Tortillur með kryddosti, skinku, döðlum, klettasalati og ristuðum furuhnetum

Ég var svo heppin að fá að gera nokkrar uppskriftir í samstarfi við Örnu (þið finnið pastauppskrift hér og fylltar kjötbollur með piparostasósu hér) en Arna er með frábært úrval af laktósafríum mjólkurvörum. Ég hefði gefið mikið fyrir að fá þessar vörur fyrr á markaðinn, þar sem heimilið okkar var mjólkurlaust í fjölda mörg ár sökum laktósaóþols.

Ef þið hafið ekki smakkað kryddostana frá Örnu þá mæli ég með að gera það. Þeir eru frábærir, bæði á ostabakkann og líka til að hita eða bræða í rjóma (t.d. laktósafría rjómanum frá Örnu). Ég prófaði um daginn að setja beikon og paprikuostinn á tortillur með skinku, döðlum, klettasalati og furuhnetum og okkur fannst það svo gott að ég hefði þurft að gera helmingi meira. Þetta ætla ég því að gera aftur fljótlega. Mér þykja tortillurnar passa vel sem snarl með fordrykk og hlakka til að bjóða upp á þær næst þegar ég er með saumaklúbb.

Tortillur með kryddosti, skinku, döðlum, klettasalati og ristuðum furuhnetum

  • 3 pizza tortillur
  • 150 g (1 askja) laktosafrír kryddostur með beikoni og papriku frá Örnu, rifinn
  • silkiskorin skinka
  • döðlur, skornar í bita
  • klettasalat
  • balsamik gljái
  • furuhnetur
  • sojasósa

Byrjið á að þurrrista furuhneturnar á heitri pönnu. Undir lokin er smá sojasósu hellt yfir og ristað í nokkrar sekúndur til viðbótar (bara rétt til að hneturnar þorni). Leggið til hliðar.

Setjið tortillurnar (þykkari tegundina, sem er merkt pizza) á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Rífið kryddost yfir botninn og setjið silkiskorna skinku og döðlur yfir. Bakið við 200° í 5-7 mínútur, eða þar til osturinn hefur bráðnað aðeins (hann bráðnar ekki alveg en hitnar í gegn). Takið úr ofninum og stráið klettasalati og ristuðu furuhnetunum yfir. Endið á að sáldra balsamik gljáa yfir og berið fram.

*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu

Pizzastangir með pepperoni

Þessi fyrsta sumarfrísvika mín hefur boðið upp á æðislegt veður og þrátt fyrir að hafa lofað uppskrift af pizzastöngum hingað inn þá hef ég ekki getað setið inni við tölvuna þegar sólin loksins lét sjá sig.

Ég gerði pizzastangirnar fyrir úrslitaleik HM og fékk fjölmargar fyrirspurnir um uppskriftina eftir að ég setti mynd af þeim í Insta story. Ég gerði mér einfalt fyrir og keypti pizzadeigið tilbúið, þetta sem er upprúllað. Þá þurfti bara að rúlla því út, setja fyllinguna í og síðan notaði ég smjörpappírinn sem pizzadeigið kemur á, til að brjóta deigið saman. Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig og vakti mikla lukku yfir leiknum. Fullkomið föstudagssnarl!

Pizzastangir með pepperoni

  • 1 rúlla pizzadeig
  • 3-4 tsk ítölsk hvítlauksblanda
  • 1/2 tsk red pepper flakes
  • 6 msk rifinn parmesan
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 bréf pepperoni (um 120 g)
  • rúmlega 1/2 poki rifinn mozzarella (um 120 g)

Hitið ofninn í 200°.

Blandið ítalskri hvítlauksblöndu, red pepper flakes og rifnum parmesan saman í skál.

Rúllið deiginu út (eða fletjið það út í ferhyrning ef notað er heimagert) og stráið helmingnum af kryddblöndunni yfir deigið. Skerið pepperoni í fernt og dreifið yfir helminginn af deiginu. Brjótið helminginn sem er ekki með pepperoni yfir pepperoni-helminginn, þannig að fyllingin verði inn í. Skerið deigið í stangir og snúið hverri stöng í nokkra hringi. Penslið yfir brauðstangirnar með ólífuolíu og stráið kryddblöndu yfir. Færið brauðstangirnar yfir á bökunarplötu með bökunarpappír og snúið krydduðu hliðinni niður. Penslið með olíu og stráið kryddblöndu yfir (þannig að það er olía og krydd bæði undir og yfir brauðstöngunum) og bakið í 8-10 mínútur, eða þar til brauðstangirnar eru orðnar gylltar og fallegar.

