar til prjóni stungið í brauðið kemur hreinn upp.

Bananabrauð með Nutella