Pönnukökurúlla með skinku- og ostafyllingu

Þegar við Gunnar vorum í Stokkhólmi í sumar rifum við okkur upp á hverjum morgni til að ná morgunverðinum á hótelinu. Það þarf mikið til að hann rífi sig upp á morgnana, hvað þá í miðju sumarfríi, en morgunmaturinn á Haymarket er bara svo góður að það er ekki hægt að sofa hann frá sér. Gunnar endaði alltaf morgunmatinn á að fá sér sænskar pönnukökur og síðasta morguninn lofaði ég að gera sænskar pönnukökur þegar við kæmum heim.

Ég hef enn ekki staðið við að baka hefðbundnar sænskar pönnukökur (uppskrift af þeim er hér) en ég gerði þó aðra tegund af sænskri pönnuköku í kvöldmat um daginn, fyllta ofnskúffupönnuköku. Svíar gera oft pönnuköku í ofnskúffu og setja þá jafnvel beikon í hana, en hér er fyllingu smurt yfir pönnukökuna og henni svo rúllað upp. Svo gott!

Pönnukökurúlla með skinku- og ostafyllingu (uppskrift fyrir 6)

Deig:

 • 125 g smjör
 • 2,5 dl hveiti
 • 3 dl mjólk
 • 4 egg

Fylling:

 • 3 msk smjör
 • 4 msk hveiti
 • 3 dl mjólk
 • 1,5 dl rjómi
 • 3 msk fínhökkuð basilika
 • 100 g skinka, skorin í bita
 • 1 dl rifinn ostur
 • 150 g kokteiltómatar
 • 1 tsk salt
 • smá svartur pipar

Yfir:

 • 1,5 dl rifinn ostur

Hitið ofn í 200°. Bræðið smjör í potti. Hrærið hveiti og mjólk saman við smjörið og hitið þar til deigið losnar frá könntum pottarins (hrærið reglulega í pottinum). Takið pottinn af hitanum og hrærið einu eggi í einu saman við deigið með handþeytara. Setjið deigið í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og bakið í neðri hluta ofnsins í um 20 mínútur. Þegar pönnukakan er tilbúin er best að hvolfa henni á nýjan bökunarpappír og taka bökunarpappírinn sem pönnukakan bakaðist á af. Látið pönnukökuna kólna.

Fylling: Bræðið smjörið í potti. Hrærið hveiti saman við. Bætið mjólk smátt og smátt saman við og hrærið stöðugt í pottinum á meðan. Bætið rjóma í pottinn og látið sjóða við vægan hita í um 5 mínútur. Bætið basiliku, skinku og osti í pottinn. Skerið tómatana í tvennt og hrærið þeim saman við fyllinguna. Smakkið til með salti og pipar.

Dreifið fyllingunni yfir pönnukökuna og rúllið henni upp frá langhliðinni. Setjið pönnukökuna á bökunarpappír með sárið niður. Stráið rifnum osti yfir og bakið í 10 mínútur. Berið pönnukökuna fram heita.

Brauðtertan hennar mömmu

Ég skammast mín ofan í tær fyrir að hafa gleymt að setja inn uppskriftina að brauðtertunni hennar mömmu, sem svo margar báðu um þegar ég birti mynd af henni fyrr í vetur. Ég hef sjaldan fengið jafn margar fyrirspurnir um uppskrift eins og þessa. Mamma gerir brauðtertuna við hvert tækifæri sem gefst og kom með tvær síðast þegar það var landsleikur. Hún gerir bestu brauðtertur sem ég veit um og þessar hendir hún í eins og ekkert sé.

Þegar ég fór í saltkjöt og baunir til mömmu í síðustu viku var ég ákveðin í að skrifa niður uppskriftina hjá henni. Eyþór bróðir mætti síðan með kampavín og sagði okkur svo frábærar fréttir að ég steingleymdi að fá hana. Núna er ég þó loksins komin með uppskriftina, eða öllu heldur aðferðina, því mamma gerir brauðtertuna alltaf eftir tilfinningu. Þegar hún heyrði að uppskriftin væri á leiðinni á bloggið ætlaði hún að fara að hræra í sósuna til að geta gefið nákvæm mál. Klukkan var 23 á sunnudagskvöldi og ég tók það ekki í mál!

Ég veit ekki af hverju, en ég hef alltaf kallað þessa brauðtertu fyrir þá færeysku. Ég hlýt að hafa misheyrt eitthvað í gamla daga og það var ekki fyrr en nýlega þegar ég spurði mömmu hvort hún ætlaði að gera þá færeysku, að í ljós kom að mamma vissi bara ekkert um hvað ég var að tala. Í kjölfarið komst ég að því að brauðtertan hefur aldrei gengið undir þessu nafni og tengist Færeyjum ekki neitt! Það er því stórfurðulegt að ég hafi haldið að brauðtertan heiti sú færeyska í öll þessi ár og hafi komist upp með að kalla hana því nafni án athugasemda.

Brauðtertan hennar mömmu 

Það eru engin nákvæm mál og í raun hægt að nota hvað sem er á brauðtertuna. Mamma tekur skorpuna af brauði (hún notar ýmist fransbrauð eða heilhveitibrauð) og rífur brauðið í botn á eldföstu móti (hún segir að það sé betra að rífa það en að raða sneiðunum í formið, því þá gangi betur að fá sér af brauðtertunni). Síðan hrærir hún saman 2-3 kúfaðar msk af majónesi og 2 kúfaðar msk af sýrðum rjóma (það er best að nota 34% sýrða rjómann) og kryddar sósuna með smá af karrý og aromat (ca 1/2 tsk af hvoru). Hér er mikilvægt að smakka til. Sósuna setur hún síðan yfir brauðið, hún á að fara aðeins inn í brauðið en það á ekki vera þykkt sósulag yfir því (því mömmu finnst það svo ólekkert). Síðan er raðað því sem hugurinn girnist yfir. Mamma er yfirleitt með doppu af rauðkáli í miðjunni, síðan raðar hún í kringum það harðsoðnum eggjum, ananas, skinku, rækjum, reyktum laxi eða silungi (þá sleppir hún annað hvort skinkunni eða rækjunum). Stundum hefur hún hangikjöt, egg, blandað grænmeti og fl. Það virðist sama hvað hún setur yfir, þetta alltaf jafn brjálæðislega gott!

Mozzarellafylltar brauðbollur

Ég lofaði í gær uppskrift af gjörsamlega himneskum brauðbollum og ætla svo sannarlega ekki að svíkja það. Hér heima kolféllu allir fyrir þessu brauði og það er nú viku síðar enn verið að tala um hvað það var gott. Brauðbollurnar passa æðislega vel með súpum en þær eru í raun góðar með hverju sér er… og líka einar og sér! Jafnvel með pizzasósu til að dýfa þeim í þar sem þær minna á ostafylltar brauðstangir. Ég notaði tilbúið pizzadeig í bollurnar og lét þær ekkert hefast. Rúllaði bara brauðinu utan um ostinn, raðaði í form, setti hvítlaukssmjör, krydd og ost yfir áður en það fór inn í ofn. Einfalt og brjálæðislega gott!

Mozzarellafylltar brauðbollur

 • 1 rúlla af pizzadegi fyrir þykkan botn (eða annað pizzadeig)
 • 20 stykki (tæplega 2 pokar) af fersku mozzarella (litlu kúlunum)
 • smjör
 • hvítlauksrif
 • pizzakrydd
 • rifinn ostur

Rúllið deiginu út og skerið það í 20 bita. Látið renna af ostinum. Vefjið hverjum deigbita utan um mozzarellakúlu og rúllið í kúlu, þannig að deigið hjúpi ostinn alveg. Endurtakið með alla deigbitana (það munu verða 4 kúlur eftir af ostinum, sem hægt er að borða á meðan eða geyma). Smyrjið eldfast mót eða kökuform (ég notaði 20 cm kökuform og klæddi botninn með bökunarpappír) og raðið kúlunum í formið. Bræðið smör og pressið hvítlauksrif yfir. Penslið blöndunni yfir brauðbollurnar. Kryddið með pizzakryddi og endið á að strá smá rifnum osti yfir. Bakið við 225° í um 15 mínútur.

