Þegar við Gunnar vorum í Stokkhólmi í sumar rifum við okkur upp á hverjum morgni til að ná morgunverðinum á hótelinu. Það þarf mikið til að hann rífi sig upp á morgnana, hvað þá í miðju sumarfríi, en morgunmaturinn á Haymarket er bara svo góður að það er ekki hægt að sofa hann frá sér. Gunnar endaði alltaf morgunmatinn á að fá sér sænskar pönnukökur og síðasta morguninn lofaði ég að gera sænskar pönnukökur þegar við kæmum heim.
Ég hef enn ekki staðið við að baka hefðbundnar sænskar pönnukökur (uppskrift af þeim er hér) en ég gerði þó aðra tegund af sænskri pönnuköku í kvöldmat um daginn, fyllta ofnskúffupönnuköku. Svíar gera oft pönnuköku í ofnskúffu og setja þá jafnvel beikon í hana, en hér er fyllingu smurt yfir pönnukökuna og henni svo rúllað upp. Svo gott!
Pönnukökurúlla með skinku- og ostafyllingu (uppskrift fyrir 6)
Deig:
- 125 g smjör
- 2,5 dl hveiti
- 3 dl mjólk
- 4 egg
Fylling:
- 3 msk smjör
- 4 msk hveiti
- 3 dl mjólk
- 1,5 dl rjómi
- 3 msk fínhökkuð basilika
- 100 g skinka, skorin í bita
- 1 dl rifinn ostur
- 150 g kokteiltómatar
- 1 tsk salt
- smá svartur pipar
Yfir:
- 1,5 dl rifinn ostur
Hitið ofn í 200°. Bræðið smjör í potti. Hrærið hveiti og mjólk saman við smjörið og hitið þar til deigið losnar frá könntum pottarins (hrærið reglulega í pottinum). Takið pottinn af hitanum og hrærið einu eggi í einu saman við deigið með handþeytara. Setjið deigið í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og bakið í neðri hluta ofnsins í um 20 mínútur. Þegar pönnukakan er tilbúin er best að hvolfa henni á nýjan bökunarpappír og taka bökunarpappírinn sem pönnukakan bakaðist á af. Látið pönnukökuna kólna.
Fylling: Bræðið smjörið í potti. Hrærið hveiti saman við. Bætið mjólk smátt og smátt saman við og hrærið stöðugt í pottinum á meðan. Bætið rjóma í pottinn og látið sjóða við vægan hita í um 5 mínútur. Bætið basiliku, skinku og osti í pottinn. Skerið tómatana í tvennt og hrærið þeim saman við fyllinguna. Smakkið til með salti og pipar.
Dreifið fyllingunni yfir pönnukökuna og rúllið henni upp frá langhliðinni. Setjið pönnukökuna á bökunarpappír með sárið niður. Stráið rifnum osti yfir og bakið í 10 mínútur. Berið pönnukökuna fram heita.