Nú er síðasta vikan í sumarfríinu hjá krökkunum að renna upp og eftir hana hefst skólinn að nýju. Við höfum átt æðislegt sumar og náð að ferðast mikið um landið, meðal annars í tvær ferðir norður á Akureyri, heimsótt Húsavík og Ásbyrgi, keyrt hringinn í kringum landið, eytt viku á Austfjörðum, dvalið í sveitinni góðu og enduðum sumarfríið á Þjóðhátíð í Eyjum. Eftir sitja skemmtilegar minningar og hellingur af myndum frá góðum dögum.
Á meðan við keyrðum austur á firði voru strákarnir okkar að keppa síðustu leikina sína í Rey Cup. Þeir komu til okkar með flugi daginn eftir, beint af fótboltavellinum, og grétu það ekki að sleppa við aksturinn.
Veðurspáin lofaði ekki góðu áður en við lögðum af stað en sem betur fer rættist ekki úr henni. Veðrið lék við okkur mest allt fríið og við nutum til hins ítrasta.
Þessi smágerði árabátur reyndist óþreytandi afþreying. Hér mátti varla tæpara standa, en drengurinn náði bátnum og komst óhultur (og þurr!) um borð.
Ég hef oft minnst á Ernu vinkonu mína hér á blogginu en minnist þess ekki að hafa birt mynd af henni áður. Við höfum verið vinkonur í 34 ár, ólumst upp í parhúsi og höfum búið á móti hvor annarri síðastliðin 9 ár. Það munar ári á dætrum okkar og strákarnir okkar eru jafn gamlir og bekkjabræður. Við tölum saman á hverjum degi og það væri lítið varið í lífið án hennar. Myndin af okkur stöllunum er tekin á Seiðisfirði í sumar.
Við buðum Ernu og fjölskyldu í mat í bústaðinn til okkar og hér stend ég í undirbúningi. Við grilluðum þennan BBQ kjúkling og í eftirrétt vorum við með súkkulaðiköku og ís.
Síðar um kvöldið kveiktum við bál og grilluðum sykurpúða. Krakkarnir voru búnir að safna spreki fyrr um daginn og áttu allan heiðurinn af bálinu.
Var ég búin að segja að veðrið var yndislegt? Lúxussumar sem við fengum!
Það má ekki líta af þessum drengjum. Ég var ósköp fegin að fá þá óhulta niður aftur. Skömmu síðar stukku þeir ofan í Eyvindará (sem er undir þeim á myndinni) og Gunnar gerði sér lítið fyrir og synti yfir hana, eins ísköld og straumgóð áin er.
Jökulsárlón á sumarkvöldi. Fallegra en allt.
Fótboltavöllurinn á Neskaupsstað hlýtur að vera með þeim fallegri á landinu. Það er ekki hægt að sleppa því að taka leik þar.
Hengirúm á höfninni á Eskifirði. Meganæs!
Besta kaup sumarsins var klárlega tengdamömmuboxið góða. Við erum ekki nógu klár í að ferðast með lítinn farangur og 10 daga ferðalag með 4 börn hefði verið hrikalegt án þess! Boxið gleypti allan farangurinn og gerði það að verkum að það fór vel um alla í bílnum.
Það var ýmislegt brallað og hér voru útbúnir frostpinnar fylltir með hlaupböngsum. Hlaupbangsar eru settir í frostpinnaform, fyllt ýmist með sprite eða eplasíder og fryst. Herlegheitin runnu vel ofan í krakkana.
Sumarfríið endaði síðan á Þjóðhátíð sem gaf minningar fyrir lífstíð.
Núna er ég búin í sumarfríi í bili og hversdagsleikinn tekinn við, sem inniheldur meðal annars vikumatseðlana góðu. Ég var farin að sakna þeirra! Hér kemur sá fyrsti í haust.
Vikumatseðill
Mánudagur: Fiskur í okkar sósu
Þriðjudagur: Gúllas með sólþurrkuðum tómötum
Miðvikudagur: Lauksúpa með beikonkurli og steiktu hvítlauksbrauði
Fimmtudagur: Spaghetti með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu
Föstudagur: Kasjúhnetukjúklingur
Með helgarkaffinu: Mjúk kanilsnúðakaka