Ég hef verið netlaus undanfarna daga en hef núna komið mér fyrir á netkaffihúsi til að blogga og svala netþörfinni. Ótrúlegt hvað netið skiptir orðið miklu máli í hversdagslífinu. Það er ekki einu sinni hægt að athuga með veðurspánna án þess. Og það sem verra er, ég hef ekki getað sett hingað inn bestu pizzuuppskrift sem hægt er að hugsa sér, grilluð humarpizza með hvítlaukssmjöri, parmesan og fleiri ómótstæðinlegum hráefnum.
Þessi pizza er svo gjörsamlega ómótstæðileg að við grilluðum okkur hana tvo daga í röð um daginn. Það er svo lekkert að bjóða upp á hana með köldu hvítvínsglasi, hvort sem er í forrétt, aðalrétt eða fyrir saumaklúbbinn. Síðan er stórsnjallt að útbúa hana og geyma í ísskáp þar til hún fer á grillið. Þá þarf ekkert að gera eftir að gestirnir koma annað en að opna hvítvínsflösku og setja pizzurnar á grillið. Þetta getur ekki klikkað!
Grilluð humarpizza (uppskriftin miðast við eina pizzu)
- álpappír
- PAM sprey
- salt og pipar
- tortilla
- 25 g smjör
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- 2 msk parmesan (Parmareggio), finrifinn
- 2 plómutómatar, hakkaðir og látið renna af þeim
- fersk basilika
- 60 g skelflettur humar frá Sælkerafiski
- 1 msk parmesan (Parmareggio), fínrifinn
- 2 lúkur pizza ostur
- 30 g ferskur mozzarella í bitum
Rífið álpappír svo passi undir tortillaköku. Spreyið álpappírinn með PAM og stráið vel af maldon salti og pipar yfir. Leggið tortillu yfir. Bræðið smjör í potti og blandið saman við pressað hvítlauksrif. Penslið hvítlaukssmjörinu yfir tortillabotninn og stráið 2 msk af fínrifnum parmesan yfir. Hakkið plómutómata og látið leka af þeim í gegnum sigti. Leggið hökkuðu tómatana yfir parmesan ostinn og setjið basiliku sem hefur verið skorin/klippt í ræmur yfir. Skolið og þerrið humarinn og setjið hann yfir tómatana. Stráið 1 msk af parmesan yfir, þar eftir 2 lúkum af pizza osti og að lokum ferskum mozzarellabitum. Grillið þar til osturinn er bráðnaður og botninn stökkur.
er bara nýbyrjuð að borða humar og það er rétt þetta er ein besta pizza í heimi og við gerðum okkar bara í bakarofni samt, takk fyrir mig
Þessi uppskrift er í uppáhaldi hjá mér. Var boðin öllum sem komu í heimsókn í bústaðinn í sumar, margar helgar í röð…