Vöfflur með sýrðum rjóma, kavíar, rauðlauki og dilli

Ég veit að það eru ekki allir hrifnir af kavíar en ég fæ ekki nóg af honum, sérstaklega þegar hann er borinn fram með sýrðum rjóma og öðru góðgæti. Ég veit ekki hversu oft ég hef boðið upp á þetta snakk (það er klikkað!) og þessi pizza er með þeim betri sem hægt er að hugsa sér (og passar svo vel með kældu hvítvíni). 

Ég ákvað um helgina að bjóða heim í vöfflur yfir leiknum (Svíþjóð – England, sem útskýrir sænska fánann á borðinu). Ég bar vöfflurnar fram með sultum, nutella og rjóma en þar sem leikurinn var fljótlega eftir hádegi vildi ég líka bjóða upp á matarmeiri vöfflur. Ég átti kavíar í ísskápnum sem fékk að fara á vöfflurnar ásamt sýrðum rjóma, rauðlauki og dilli (eins og á pizzunni góðu). Það kom brjálæðislega vel út! Þetta er einfaldlega nokkuð sem allir þurfa að prófa, líka þeir sem þykjast ekki borða kavíar!

Besta vöffluuppskriftin kemur frá Food 52:

  • 1½ bolli hveiti
  • ½ bolli kornsterkja (maizenamjöl)
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 bollar nýmjólk eða súrmjólk
  • 2/3 bolli grænmetisolía (vegetable oil) eða brætt smjör
  • 2 egg
  • 3 tsk sykur
  • 1 ½ tsk vanilludropar

Setjið hveiti, kornsterkju, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og blandið vel saman. Bætið mjólk, grænmetisolíu, eggjum, sykur og vanillu saman við og blandið vel. Látið deigið standa í 30 mínútur. Bakið vöfflurnar á smurðu vöfflujárni.

Yfir vöfflurnar:

  • sýrður rjómi (hrærið hann aðeins upp, svo hann verði kekkjalaus og mjúkur)
  • kavíar
  • rauðlaukur, fínhakkaður
  • ferskt dill

Edamame baunir með dippsósu

Þegar ég var á Balí síðasta haust fékk ég æði fyrir edamame baunum. Síðan þá hef ég pantað mér baunirnar þegar ég sé þær á veitingastöðum en aldrei verið með þær hér heima. Það var svo um daginn þegar við buðum vinum okkar í mat að ég ákvað að prófa að bjóða upp á þær sem snarl með fordrykk (sem var svo góður að ég verð að setja uppskriftina inn fyrir helgina!). Í aðalrétt vorum við með grillaðar humarpizzur og í eftirrétt heita súkkulaðiköku með Dumle-fyllingu, hindberjum og ís (uppskriftin er líka væntanleg).

Ég fann uppskrift af edamame baunum sem mér leist vel á hjá Genius Kitchen. Svo einföld uppskrift og svo brjálæðislega góð! Baunirnar kláruðust á svipstundu og ég hefði eflaust mátt vera með tvo poka af þeim. Dippsósan er æði, ekki sleppa henni. Ég var búin að gera þetta tilbúið vel áður en gestirnir komu en mér þykir alltaf gott þegar hægt er að undirbúa með smá fyrirvara svo maður standi ekki á haus þegar gestirnir eru komnir. Þá vil ég frekar setjast niður með drykk og njóta!

Edamame baunir með dippsósu

  • 1/2 msk maldonsalt
  • 1 poki frosnar edamame baunir
  • klakavatn
  • 2 msk sojasósa
  • 2 msk hrísgrjónaedik
  • 1/2 tsk sesamolía
  • 1 tsk hunang
  • 1 hvítlauksrif, fínhakkað
  • 1 msk vorlaukur, hakkaður (ég sleppti vorlauknum því ég gleymdi að kaupa hann!)

Setjið saltið á litla þurra pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið þar til það hefur fengið smá lit (tekur um 6-7 mínútur). Fylgist með saltinu og hristið pönnunna annað slagið. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Hitið vatn að suðu og setjið edamame baunirnar í pottinn. Látið sjóða í 4 mínútur (ekki láta þær sjóða of lengi því þær eiga ekki að verða mjúkar). Takið baunirnar úr pottinum og setjið í skál með klakavatni í, til að koma í veg fyrir að þær haldi áfram að eldast. Þurrkið baunirnar og blandið þeim saman við saltið.

Útbúið sósuna með því að hræra saman sojasósu, hrísgrjónaediki, sesam olíu, hunangi, hvítlauki og vorlauki.

Berið baunirnar fram með sósunni (í sér skál).

Quesadillas með pestó, fetaosti og parmaskinku

Sá réttur sem ég gríp hvað oftast til þegar ég er hugmyndasnauð varðandi kvöldmat eru quesadillas. Mér þykja þær alltaf slá í gegn. Þessar gerði ég um síðustu helgi og bar fram með buffalokjúklingi og gráðostasósu (ég veiiiit, furðuleg samsetning af kvöldverði) því ég var ekki viss um hvort quesadillurnar myndu falla í kramið hjá krökkunum, þar sem fyllingin var ólík því sem þau eru vön. Það voru óþarfa áhyggjur því þau mokuðu þeim í sig! Ég bar quesadillurnar fram með tacosósu en það er í raun algjör óþarfi því þær eru æðislegar einar og sér. Sjálfri þykja mér þær fara vel með vínglasi um helgar (og án tacosósu), bæði sem forréttur eða létt máltíð.

Quesadillas með pestó, fetaosti og parmaskinku

  • tortillakökur
  • grænt pestó
  • fetaostur
  • parmesanostur
  • fersk basilika
  • ferskt chili
  • parmaskinka

Smyrjið tortillaköku með pestói. Setjið fetaost, parmesanost, ferska basiliku, hakkað chili (sleppið fræjunum ef þið viljið ekki hafa þetta sterkt) og parmaskinku yfir helminginn og brjótið svo tortillakökuna saman, þannig að hún myndi hálfmána. Steikið á pönnu á báðum hliðum og þrýstið aðeins á tortilluna svo osturinn bráðni.

Skerið í sneiðar og berið fram.

 

Humar með eplarjómasósu

Eins og fram hefur komið var ég með humarforrétt á gamlárskvöld. Þennan rétt smakkaði ég fyrst hjá Ernu vinkonu minni fyrir mörgum árum og kolféll fyrir honum. Sósan er himnesk! Uppskriftin kemur úr Veislubók Hagkaups (eftir matreiðslumeistara Argentínu-steikhúss) og ég hef greinilega eldað þennan rétt oftar en ég vil kannast við, því bókin hangir saman á lyginni og blaðsíðan með humaruppskriftinni er laus í henni.

Í uppskriftinni er talað um að nota súputening frá Maggi (eru þeir ennþá til?) en ég nota grænmetistening frá Knorr í staðin. Síðan á að bera réttinn fram með grófu brauði en ég hef alltaf borið hann fram á ristuðu fransbrauði, eins og Erna gerir. Þá rista ég brauðið, sker það i tvennt þannig að brauðsneiðin myndi tvo þríhyrninga og set svo réttinn yfir brauðsneiðina. Ég skreyti síðan réttinn með steinselju en ég hafi hreinlega gleymt að kaupa hana núna. Það kom þó ekki að sök. Þetta er svo brjálæðislega gott að það fengu sér allir aftur á diskinn og Jakob matgæðingurinn minn fékk sér þrjá diska og bræðurnir fengu sér síðan afganginn í morgunmat daginn eftir. Það er ekki lélegt að byrja árið með humarmorgunverði!

Humar með eplarjómasósu (fyrir 6)

  • 500 g skelflettur humar
  • 2 gul epli
  • 50 g smjör

Sósa:

  • 2 skalottlaukar, litlir
  • 1 dl hvítvín
  • 2,5 dl rjómi
  • 1 tsk dijon sinnep
  • 1/2 stk fiskikraftur (teningur frá Knorr)
  • 1/2 – 1 grænmetisteningur frá Knorr
  • salt og pipar
  • sósujafnari

Byrjið á sósunni. Saxið laukinn og steikið glæran í olíu á pönnu (passið að hafa hitann ekki of háan, ég nota stillingu 5 af 9). Bætið hvítvíni og rjóma saman við og sjóðið við vægan hita í 5 mínútur. Þykkið ögn með sósujafnara. Bragðbætið með súputeningi, salti, pipar og sinnepi.

Afhýðið og kjarnhreinsið eplin og skerið í smáa teninga. Bræðið smjörið á pönnu og steikið humarinn ásamt eplunum í 1-2 mínútur. Hellið sósunni á pönnuna og látið sjóða í 1 mínútu. Berið strax fram.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Pestójólatré

Á föstudagskvöldinu vorum við með eitt af því besta sem ég veit og minn uppáhalds föstudagsmat, osta og skinkur. Fyrir utan hvað mér þykir það gott þá er ekki hægt að vera með einfaldari mat en að raða góðgæti á bakka og taka tappa úr góðri rauðvínsflösku. Engin eldamennska og nánast ekkert uppvask. Síðan veit ég fátt skemmtilegra en að sitja lengi yfir matnum og það gerist alltaf þegar það er plokkmatur. Þá sitjum við yfir matnum þar til við förum að sofa. Malín gerir oft grín af því að við sitjum hátt í heilan vinnudag yfir ostum og rauðvíni en það er bara svo notalegt og gaman.

Við héldum að við yrðum bara tvö í mat en eftir því sem leið á daginn fjölgaði við matarborðið og á endanum voru allir í mat. Svo gaman! Krakkarnir borða öll osta en kannski ekki sem kvöldmat eins og ég geri. Ég keypti því kokteilpulsur sem ég bætti á borðið, setti jólaplaylista á spotify og gerði pestójólatré upp á stemninguna. Það reyndist vinsælast af öllu!

Pestójólatréið er bæði fallegt á borði og gaman að bera fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu sem verða þá nokkurs konar brauðstangir. Sniðugt að bera fram með ostum eða með fordrykk, þá þarf bara að hafa servéttur með. Einfalt, jólalegt og æðislegt!

Pestójólatré

2 rúllur ferskt smjördeig
1 lítil krukka pestó
1 upphrært egg
maldonsalt

Rúllið annari smjördeigsrúllunni út á ofnplötu. Smyrjið pestó yfir og leggið hina smjördeigsrúlluna yfir. Þrýstið saman þannig að ekkert loft sé á milli. Skerið út jólatré og skerið síðan lengjur upp jólatréið sem er síðan snúið til að mynda greinar. Penslið jólatréið með upphrærðu eggi og stráið maldonsalti yfir. Bakið við 200° á blæstri í um 10-12 mínútur eða þar til jólatréið er orðið loftkennt og hefur fengið fallegan lit. Berið strax fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu og borða eins og stangir.

Dásamleg kartöflukaka

Þegar ég var síðast í Stokkhólmi fór ég á æðislegan veitingastað, Pa & Co, og fékk svo góðan forrétt að ég hef ekki getað hætt að hugsa um hann. Þeir allra glöggustu hafa kannski tekið eftir að ég er hrifin af kavíar, sbr. uppáhalds pizzuna mína og snakkið mitt, og því kemur það kannski ekki á óvart að stökk kartöflukaka með sýrðum rjóma og kavíar hafi heillað mig upp úr skónum. Um síðustu helgi gerði ég loksins kartöflukökuna hér heima sem við borðuðum í forrétt. Svo æðislega gott!

Kartöflukaka með sýrðum rjóma og kavíar 

  • 600 g kartöflur
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 250 g kavíar
  • 1 rauðlaukur
  • graslaukur
  • ferskt dill
  • 1 sítróna
  • salt og pipar

Setjið kavíar í sigti svo hann verði alveg þurr. Skrælið kartöflurnar og rífið á grófu rifjárni. Saltið og kreistið vökvann frá.

Hitið olíu og smjör á pönnu (veljið pönnustærð eftir hversu stóra þið viljið hafa kartöflukökuna, það er hægt að gera eina stóra eða fleiri minni), setjið kartöflurnar á pönnuna og sléttið úr þeim með spaða svo kartöflukakan verði jafn þykk alls staðar. Steikið kartöflukökuna við miðlungsháan hita í um 4 mínútur á hvorri hlið. Kakan á að verða stökk að utan. Berið fram með sýrðum rjóma, rauðlauki, graslauki, kavíar, dilli og sítrónusneið.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Besta snakkið!

