Kung Pao kjúklingur

 

Kung Pao kjúklingur

Gleðilegan þjóðhátíðardag! Ó, hvað ég vona að veðrið haldist þurrt og að allir geta notið skemmtanahalds þar sem þeir eru. Ég ætla ekki að taka þátt í 17. júní hátíðarhöldum þetta árið (sem þykir svo sem ekki fréttnæmt þar sem ég er lítið fyrir slík skemmtanahöld, sé bara fyrir mér engin laus bílastæði og hvergi laus borð á veitingastöðum… nei, þetta er einfaldlega ekki fyrir mig) heldur er okkur boðið í grill til vinafólks okkar í kvöld. Börnin séu orðin svo stór að þau vilja helst að ég haldi mér heima á meðan þau skemmta sér á Rútstúni og ég mun ekki mótmæla því. Hef hugsað mér að fara á meðan í góðan göngutúr og síðan dunda mér í eldhúsinu þannig að það bíði þeirra nýbökuð kaka þegar þau koma heim. Smá þjóðhátíðarkaffi getur maður alltaf gert sér að góðu, ekki satt?

Kung Pao kjúklingur

Eins og alltaf fyrir helgar leitar hugurinn að helgarmatnum. Um daginn gerði ég æðislegan kjúklingarétt sem mér þykir passa vel sem helgarmatur, eða EM matur ef út í það er farið. Strákarnir voru ekki heima þetta kvöld en við sem vorum í mat voru stórhrifin af réttinum. Þegar Jakob kom heim fékk hann sér það sem eftir var og kláraði það upp til agna. Þegar ég svo spurði hvort honum hafi ekki þótt þetta æðislega gott þá svaraði hann „þetta var mjög gott en ég hef fengið betra“. What! Súpergott segjum við hin og klárlega réttur til að prófa.

Kung Pao kjúklingur

Kung Pao kjúklingur

 • 3-4 kjúklingabringur, skornar í munnbita
 • Salt og pipar
 • 1½ bolli maísmjöl
 • 3 egg
 • ¼ bolli canola olía
 • ¼ bolli soja sósa
 • ¼ bolli edik
 • 1 matskeið rautt chillí paste (t.d. Sriracha)
 • 1 tsk pressaður hvítlaukur
 • ¼ bolli púðursykur
 • ½ msk maísmjöl
 • 1 rauð paprika, hökkuð
 • ¼ bolli salthnetur
 • vorlaukur til skrauts

Hitið ofninn í 180°.

Skerið kjúklinginn í munnbita og kryddið með salti og pipar. Setjið maísmjöl í eina skál og léttilega hrærð egg í aðra skál. Hitið olíuna á pönnu.

Veltið kjúklingnum upp úr maísmjölinu, síðan eggjunum og setjið hann að lokum á pönnuna. Steikið þar til kjúklingurinn er byrjaður að brúnast. Færið kjúklinginn þá af pönnunni yfir í eldfast mót.

Hrærið saman sojasósu, ediki, chillí paste, hvítlauk, púðursykri og maísmjöli. Hellið blöndunni yfir kjúklinginn og blandið vel. Setjið hakkaða papriku og salthnetur yfir. Bakið í klukkutíma en hrærið í réttinum á 15 mínútna fresti. Berið fram með hrísgrjónum.

Kasjúhnetukjúklingur

Kasjúhnetukjúklingur

Ég ætlaði að gefa ykkur þessa uppskrift í gær en tíminn hljóp frá mér. Núna er þó kvöldið laust og helgin framundan, nokkuð sem mig hefur hlakkað til í allan dag. Í kvöld bíða pizzur, nammi, sjónvarpssófinn og prjónarnir. Ég get varla hugsað mér betra föstudagskvöld.

