Mig grunar að það muni taka alla vikuna að ná okkur niður eftir leikinn í gær. Jeminn, hvað þetta var gaman! Ég var svo spennt að ég hoppaði upp úr sætinu þegar fyrra markið kom og er búin að vera með verk í fætinum síðan. Flokkast klárlega undir íþróttameiðsl. Mamma stóð við sitt og mætti galvösk með brauðtertur og eftir leikinn stungu strákarnir af niður á Ingólfstorg til að taka þátt í gleðinni þar, á meðan ég gekk frá hér heima eftir gleðskapinn. Allir í sæluvímu.
Yfir fyrri leiknum, á föstudagskvöldinu, vorum við með svo æðislega gott snarl sem mun án vafa verða fastur liður á borðum hjá okkur héðan í frá. Stökkar kartöfluflögur með sýrðum rjóma og kavíar er alveg meiriháttar gott kombó sem fer fullkomlega með freyðivínsglasi. Fallegt á borði og brjálæðislega gott. Þessu var dásamað við hverja flögu og meira að segja þeir sem þykjast ekki borða kavíar voru sólgnir í dásemdina. Þetta verðið þið að prófa!!
Snakk með kavíar og sýrðum rjóma
- 1 poki saltar kartöfluflögur (notið snakk sem er í þykkum kartöfluflögum)
- rauður kavíar
- sýrður rjómi
- rauðlaukur, fínt skorinn
- ferskt dill
Dreifið úr snakkpokanum yfir fat eða stórann disk. Setjið sýrðan rjóma og kavíar í sitthvorn sprautupokann. Sprautið doppum af sýrðum rjóma yfir flögurnar, setjið smá af fínhökkuðum rauðlauki yfir og endið á að sprauta kavíar á toppinn. Skreytið með dilli og berið strax fram.
3 athugasemdir á “Besta snakkið!”