Quesadillas með nautahakksfyllingu

Það er æðisleg veðurspá fyrir helgina og eflaust margir sem ætla nýta veðurblíðuna til að grillla. Ég dró strákana með mér í hot yoga tíma áðan og þegar við komum heim var  búið að grilla steikur fyrir okkur. Lúxus! Það leynast margar góðar grilluppskriftir hér á síðunni og ef einhverjum vantar hugmyndir fyrir helgina þá langar mig að með að mæla með þremur uppskriftum sem eru í sérlegu uppáhaldi hjá mér:

Dásamlegur bbq-kjúklingur þar sem öllu er skellt saman í álpappír og grillað. Það gerist ekki einfaldara!

Humarpizza sem er svo góð að það nær engri átt.

Grilluð tandoori lambalund með salati, nanbrauði og raita. Slær alltaf í gegn!

Og fyrir þá sem ætla sér ekki að grilla kemur hér súpergóð hugmynd að kvöldverði, quesadillas með nautahakksfyllingu. Svo brjálæðislega gott!! Hér var barist um sneiðarnar og ég mun klárlega gera tvöfalda uppskrift næst. Ég veit að uppskriftin virðist löng og með mörgum hráefnum en flest hráefnanna leynast örugglega í eldhússkápnum. Síðan er líka lítið mál að breyta uppskriftinni eftir því sem til er í skápunum.

Quesadillas með nautahakksfyllingu

Nautahakksfyllingin:

 • 1 bakki nautahakk
 • svartur pipar
 • paprikukrydd
 • oregano
 • cumin
 • 1/2 dl vatn
 • 1 msk soja sósa
 • 1 msk sweet chili
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 msk tómatpuré

Steikið nautahakkið og kryddið eftir smekk (smakkið til!). Bætið vatni saman við og látið sjóða saman við vægan hita í 5 mínútur. Bætið þá sojasósu, sweet chili, hvítlauksrifi og tómatpuré saman við, blandið vel og látið allt sjóða saman í 2-3 mínútur.

Sósan:

 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • 1 tsk oregano
 • svartur pipar
 • cayenne pipar
 • salt

Blandið öllu í pott og látið sjóða saman.

Guacamole

 • 1 avokadó
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 1 hvítlauksrif, pressað
 • fínrifið hýði af 1 sítrónu
 • cayenne pipar
 • salt

Stappið avókadóið og hrærið saman við hin hráefnin.

Til að setja saman:

 • tortillur
 • jalapeno
 • maísbaunir
 • rifinn ostur

Setjið nautahakk, maísbaunir, sósu, rifinn ost og jalapeno á hverja tortillu. Brjótið tortilluna saman í hálfmána ost steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Skerið í sneiðar og berið strax fram með salati og guacamole.

Heilgrillaður kjúklingur og parmesanfranskar

Heilgrillaður kjúklingur og parmesanfranskar

Þó að haustið sé handan við hornið er enn heilmikið eftir af grilltímabilinu. Ég keypti mér fyrir nokkrum árum grillstand fyrir kjúkling eftir að hafa ítrekað heyrt vinnufélaga mína dásama honum. Ég veit ekki hversu oft við höfum skellt kjúklingi á standinn þegar okkur langar í eitthvað gott en nennum ekki að hafa mikið fyrir matnum og óhætt að segja að þetta reyndust góð kaup. Á miðjum standinum er skál sem settur er bjór í (sem sér til þess að kjúklingurinn verður ekki þurr), kryddaður kjúklingur er settur ofan á skálina og að lokum er tappi settur í hálsopið. Herlegheitin eru síðan sett á lokað grill í um klukkustund. Það þarf ekkert að hugsa um kjúklinginn á meðan hann grillast og það bregst ekki að hann verður mjúkur og dásamlega góður í hvert einasta skipti! Ég mæli með þessu.

Heilgrillaður kjúklingur og parmesanfranskar

Við borðum grillaða kjúklinginn ansi oft eins og hér á myndunum, þ.e. sem hálfgerðan skyndibita með djúpsteiktum frönskum, hrásalati og piparostasósu. Ég fæ aldrei leið á þessu. Hér breyttum við út af vananum og höfðum parmesanfranskar með kjúklingnum. Franskarnar eru djúpsteiktar og um leið og þær koma upp úr pottinum eru þær saltaðar og velt upp úr fínrifnum parmesanosti (þessi sem maður kaupir tilbúinn rifinn). Hristið vel saman og stráið smá meiri parmesanosti yfir þegar hann byrjar að bráðna. Passar vel með öllum grillmat!

Heilgrillaður kjúklingur og parmesanfranskar