Ef þið eruð að velta fyrir ykkur kvöldmatnum fyrir annað kvöld þá er ég með góða tillögu, nefnilega frábæran kasjúhnetukjúkling. Mér þykir hann slá flestu við og passa vel um helgar, sérstaklega á föstudagskvöldum þegar allir eru þreyttir eftir vikuna en langar að hafa góðan kvöldmat. Þá er þessi réttur himnasending því hann er æðislega góður og  það tekur enga stund að matreiða hann.

Kasjúhnetukjúklingur

Kasjúhnetukjúklingur

 • 700 g kjúklingabringur, skornar í bita
 • 1 msk kornsterkja (maizena mjöl)
 • ¾ tsk gróft salt
 • ¼ tsk mulinn pipar
 • 2 msk grænmetisolía
 • 6 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 8 vorlaukar, hvítu og grænu hlutarnir aðskildir og hvorir um sig skornir í litla bita
 • 2 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
 • 3 msk hoisin sósa
 • 125 g kasjúhnetur, ristaðar

Ristið kasjúhneturnar með því að dreifa úr þeim á bökunarplötu og setja þær í 175° heitan ofn í 10 mínútur. Fylgist með þeim undir lokin svo þær brenni ekki.

Veltið kjúklingabitunum upp úr kornsterkju þar til hún hjúpar þá. Kryddið með salti og pipar.

Hitið 1 msk af olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita. Setjið helminginn af kjúklingabitunum á pönnuna og steikið þar til þeir hafa fengið fallega húð. Það tekur um 3 mínútur. Færið kjúklingabitana yfir á disk.

Setjið 1 msk af olíu og það sem eftir var að kjúklingnum á pönnuna ásamt hvítlauknum og hvíta hlutanum af vorlauknum. Steikið þar til kjúklingabitarnir hafa fengið fallega húð og hrærið oft í pönnunni á meðan. Bætið fyrri skammtinum af kjúklingabitunum á pönnuna og bætið hrísgrjónaediki saman við. Látið sjóða saman í um 30 sekúndur eða þar til edikið hefur gufað upp.

Bætið hoisin sósu og ¼ bolla af vatni á pönnunna. Hrærið í pönnunni og látið sjóða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Það ætti að taka um 1 mínútu. Takið pönnuna af hitanum og hrærið græna hlutanum af vorlaukunum og ristuðu kasjúhnetunum saman við. Berið strax fram með soðnum hrísgrjónum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Í dag er engin venjulegur dagur því hér fögnum við stórafmæli. Það er ótrúlegt að liðin séu 10 ár síðan við Öggi keyrðum snemma morguns á fæðingadeildina í Uppsölum. Ég man að við stoppuðum á ljósum á leiðinni og mér var litið á bílana í kringum okkur og sagði við Ögga; „Hugsa sér, hér er allt þetta fólk á leið til vinnu en við erum að fara að eignast tvö börn“. Lítið vissum við hvað biði okkar og hversu óendanlega mikla gleði þessir bræður ættu eftir að færa okkur.

Við fögnuðum deginum að ósk afmælisbarnanna á Hamborgarafabrikunni. Um helgina verður afmælisboð og þeir hafa beðið um að hafa mexíkóska kjúklingasúpu og kökur í eftirrétt.

Desembermánður hefur verið sá annasamasti sem ég man eftir og mér finnst ég varla hafa gert neitt af viti í eldhúsinu. Ég eldaði þó æðislegan kjúklingarétt um daginn sem ég átti eftir að setja inn. Þessi réttur sló í gegn á heimilinu og við mælum heilshugar með honum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

 • 600 g kjúklingabringur (eða úrbeinað kjúklingalæri)
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 75 g marineraðir sólþurrkaðir tómatar + 1 tsk olía
 • 1 tsk salt + 3/4 tsk salt
 • ferskmalaður pipar
 • 1 lítill púrrulaukur
 • 1 msk + 1 msk olía
 • 1 dl vatn

Hitið ofninn í 200°. Mixið sýrðum rjóma, sólþurrkuðum tómötum og 1 tsk af olíunni af tómötunum saman með töfrasprota. Kryddið með 1 tsk salti og nokkrum snúningum úr piparkvörninni. Fletjið bringurnar út (ef þær eru mjög þykkar getur verið gott að kljúfa þær) og setjið 1/3 af tómatamaukinu á þær. Rúllið bringunum upp og festið með tannstöngli. Kryddið með 3/4 tsk salti og smá pipar og brúnið á pönnu í 1 msk af olíu  þannig að bringurnar fái fallegan lit. Setjið kjúklinginn í eldfast mót og setjið í ofninn í ca 10 mínútur.

