Ég var svo heppin að fá að gera nokkrar uppskriftir í samstarfi við Örnu (þið finnið pastauppskrift hér og fylltar kjötbollur með piparostasósu hér) en Arna er með frábært úrval af laktósafríum mjólkurvörum. Ég hefði gefið mikið fyrir að fá þessar vörur fyrr á markaðinn, þar sem heimilið okkar var mjólkurlaust í fjölda mörg ár sökum laktósaóþols.
Ef þið hafið ekki smakkað kryddostana frá Örnu þá mæli ég með að gera það. Þeir eru frábærir, bæði á ostabakkann og líka til að hita eða bræða í rjóma (t.d. laktósafría rjómanum frá Örnu). Ég prófaði um daginn að setja beikon og paprikuostinn á tortillur með skinku, döðlum, klettasalati og furuhnetum og okkur fannst það svo gott að ég hefði þurft að gera helmingi meira. Þetta ætla ég því að gera aftur fljótlega. Mér þykja tortillurnar passa vel sem snarl með fordrykk og hlakka til að bjóða upp á þær næst þegar ég er með saumaklúbb.
Tortillur með kryddosti, skinku, döðlum, klettasalati og ristuðum furuhnetum
- 3 pizza tortillur
- 150 g (1 askja) laktosafrír kryddostur með beikoni og papriku frá Örnu, rifinn
- silkiskorin skinka
- döðlur, skornar í bita
- klettasalat
- balsamik gljái
- furuhnetur
- sojasósa
Byrjið á að þurrrista furuhneturnar á heitri pönnu. Undir lokin er smá sojasósu hellt yfir og ristað í nokkrar sekúndur til viðbótar (bara rétt til að hneturnar þorni). Leggið til hliðar.
Setjið tortillurnar (þykkari tegundina, sem er merkt pizza) á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Rífið kryddost yfir botninn og setjið silkiskorna skinku og döðlur yfir. Bakið við 200° í 5-7 mínútur, eða þar til osturinn hefur bráðnað aðeins (hann bráðnar ekki alveg en hitnar í gegn). Takið úr ofninum og stráið klettasalati og ristuðu furuhnetunum yfir. Endið á að sáldra balsamik gljáa yfir og berið fram.
*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu