Ég ætlaði að gefa ykkur þessa uppskrift í gær en tíminn hljóp frá mér. Núna er þó kvöldið laust og helgin framundan, nokkuð sem mig hefur hlakkað til í allan dag. Í kvöld bíða pizzur, nammi, sjónvarpssófinn og prjónarnir. Ég get varla hugsað mér betra föstudagskvöld.
Ef þið eruð að velta fyrir ykkur kvöldmatnum fyrir annað kvöld þá er ég með góða tillögu, nefnilega frábæran kasjúhnetukjúkling. Mér þykir hann slá flestu við og passa vel um helgar, sérstaklega á föstudagskvöldum þegar allir eru þreyttir eftir vikuna en langar að hafa góðan kvöldmat. Þá er þessi réttur himnasending því hann er æðislega góður og það tekur enga stund að matreiða hann.
Kasjúhnetukjúklingur
- 700 g kjúklingabringur, skornar í bita
- 1 msk kornsterkja (maizena mjöl)
- ¾ tsk gróft salt
- ¼ tsk mulinn pipar
- 2 msk grænmetisolía
- 6 hvítlauksrif, fínhökkuð
- 8 vorlaukar, hvítu og grænu hlutarnir aðskildir og hvorir um sig skornir í litla bita
- 2 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
- 3 msk hoisin sósa
- 125 g kasjúhnetur, ristaðar
Ristið kasjúhneturnar með því að dreifa úr þeim á bökunarplötu og setja þær í 175° heitan ofn í 10 mínútur. Fylgist með þeim undir lokin svo þær brenni ekki.
Veltið kjúklingabitunum upp úr kornsterkju þar til hún hjúpar þá. Kryddið með salti og pipar.
Hitið 1 msk af olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita. Setjið helminginn af kjúklingabitunum á pönnuna og steikið þar til þeir hafa fengið fallega húð. Það tekur um 3 mínútur. Færið kjúklingabitana yfir á disk.
Setjið 1 msk af olíu og það sem eftir var að kjúklingnum á pönnuna ásamt hvítlauknum og hvíta hlutanum af vorlauknum. Steikið þar til kjúklingabitarnir hafa fengið fallega húð og hrærið oft í pönnunni á meðan. Bætið fyrri skammtinum af kjúklingabitunum á pönnuna og bætið hrísgrjónaediki saman við. Látið sjóða saman í um 30 sekúndur eða þar til edikið hefur gufað upp.
Bætið hoisin sósu og ¼ bolla af vatni á pönnunna. Hrærið í pönnunni og látið sjóða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Það ætti að taka um 1 mínútu. Takið pönnuna af hitanum og hrærið græna hlutanum af vorlaukunum og ristuðu kasjúhnetunum saman við. Berið strax fram með soðnum hrísgrjónum.
Takk fyrir frábærar uppskriftir! ÉG var að spá hvað þú myndir mæla með að nota í staðinn fyrir hrísgrjónaedik og hoisin sósu sem fæst ekki hér?
Kveðja, Margrét
Nákvæmlega sama uppskrift hér http://www.marthastewart.com/334708/cashew-chicken
Hvað ertu að gefa í skyn Ragnheiður?
Verð að taka upp hanskann fyrir Svövu hérna. Það kemur hvergi fram að hún hafi búið uppskriftina til sjálf, þvert á móti finnst mér hún gefa annað í skyn. Við eigum allar uppskriftir sem við munum ekki hvar við fengum, væntanlega er það málið hér því ég hef tekið eftir því að Svava getur þess mjög oft hvaðan uppskriftirnar séu.
Takk Svava fyrir þetta frábæra blogg! Ætla svo sannarlega að prufa þennan rétt.
Kveðja, dyggur lesandi.
Einmitt Hulda. Spes komment frá Ragnheiði.
Er að fara að elda þennan í kvöld, hlakka svo til að prófa.
Er eitthvað annað sem hægt er að nota í staðin fyrir hrísgrjónaedikið?