Mig grunar að það muni taka alla vikuna að ná okkur niður eftir leikinn í gær. Jeminn, hvað þetta var gaman! Ég var svo spennt að ég hoppaði upp úr sætinu þegar fyrra markið kom og er búin að vera með verk í fætinum síðan. Flokkast klárlega undir íþróttameiðsl. Mamma stóð við sitt og mætti galvösk með brauðtertur og eftir leikinn stungu strákarnir af niður á Ingólfstorg til að taka þátt í gleðinni þar, á meðan ég gekk frá hér heima eftir gleðskapinn. Allir í sæluvímu.

Yfir fyrri leiknum, á föstudagskvöldinu, vorum við með svo æðislega gott snarl sem mun án vafa verða fastur liður á borðum hjá okkur héðan í frá. Stökkar kartöfluflögur með sýrðum rjóma og kavíar er alveg meiriháttar gott kombó sem fer fullkomlega með freyðivínsglasi. Fallegt á borði og brjálæðislega gott. Þessu var dásamað við hverja flögu og meira að segja þeir sem þykjast ekki borða kavíar voru sólgnir í dásemdina. Þetta verðið þið að prófa!!

Snakk með kavíar og sýrðum rjóma

  • 1 poki saltar kartöfluflögur (notið snakk sem er í þykkum kartöfluflögum)
  • rauður kavíar
  • sýrður rjómi
  • rauðlaukur, fínt skorinn
  • ferskt dill

Dreifið úr snakkpokanum yfir fat eða stórann disk. Setjið sýrðan rjóma og kavíar í sitthvorn sprautupokann. Sprautið doppum af sýrðum rjóma yfir flögurnar, setjið smá af fínhökkuðum rauðlauki yfir og endið á að sprauta kavíar á toppinn. Skreytið með dilli og berið strax fram.

 

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Góðan daginn!

Ég sit hér við eldhúsborðið í náttsloppnum og ætla að drífa mig á fætur og út í göngutúr um leið og færslan er komin inn. Veðrið er svo fallegt að það væri synd að nýta það ekki í útivist. Í kvöld ætlum við á Bestu lög Vilhjálms Vilhjálmssonar tónleikana í Hörpu og síðan á Food and fun á Apótekið. Ég get ekki beðið! Krakkarnir verða hér heima á meðan og ætla að gera sér pizzur. Það er ákveðinn lúxus sem fylgir því að vera með svona stór börn. Malín er að verða 19 ára og því hálf fullorðin. Það er því lítið mál að bregða sér frá.

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Um síðustu helgi vorum við bara tvö í mat og nýttum því tækifærið til að fá okkur osta og rauðvín. Ég prófaði að gera ostaídýfu úr bræddum ísbúa sem varð svo góð að uppskriftin verður að komast hingað inn. Best er að bera hana fram með góðu kexi eða stökku brauði, t.d. baquette sem hefur verið skorið í sneiðar og ristað á pönnu eða í ofni. Síðan er líka gott að setja smá chilisultu yfir. Vert að prófa!

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoniOstaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

  • 1 laukur, hakkaður
  • 1 tsk sykur
  • 4 beikonsneiðar, eldaðar og hakkaðar
  • 1/2 dl sýrður rjómi
  • 1/2 dl majónes
  • 100 g ísbúi, rifinn
  • salt og pipar

Setjið smá ólífuolíu á pönnu og hitið við lágan hita (ég var með stillingu 3 af 9). Steikið laukinn í 20 mínútur, setjið þá sykur yfir hann og steikið í 45-60 mínútur til viðbótar. Hrærið annað slagið í pönnunni svo laukurinn brenni ekki.

Steikið beikonið (mér þykir best að steikja það í ofni, við 200° í 5-10 mínútur). Látið það kólna aðeins og skerið svo fínt niður.

Blandið saman majónesi, sýrðum rjóma, beikoni, salti og pipar. Hrærið rifnum Ísbúa og karamelluseruðum lauki saman við. Setjið blönduna í lítið eldfast mót, stráið 2 msk af rifnum Ísbúa yfir og bakið við 200° í um 20 mínútur.

Berið heitt fram með kexi eða brauði.