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er sósan útbúin. Hreinsið púrrulaukinn, kljúfið hann og skerið í þunnar sneiðar. Steikið púrrulaukinn í 1 msk af olíu í ca 3 mínútur. Bætið því sem eftir var af tómatmaukinu á pönnuna ásamt vatni og látið sjóða saman í ca 1 mínútu.  Takið kjúklinginn úr ofninum og hellið sósunni yfir hann. Setjið aftur í ofninn þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, eða ca 10 mínútur.

Berið kjúklinginn fram með pasta og ruccola eða spínati.

Ofnbakaður kjúklingur með sólþurrkuðum tómötum

Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Ég hef náð að gera ýmislegt yfir helgina. Ég kláraði loksins húfu sem ég hef verið að prjóna á Gunnar og nú vill Jakob eins. Ég ætla því að skjótast á morgun eftir meira garni og hefjast handa á ný.

Ég keypti nóvemberkaktus og koralkaktus og setti í fallegu blómapottana frá Greengate. Ég krosslegg fingur og vona að þeir lifi.

Ég keypti erikur og setti fyrir framan hús. Ég vildi hvítar eins og venjulega en Malín náði að tala mig inn á bleikar. Henni þóttu þær haustlegri.

Ég bakaði brauð í morgun á meðan fjölskyldan svaf. Það var dásamlegt að setjast niður saman og borða nýbakað brauð í morgunmat. Uppskriftin var ný og ég lofa að setja hana inn á morgun.

Ég bakaði stóra uppskrift af Silvíuköku. Þessi kaka hverfur alltaf um leið og hún kemur úr ofninum svo það hentar vel að stækka uppskriftina og baka hana í ofnskúffunni.

Að lokum eldaði ég frábæran kjúklingarétt sem ég ætla að enda færsluna á. Krakkarnir elskuðu hann og gáfu honum 9,9 í einkunn. Við Öggi tókum undir með þeim og borðuðum þar til ekkert var eftir.

Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Marinering:

 • 6 kjúklingabringur
 • 0,5 dl sojasósa
 • 2 msk hvítvínsedik
 • fullt af klipptri steinselju
 • 1 hakkað hvítlauksrif

Blandið saman öllum hráefnunum í marineringuna og leggið kjúklingabringurnar í (ég skar bringurnar gróflega niður). Látið liggja í marineringunni yfir nóttu eða amk 6 klst. Látið allt í eldfast mót og bakið við 175°í 30-50 mínútur (eftir stærð á kjúklingabringunum).

Hellið vökvanum/marineringunni frá í skál í gegnum sigti.

Sósa:

 • 2 dl sýrður rjómi
 • 3 dl rjómi
 • 0,5 dl marinering eða meira (smakkið til, mér þykir best að nota alla marineringuna)
 • pipar og salt
 • maizena

Sjóðið saman öll hráefnin í sósunni. Smakkið til með marineringu, salti og pipar. Þykkið sósuna með maizena. Setjið annað hvort kjúklinginn í pottinn og látið sjóða saman um stund eða látið kjúklinginn ásamt sósunni í eldfast mót og hitið í ofni.

Berið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

Mexíkóskur mangókjúklingur

Mér þykir svo gaman að vera með góðan mat á föstudögum og notalegt að byrja helgarfríið á að sitja lengi saman yfir kvöldmatnum. Helst á maturinn að vera þannig að það sé ekki hægt að hætta að borða og að það sé verið að narta allt kvöldið. Ef ég er t.d. með pizzur þá er gengið frá eftir matinn en afgangurinn af pizzunni látinn standa áfram á borðinu. Það er síðan verið að skera sér bita allt kvöldið. Það finnst mér notalegt.