Pestójólatré

Á föstudagskvöldinu vorum við með eitt af því besta sem ég veit og minn uppáhalds föstudagsmat, osta og skinkur. Fyrir utan hvað mér þykir það gott þá er ekki hægt að vera með einfaldari mat en að raða góðgæti á bakka og taka tappa úr góðri rauðvínsflösku. Engin eldamennska og nánast ekkert uppvask. Síðan veit ég fátt skemmtilegra en að sitja lengi yfir matnum og það gerist alltaf þegar það er plokkmatur. Þá sitjum við yfir matnum þar til við förum að sofa. Malín gerir oft grín af því að við sitjum hátt í heilan vinnudag yfir ostum og rauðvíni en það er bara svo notalegt og gaman.

Við héldum að við yrðum bara tvö í mat en eftir því sem leið á daginn fjölgaði við matarborðið og á endanum voru allir í mat. Svo gaman! Krakkarnir borða öll osta en kannski ekki sem kvöldmat eins og ég geri. Ég keypti því kokteilpulsur sem ég bætti á borðið, setti jólaplaylista á spotify og gerði pestójólatré upp á stemninguna. Það reyndist vinsælast af öllu!

Pestójólatréið er bæði fallegt á borði og gaman að bera fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu sem verða þá nokkurs konar brauðstangir. Sniðugt að bera fram með ostum eða með fordrykk, þá þarf bara að hafa servéttur með. Einfalt, jólalegt og æðislegt!

Pestójólatré

2 rúllur ferskt smjördeig
1 lítil krukka pestó
1 upphrært egg
maldonsalt

Rúllið annari smjördeigsrúllunni út á ofnplötu. Smyrjið pestó yfir og leggið hina smjördeigsrúlluna yfir. Þrýstið saman þannig að ekkert loft sé á milli. Skerið út jólatré og skerið síðan lengjur upp jólatréið sem er síðan snúið til að mynda greinar. Penslið jólatréið með upphrærðu eggi og stráið maldonsalti yfir. Bakið við 200° á blæstri í um 10-12 mínútur eða þar til jólatréið er orðið loftkennt og hefur fengið fallegan lit. Berið strax fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu og borða eins og stangir.

Gratínerað sveppabrauð

Eftir að ég byrjaði á grænu þriðjudagsfærslunum finnst mér alltaf vera þriðjudagur. Þetta er skemmtilegt verkefni sem gerir það að verkum að ég vel betur grænmetisréttina sem ég elda hér heima. Ég fæ ekki betur séð en að það falli vel í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Það eru enn tveir þriðjudagar eftir í mánuðinum þannig að fjörið heldur áfram.

Ég les reglulega vefsíðuna Cup of Jo og það var einmitt þar sem ég datt niður á þessa uppskrift af gratíneruðu sveppabrauði. Uppskriftin kemur frá Deb sem heldur úti blogginu Smitten Kitchen og ég hafði gaman af að lesa það sem hún skrifar við færsluna, sérstaklega þar sem hún vísar til sveppabrauðsins á Buvette, sem er dásamlegur lítill staður sem ég borðaði morgunverð á í París sl. haust. Ég fékk mér þó ekki sveppabrauðið þar og get því lítið tjáð mig um gæði þess, en þetta gratíneraða sveppabrauð var hins vegar dásamlega gott og skammlaust hægt að bjóða upp á sem kvöldverð þar sem það er ansi matarmikið. Þeir sem vilja geta haft salat eða ofnbakaða sætkartöflubita með en við létum okkur brauðið duga eitt og sér. Stórgott!

Gratínerað sveppabrauð (uppskriftin gefur 4 stórar sneiðar)

Sósan:

 • 2 msk (30 g) smjör
 • 2 tsk (15 g) hveiti
 • 3/4 bolli (175 ml) mjólk
 • smá múskat
 • salt og pipar
 • 1 msk (15 g) Dijon sinnep

Hitið stóra pönnu við miðlungsháan hita. Bræðið smjör á pönnunni og hrærið hveiti saman við þar til blandan er kekkjalaus. Hrærið mjólkinni smátt og smátt saman við. Kryddið með múskat, salti og pipar og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Blandan á að vera þykk. Setjið blönduna í skál og hrærið Dijon sinnepinu saman við.

