Á morgun er síðasti vinnudagur minn fyrir sumarfrí og ég get varla beðið. Það verður svo notalegt að fara í frí og gott að fá tíma til að sinna því sem hefur setið á hakanum. Það sem stendur efst á to-do listanum er að fara með krakkana á franska kartöflustaðinn sem var að opna í miðbænum. Það er búið að bíða eftir þeirri ferð síðan við lásum í blöðunum að það stæði til að opna hann. Hvað ég get sagt, sonur minn elskar franskar (og ég líka). Vonandi stendur staðurinn undir væntingum.
Annað sem hefur verið ákveðið að gera í fríinu er að fara Austfirðina með vinafólki okkar. Þar ætlum við að bjóða þeim upp á grillaðan kjúkling sem við gerðum hér heima um daginn og erum enn að dásama. Þetta er besti grillréttur sem við vitum um. Hann er algjör draumur fyrir matarboð því það er hægt að gera réttinn alveg kláran áður en gestirnir koma og það eru engar skálar eða áhöld sem þarf að vaska upp eftir matinn. Það fer allt saman í álpappír á grillið og þaðan fer maturinn beint á diskana. Hentugt og hreint út sagt súpergott!
BBQ-kjúklingur með öllu í einum pakka – gerið ráð fyrir 1 pakka fyrir börn og 2 pökkum fyrir fullorðna
- álpappír, rifinn í ca 30 x 45 cm fyrir hvern pakka.
- PAM sprey
- Hunt´s Honey Hickory BBQ Sauce
- kartöflur, skornar í sneiðar
- sætar kartöflur, skornar í sneiðar
- Philadelphia rjómaostur
- úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
- græn paprika, hökkuð
- rauð paprika, hökkuð
- rauðlaukur, hakkaður
- sveppir, sneiddir
- salt og pipar
- cheddar ostur, rifinn
Fyrir hvern pakka: Rífið álpappír í stærðinni 30 x 45 cm. Spreyið yfir álpappírinn með PAM og setjið rúmlega teskeið af BBQ sósu í miðjuna á álpappírnum. Skerið kartöflur í sneiðar og leggið yfir (miðið við 1 – 1 ½ kartöflu í hvern pakka). Setjið smá Philadelphia rjómaost yfir (u.þ.b. 1- 1½ msk), og þar á eftir sætar kartöflusneiðar yfir í svipuðu magni og kartöflurnar. Setjið rúmlega teskeið af BBQ sósu yfir og leggið þar á eftir úrbeinað kjúklingalæri yfir. Saltið og piprið og setjið rúmlega teskeið af BBQ sósu yfir. Hakkið papriku og rauðlauk, sneiðið sveppi og leggið efst. Lokið nú álpappírnum með því að lyfta langhliðunum upp og brjóta tvöfalt brot niður (passið að hafa loft fyrir ofan matinn fyrir gufuna sem myndast). Lokið hliðunum eins, þ.e. með tvöföldu broti, og grillið á lokuðu grilli, við miðlungsháan hita, í 25 mínútur.
Takið af grillinu, opnið pakkana að ofan og stráið rifnum cheddar yfir. Lokið aftur og látið standa í nokkrar mínútur á meðan osturinn bráðnar.
Sæl – hvaðan eru diskarnir sem þú ert með á þessum myndum? 🙂
Þeir eru frá Rörstrand og heita Swedish Grace. Prófaðu að gúggla þá, þeir koma í nokkrum litum, hver öðrum fallegri 🙂
Takk kærlega fyrir þetta! 🙂
Við hjónin gerðum þennan rétt í gær og hann er ROSALEGA GÓÐUR 😊
Fær 10 í einkunn 👍
þessi var mjög góður, einfalt og fljótlegt