Ég er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig mat ég vil hafa á föstudagskvöldum og suma rétti myndi ég alls ekki hafa. Mér þykir t.d. mexíkóskur matur, pizzur og kjúklingur vera ekta föstudagsmatur á meðan t.d. lambalæri, fiskur og grjónagrautur eru það alls ekki. Ég get ekki útskýrt af hverju, svona er þetta bara, en sitt sýnist hverjum.

Í gærkvöldi var ég með ekta föstudagsmat, kjúklingabringur í mexíkóskri mangósósu með hrísgrjónum og góðu salati, sem var að mínu mati fullkomin byrjun á helgarfríinu.

Mexíkóskur mangókjúklingur

 • 4 kjúklingabringur
 • 2-3 tsk tacokrydd
 • 250 gr frosið niðurskorið mangó
 • 4 dl sýrður rjómi
 • 1,5 msk fljótandi kjúklingakraftur eða 1 ½ teningur
 • 2 rauðar paprikur

Hitið ofninn í 200°. Kljúfið kjúklingabringurnar á lengdina. Saltið og piprið og veltið þeim upp úr tacokryddinu. Leggið í smurt eldfast mót.

Blandið mangó, sýrðum rjóma og kjúklingakrafti saman með töfrasprota. Hellið blöndunni yfir kjúklinginn. Skerið paprikuna smátt og stráið yfir. Bakið í ofninum í ca 25 mínútur.

Berið réttin fram með hrísgrjónum og góðu salati með t.d. tómötum, rauðlauk, papriku, avokadó, fetaosti og muldum nachosflögum með kjúklingnum.

Oreganokjúklingur og vettlingar

Ég hef aldrei skrifað bloggfærslu við eins fallegar aðstæður og núna. Við erum í Vestmannaeyjum og ég horfi yfir dalinn, byggðina, Heimaklett og út á haf. Mér finnst alltaf jafn yndislegt að koma hingað og það er að verða hefð hjá okkur að fara til Eyja á sumrin. Í gærkvöldi fórum við í sund fyrir kvöldmat og komum svo við í videóleigunni á leiðinni heim, leigðum 4 myndir og keyptum ársbyrgðir af nammi og snakki. Öggi og strákarnir eru að horfa á síðustu myndina, mynd sem strákarnir völdu. Mér líst ekkert á hana og sit því hér við tölvuna og ætla að gefa uppskrifina af kvöldmatnum hjá okkur í gær.

Áður en við lögðum af stað hingað leist okkur ekkert á veðurspána en núna þegar við erum á heimleið erum við sammála um að helgin hefði ekki verið svona róleg og notaleg ef við hefðum ekki fengið rigninguna. Við erum meðal annars búin að klára að lesa Hungurleikana, horfa á sjónvarpið, spila, blogga og prjóna. Prjónaverkefni helgarinnar voru þessir vetrarvettlingar fyrir Gunnar sem ég prjónaði úr afgangsgarni sem ég átti. Uppskriftin kemur úr bók eftir Kristínu Harðardóttur sem heitir Vettlingar og fleira.

Uppskrifina að kjúklingaréttinum fékk ég fyrir mörgum árum í blaði sem sænska matvörukeðjan Ica gefur út, Buffé. Þetta er einfaldur og fljótlegur réttur sem okkur þykir feiknagóður. Oregano og balsamik edik gefur réttinum mikið og gott bragð og okkur þykir gott að hafa baguette með til að dýfa í sósuna.