Sveppirnir:

 • 680 g ferskir sveppir (ég var með blöndu af venjulegum og kastaníusveppum)
 • ólífuolía og smjör
 • 2 tsk hakkaðar ferskar kryddjurtir, t.d. rósmarín, timjan eða salvía (ég var líka með ítalska hvítlauksblöndu frá Pottagöldrum)
 • salt og pipar

Skerið sveppina í þunnar sneiðar. Notið pönnuna sem sósan var gerð í (þurrkið hana fyrst aðeins með eldhúspappír) og hitið ólífuolíu og smjör á henni. Þegar pannan er orðin vel heit er helmingurinn af sveppunum settur á hana ásamt kryddurtum og látið sveppina brúnast á annarri hliðinni í 2-3 mínútur. Hrærið þá í sveppunum og steikið áfram þar til þeir eru orðnir mjúkir og allur vökvi er horfinn af pönnunni. Kryddið vel með salti og pipar. Gerið eins við seinni helminginn af sveppunum.

Samsetning

 • Gott brauð, t.d. súrdeigsbrauð, skorið í um 2 cm þykkar sneiðar
 • 225 g grófrifinn ostur, t.d. gouda
 • steinselja til skrauts

Hitið ofninn í 200° og leggið brauðsneiðarnar á smjörpappírsklædda ofnplötu. Smyrjið vel af sósunni yfir brauðið (passið að smyrja þær alveg út í endana). Setjið vel af sveppum yfir og endið á að setja vel af rifnum osti yfir. Bakið í 5 – 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og byrjað að brúnast aðeins. Stráið steinselju yfir og berið strax fram.

 

Súpergott sýrópsbrauð

Súpergott sýrópsbrauð

Síðasta laugardag bakaði ég æðislegt brauð sem við lifðum á yfir helgina. Ég nýt enn góðs af því og sit hér með morgunmatinn minn yfir tölvunni, nýristaða brauðsneið með miklu smjöri og osti. Uppskriftin er nefnilega svo stór að það er upplagt að skera brauðið niður og frysta það á meðan það er enn svolítið volgt. Klikkgott!

Súpergott sýrópsbrauð

Sýrópsbrauð

 • 1 líter súrmjólk eða ab-mjólk
 • 400 g rúgmjöl
 • 600 g hveiti
 • 3 dl sýróp
 • 4 tsk matarsódi
 • 2 tsk lyftiduft

Setjið súrmjólk og sýróp í stóra skál og hrærið saman þar til hefur blandast vel. Bætið öllum öðrum hráefnum í og hrærið saman í kekkjalaust deig. Setjið deigið í smurt (eða bökunarpappírsklætt) eldfast mót í stærðinni 25 x 30 cm. Látið inn í kaldann ofn. Kveikið því næst á ofninum og hitið hann upp í 150°. Bakið brauðið í um klukkustund frá því að það er sett inn í kalda ofninn. Ef þið notið hitamæli í brauðið þá er það tilbúið við 97°.

Súpergott sýrópsbrauðSúpergott sýrópsbrauðSúpergott sýrópsbrauðSúpergott sýrópsbrauðSúpergott sýrópsbrauð

 

Gló-brauðið sívinsæla

Gló-brauðið sívinsæla

Ég ætla að koma með enn eina morgunmats-/nestishugmyndina en þetta er þó örugglega sú síðasta í bili. Mér þykir þetta brauð bara svo æðislega gott og nánast ómissandi með grænmetisréttinum. Það er líka frábært sem morgunmatur, bæði óristað og ristað. Þegar brauðið er nýkomið úr ofninum læt ég það kólna, sker það síðan í sneiðar og frysti. Það er nefnilega svo gott að geta gripið brauðsneiðar með í vinnuna á morgnana, til að eiga með hádegismatnum eða sem millimál.

Gló-brauðið sívinsæla

Það vildi mér til happs að ég neyddist til að fara yfir hluta af uppskriftasafninu mínu í jólafríinu. Ástæðan var sú að ég álpaðist til að kaupa mér hillu undir uppskriftabækurnar en áður voru þær að hluta til geymdar í lokuðum skáp sem var stútfullur af óskipulögðum blöðum og bókum, allt í einum hrærigraut. Það var ótrúlegt hvað leyndist mikið í skápnum og meðal annars fann ég úrklippu úr dagblaði sem hafði að geyma þessa dásamlegu brauðuppskrift frá veitingastaðnum Gló. Þessi hillukaup urðu því til þess að ég bæði fann helling af spennandi uppskriftum til að prófa (eins og þessa brauðuppskrift) og kom loksins skipulagi á uppskriftabækurnar, blöðin og úrklippurnar. Nú er bara að sjá hvað ég næ að halda því lengi…

