Matarlöngunin á það til að sveiflast eftir veðrinu og þegar sólin skín vil ég helst vera með eitthvað létt í matinn. Í dag er sólin vissulega fjarri góðu gamni en hún lætur vonandi sjá sig áður en sumarið er allt og þá er gott að muna eftir þessari böku, sem passar reyndar í öllum veðrum og er líka frábær sem hádegisverður.
Mér þykir alltaf gaman að bera bökur fram því þær eru svo fallegar á borði. Þessa uppskrift sá ég fyrir þónokkru hjá Smitten kitchen og beið eftir tækifæri til að prófa hana. Okkur þótti hún dásamleg! Ég bar bökuna fram með salati með fetaosti og balsamik creme, sem okkur þótti passa stóvel með.
Quiche Lorraine – uppskrift frá Smitten kitchen
- 1 ¾ bolli púrrulaukur, skorinn í bita (notið bara hvíta og ljósgræna hlutann, þið þurfið um tvo stóra lauka)
- ¾ bolli laukur, skorinn í bita
- 2 ½ tsk ólífuolía
- 1 1/4 bolli hveiti
- 1 msk + 2 tsk kornsterkja
- salt
- 6 msk smjör, skorið í teninga
- 4 egg
- ½ bolli + 1 msk rjómi
- 1 bolli + 2 msk sýrður rjómi
- smá múskat
- smá pipar
- 1½ bolli skinka, skorin í bita (ég keypti tilbúna skinkustrimla)
- ¾ bolli ostur, t.d. gouda eða gouda sterkur
Setjið stóra pönnu yfir lágan hita og steikið lauk og púrrulauk í ólívuolíu í 30-40 mínútur, eða þar til þeir eru karamelluseraðir. Hrærið annað slagið í. Takið af hitanum og kælið.
Setjið hveiti, kornsterkju, 1/4 tsk salt, smjör og 1 egg í matvinnsluvél og vinnið saman í deig (ef þið eruð ekki með matvinnsluvél notið þá handþeytara, gaffal eða heldurnar, allt virkar!).
Fletjið deigið út á hveitistráðu borði og setjið síðan yfir í bökuform (eða kökuform). Þrýstið deiginu vel í formið og kælið í ísskáp í 30 mínútur.
Á meðan bökuskelin er að kólna er rjóma og sýrðum rjóma blandað saman í skál. Hrærið eggjunum 3 sem eftir eru saman við ásamt smá múskati, salti og pipar. Hitið ofninn í 175°.
Takið bökuskelina úr ísskápnum og dreifið laukblöndunni yfir botninn á henni. Setjið þar á eftir skinkubita og rifinn ost yfir. Hellið rjóma- og eggjablöndunni yfir og setjið bökuna í ofninn. Bakið í um 25-30 mínútur, eða þar til bakan hefur fengið fallegan lit.
Berið bökuna fram heita eða við stofuhita, með góðu salati.
Hversu stórt er þetta form? Ég er með 30 sm disk en hliðarnar virðast hærri hjá þér