Oreganokjúklingur

 • 4 kjúklingabringur
 • 4 hvítlauksrif
 • smjör
 • salt og pipar
 • 5 dl matreiðslurjómi
 • 2 kjúklingateningar
 • 5-6 tsk ferskt eða þurrkað oregano
 • 2-3 msk balsamik edik

Skerið hverja kjúklingabringu í þrennt á lengdina. Takið hýðið af hvítlauksrifunum og hakkið þau fínt niður.  Steikið kjúklinginn upp úr smjöri á pönnu við miðlungsháan hita og saltið og piprið. Blandið matreiðslurjóma, kjúklingateningum, oregano og balsamik ediki saman í potti og látið suðuna koma upp. Bætið kjúklingnum og hvítlauknum út í og látið sjóða við vægan hita undir loki í ca 5 mínútur. Smakkið til og bætið ef til vill meiri oregano eða basamik ediki út í. Berið fram með ofnbökuðum kartöflum eða hrísgrjónum og salati. Okkur þykir líka gott að hafa baguette brauð með til að dýfa í sósuna því hún er mjög bragðgóð.

Orange Chicken

Þegar við fórum til Boston í fyrsta skipti féllum við fyrir rétt sem heitir Bourbon Chicken. Við fengum ekki nóg af honum og þegar við komum heim byrjaði ég strax að gúggla uppskriftir að réttinum og prófa mig áfram. Við borðuðum þennan rétt reglulega næstu árin og okkur fannst hann alltaf jafn góður.

Þegar við fórum aftur til Boston, þremur árum síðar, vorum við mjög spennt að fara og fá okkur Bourbon Chicken. Við fórum strax fyrsta kvöldið á veitingastaðinn en þegar við komum þangað bauð afgreiðslukonan okkur að smakka annan rétt, Orange Chicken. Við féllum í stafi, hann var æðislegur. Við pöntuðum okkur bæði Bourbon Chicken og Orange Chicken og vorum alveg sammála um að Orange Chicken hefði vinninginn. Það var síðan sama saga þegar við komum heim, ég fór á netið að leita að uppskriftum og fann helling. Gallinn var að þær voru allar svo ólíkar að ég vissi ekki hvar ég átti að byrja.

Stuttu síðar átti ég leið í Kost og mikið varð ég glöð þegar ég sá að þeir voru að selja tilbúnu Orange Chicken sósuna frá Panda Express. Ég keypti strax tvær flöskur og eldaði réttinn nokkrum sinnum handa okkur og vinum okkar. Rétturinn vakti alltaf lukku og þótti alveg stórgóður. Þegar ég ætlaði að fara að kaupa fleiri flöskur kom ég hins vegar að tómum kofanum því sósurnar voru búnar. Það virðist ekki hægt að ganga að sósunni vísri en af og til birtist hún í hillunum og síðast núna um daginn.

Þar sem mér finnst fátt eins ergilegt og að standa í verlsun leitandi að hráefni sem ég veit ekki hvernig lítur út þá ákvað ég að taka mynd af flöskunni og maísmjölinu ef einhvern skyldi langa að prófa.

Orange Chicken

 • 900 gr kjúklingabringur
 • 2 eggjahvítur
 • 2 tsk salt
 • 2 tsk sykur
 • 2 bollar maísmjöl
 • 5 bollar olía (vegetable oil) til að steikja í

Skerið kjúklingabringurnar í ca 1,5 cm bita og leggið til hliðar. Hrærið vel saman eggjahvítum, salti og sykri í skál og bætið kjúklingabitunum í skálina.  Hitið olíuna í potti upp í 175-190 gráður (eða hitið olíuna bara vel við hæðsta hita). Setjið maísmjölið í hreinan plastpoka og bætið marineruðu kjúklingabitunum út í. Hristið vel þannig að maísmjölið þekji kjúklingabitana.  Djúpsteikið kjúklingabitana í smáum skömmtum í einu þar til þeir verða gylltir á lit. Það tekur um 2-3 mínútur. Þegar kjúlingabitarnir eru tilbúnir eru þeir veiddir upp úr pottinum og lagðir á disk klæddan eldhúspappír. Endurtakið með restina af bitunum.