Gló-brauðið sívinsælaGló-brauðið sívinsælaGló-brauðið sívinsælaGló-brauðið sívinsæla

Gló-brauðið sívinsæla

 • 2½ dl gróft spelt
 • 2½ dl fínt spelt
 • 1 dl sesamfræ
 • 1 dl sólblómafræ
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1 dl saxaðar hnetur
 • 1 msk vínsteinslyftiduft
 • ½ tsk salt
 • 2-3 msk hunang
 • 2-2½ dl sjóðandi vatn
 • 1 msk sítrónusafi

Hitið ofninn í 180°. Blandið þurrefnunum saman í skál + hunang, hellið vatni o gsítrónusafa út í og hrærið þessu saman. Skiptið í tvennt, setjið í tvö meðalstór smurð form eða eitt í stærra lagi. Bakið við 180°í um 30 mín, takið brauðið úr forminu og haldið áfram að baka í 10 mínútur.

Grillaðar samlokur með stökkri skorpu

Grillaðar samlokur með stökkri skorpu

Ég á alveg svakalega erfitt með að standast brauðmeti og gæti eflaust lifað sátt á grilluðum samlokum svo dögum skipti án þess að fá nóg. Þegar ég var yngri gaf mamma mér stundum grillaða samloku með skinku, osti, tómatsósu og lauk (ýmist með hráum eða steiktum, bæði er gott) og það þykir mér enn þann dag í dag vera æðislega gott. Síðan þykir mér líka gott að gera hefðbundna grillaða samloku með skinku og osti en fæ mér þá gott sinnep með. Og ef brauðið er gott og osturinn bragðmikill þykir mér samlokan nánast jafnast á við veislumat.

Grillaðar samlokur með stökkri skorpu

Ég las fyrr í haust í Bon Appetit að lykillinn að góðri grillaðri samloku væri mæjónes. Ég sem hafði staðið í þeirri trú að það að smyrja brauðið að utan (þær hliðar sem fara á grillið) með smjöri væri trixið komst að því að smyrja brauðið með mæjónesi gefur brakandi stökka skorpu sem gerir samlokun súpergóða. Ég mæli með að þið prófið!

Grillaðar samlokur með stökkri skorpu

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi og jólagjafahugmynd

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

Ég eignaðist um daginn svo æðisleg eldföst mót sem mér datt í hug að benda á, því mér þykja þau vera sniðug jólagjafahugmynd. Kosturinn við þessi eldföstu mót eru að það er lok á þeim og þau mega fara bæði í ofn og í frysti. Það er því svakalega þægilegt að geyma það sem eftir verður af matnum í þeim, lokinu er bara skellt yfir mótið og sett í kæli eða frysti. Eins er hægt að undirbúa rétti og geyma tilbúna í mótunum í frysti.

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesiKlúbbsamloka með sweet chilli majónesi

En að uppskriftinni sem ég ætlaði að setja hingað inn fyrir helgina en náði því ekki. Ég var nefnilega í jólasaumaklúbbi á fimmtudagskvöldinu og á jólahlaðborði í gærkvöldi. Í kvöld væri ég til í þessar samlokur en ég gerði þær um daginn og þær voru svoooo góðar! Frábær helgarmatur og ekki skemmir fyrir að djúpsteikja franskar með (kannski önnur gjafahugmynd, djúpsteikingarpottur? Frábært t.d. að djúpsteikja camembert í þeim). Uppskriftin virðist kannski flókin og hráefnalistinn langur en þegar betur er að gáð þá er þetta nokkuð einfalt og mikið af hráefnunum geta leynst í eldhússkápunum. Uppskriftin gefur fjórar samlokur.

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

Klúbbsamloka með sweet chilli (uppskrift úr Buffé)

3/4 dl sweet chillisósa
1 msk ferskpressaður sítrónusafi
2 msk rapsolía
4 kjúklingabringur
salt
svartur pipar
rapsolja til að steikja í
140 g beikon
2 tómatar
1 rauðlaukur
1/4 agúrka
6 sneiðar af franskbrauði
Lambhagasalat

Sweet chilli-majónes
2 eggjarauður
1/2 msk hvítvínsedik
3/4 dl sweet chillisósa
salt
svartur pipar
2 dl rapsolía
1 msk fínhökkuð steinselja (ég sleppti því)
1 msk fínhakkað rautt chilli

Hrærið saman sweet chilli, sítrónusafa og rapsolíu. Hellið marineringunni í plastpoka, leggið kjúklinginn í og lokið fyrir. Látið standa í ísskáp í 2 klst.

