Það er æðisleg veðurspá fyrir helgina og eflaust margir sem ætla nýta veðurblíðuna til að grillla. Ég dró strákana með mér í hot yoga tíma áðan og þegar við komum heim var búið að grilla steikur fyrir okkur. Lúxus! Það leynast margar góðar grilluppskriftir hér á síðunni og ef einhverjum vantar hugmyndir fyrir helgina þá langar mig að með að mæla með þremur uppskriftum sem eru í sérlegu uppáhaldi hjá mér:
Dásamlegur bbq-kjúklingur þar sem öllu er skellt saman í álpappír og grillað. Það gerist ekki einfaldara!
Humarpizza sem er svo góð að það nær engri átt.
Grilluð tandoori lambalund með salati, nanbrauði og raita. Slær alltaf í gegn!
Og fyrir þá sem ætla sér ekki að grilla kemur hér súpergóð hugmynd að kvöldverði, quesadillas með nautahakksfyllingu. Svo brjálæðislega gott!! Hér var barist um sneiðarnar og ég mun klárlega gera tvöfalda uppskrift næst. Ég veit að uppskriftin virðist löng og með mörgum hráefnum en flest hráefnanna leynast örugglega í eldhússkápnum. Síðan er líka lítið mál að breyta uppskriftinni eftir því sem til er í skápunum.
Quesadillas með nautahakksfyllingu
Nautahakksfyllingin:
- 1 bakki nautahakk
- svartur pipar
- paprikukrydd
- oregano
- cumin
- 1/2 dl vatn
- 1 msk soja sósa
- 1 msk sweet chili
- 1 hvítlauksrif
- 1 msk tómatpuré
Steikið nautahakkið og kryddið eftir smekk (smakkið til!). Bætið vatni saman við og látið sjóða saman við vægan hita í 5 mínútur. Bætið þá sojasósu, sweet chili, hvítlauksrifi og tómatpuré saman við, blandið vel og látið allt sjóða saman í 2-3 mínútur.
Sósan:
- 1 dós hakkaðir tómatar
- 1 tsk oregano
- svartur pipar
- cayenne pipar
- salt
Blandið öllu í pott og látið sjóða saman.
Guacamole
- 1 avokadó
- 1 dl sýrður rjómi
- 1 hvítlauksrif, pressað
- fínrifið hýði af 1 sítrónu
- cayenne pipar
- salt
Stappið avókadóið og hrærið saman við hin hráefnin.
Til að setja saman:
- tortillur
- jalapeno
- maísbaunir
- rifinn ostur
Setjið nautahakk, maísbaunir, sósu, rifinn ost og jalapeno á hverja tortillu. Brjótið tortilluna saman í hálfmána ost steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Skerið í sneiðar og berið strax fram með salati og guacamole.
2 athugasemdir á “Quesadillas með nautahakksfyllingu”