Sweet chilli majónes:

Hrærið saman eggjarauður, edik, sweet chillisósu, salt og pipar. Bætið olíunni saman við, fyrst ein og einn dropa í einu og síðan í mjórri bunu, og hrærið stöðugt í á meðan (gott að nota handþeytara). Hrærið steinselju og chilli saman við.

Hitið ofninn í 175°. Kryddið kjúklingabringurnar með salti og pipar. Steikið upp úr olíu í um 3 mínútur á hvorri hlið, þar til þær hafa fengið fallegan lit. Setjið kjúklingabringurnar síðan í ofninn í 15-20 mínútur, þar til þær eru full eldaðar. Á meðan er beikonið steikt þar til stökkt og látið renna af því á eldhúspappír.

Skerið tómat, rauðlauk og agúrku í þunnar sneiðar. Hækkið hitastigið á ofninum upp í 225°. Kanntskerið brauðið og skerið hverja brauðsneið í tvennt horna á milli, þannig að úr verði þríhyrningar. Ristið brauðið í ofninum í um 3 mínútur á hvorri hlið. Setjið samlokurnar saman á eftirfarandi máta: Leggið brauðsneið (þríhyrning) á disk og smyrjið með majónesi. Leggið salatblað, lauk, tómat, agúrku, beikon og kjúklingasneiðar yfir. Setjið aðra brauðsneið yfir og endurtakið leikin. Endið á að setja þriðju brauðsneiðina yfir og stingið grillspjóti í gegnum samlokuna til að halda henni saman. Berið fram með chillimajónesinu.

Kaldhefaðir kanilsnúðar

Kaldhefaðir kanilsnúðarÞegar Malín átti afmæli í byrjun maí vöktum við hana, líkt og hefðin gerir ráð fyrir, með afmælissöng og morgunverði í rúmið. Það beið síðan eitt og annað á morgunverðarborðinu frammi en allra vinsælastir voru nýbökuðu kanilsnúðar sem höfðu fengið að hefast í ísskáp yfir nóttina.

Kaldhefaðir kanilsnúðarKaldhefaðir kanilsnúðar

Þetta er algjör lúxusuppskrift því það þarf ekkert annað að gera um morguninn en að setja ofnskúffuna inn í heitan bakaraofninn og bíða eftir að bökunarlyktin fylli húsið. Hálftíma síðar eru nýbakaðir kanilsnúðar komnir á borðið sem þú getur annað hvort smurt með Nutella, gert glassúr eða einfaldlega sigtað flórsykur yfir áður en þeir eru bornir fram. Dásamlega ljúffengt!Kaldhefaðir kanilsnúðar

Kaldhefaðir kanilsnúðar – örlítið breytt uppskrift frá Bakverk och fikastunder

 • 25 g ferskt ger
 • 2 dl köld mjólk
 • 1 egg
 • 0,5 dl sykur
 • smá salt
 • um 6 dl hveiti
 • 75 g smjör við stofuhita
 • egg (til að pensla snúðana með)

Leysið gerið upp í mjólkinni og látið blandast vel. Hrærið upp eggið og hrærið því út í gerblönduna. Hrærið sykri og salti saman við. Hrærið um 4 dl af hveiti saman við, bætið smjörinu út í og síðan restinni af hveitinu. Hnoðið deigið þar til það er jafnt og kekkjalaust. Fletjið deigið út og smyrjið fyllingunni (uppskrift hér fyrir neðan) yfir. Rúllið deiginu upp og skerið í 15 sneiðar. Klæðið skúffukökuform (um 22×32 cm) með bökunarpappír og raðið snúðunum í það. Leggið viskastykki yfir og látið standa í ísskáp yfir nóttu. Takið úr ísskápnum um morguninn, penslið snúðana með upphrærðu eggi (hér má líka strá perlusykri yfir) og bakið í 200° heitum ofni í 22-25 mínútur.

Fylling

 • 150 g smjör við stofuhita
 • 3 msk kanil
 • 1,5 dl sykur

Hrærið öllu saman.

Kaldhefaðir kanilsnúðarKaldhefaðir kanilsnúðarKaldhefaðir kanilsnúðar