Hitið sósuna (tæplega hálf flaska fyrir þessa uppskrift) í víðum potti og leyfið henni að sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Hrærið reglulega í pottinum. Bætið djúpsteiktu kjúklingabitunum út í og hrærið vel þannig að þeir hjúpist af sósunni.  Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Tikka masala kjúklingur að hætti Jamie Oliver

Ég hef oft horft á þessa uppskrift og skil ekki af hverju ég hef ekki eldað hana fyrr. Uppskriftin kemur úr bók sem heitir Jamie Oliver; Jamie´s dinners og þó það séu mörg ár síðan ég eignaðist bókna þá held ég að þetta sé fyrsta uppskriftin sem ég elda úr henni.

Ég á nokkrar uppskriftabækur eftir Jamie Oliver og hef aldrei eldað annað en góðan mat upp úr þeim. Þær eru algjör gullnáma og alltaf hægt að treysta á þær. Ég varð því fyrir miklum vonbrigðum þegar við fórum á Jamie Oliver staðinn í Covent Garden í London því maturinn þar var sá lakasti sem við borðuðum í allri ferðinni.

Þessi tikka masala kjúklingur er einn sá besti sem ég hef smakkað. Okkur fannst hann öllum alveg æðislegur og ég hefði verið alsæl hefði ég fengið hann í Covent Garden. Ég er samt fegin að ég eldaði hann bara hér heima því þá get ég gert hann aftur fljótlega.

Tikka Masala kjúklingur

 • 6 hvítlauksrif
 • 7,5 cm engifer
 • 2-3 fersk rauð chilli, fræhreinsuð
 • 1 msk sinnepsfræ
 • 1 msk paprikuduft
 • 2 tsk cumin
 • 2 tsk kóriander
 • 3 msk garam masala
 • 200 gr jógúrt
 • 4 kjúklingabringur, skornar í grófa bita
 • 1 msk smjör
 • 2 miðlungs laukar, afhýddir og skornir í fínar sneiðar
 • 2 msk tómat purée
 • lítið handfylli af fínmöluðum cashew hnétum
 • sjávarsalt
 • 115 ml rjómi
 • handfylli af ferskum kóriander, hakkað
 • safi af 1-2 lime

Rífið hvítlauk og engifer á fínasta hlutanum á rifjárninu og setjið í skál. Skerið chilli-ið eins fínt niður og þið getið og bætið í skálina með hvítlauknum og engiferinu. Hitið góða skvettu af ólivuolíu á pönnu og setjið sinnepsfræin á pönnuna. Þegar þau byrja að skoppa eru þau tekin af pönnunni og bætt í hvítlauks- og engiferblönduna ásamt paprikudufti, cumin, kórialnder og 2 msk af garam masala. Setjið helminginn af þessari blöndu í skál og bætið jógúrtinu og kjúklingabitunum í skálina. Hrærið og leyfið að marinerast í ca 30 mínútur.

Bræðið smjörið á pönnunni sem sinnepsfræin voru á og bætið fint skornum lauknum á pönnuna ásamt seinni helmingnum af kryddblöndunni.  Leyfið þessu að eldast á pönnunni við vægan hita í 15 mínútur án þess að brúna blönduna of mikið. Á meðan kemur dásamleg lykt í eldhúsið. Bætið tómat purée, fínmöluðum hnétunum, hálfum lítra af vatni og hálfri teskeið af salti. Hrærið vel og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Steikið kjúklinginn við háan hita á pönnu eða grillið þar til hann er eldaður í gegn.

Hitið sósuna aftur og bætið rjómanum út í ásamt einni matskeið af garam masala. Smakkið til og bætið við kryddi eftir þörfum. Um leið og suðan kemur upp er sósan tekin af hitanum og kjúklingnum bætt út í. Smakkið aftur til  og stráið ferskum kóriander yfir ásamt lime-safanum. Berið fram með basmati hrísgrjónum, nanbrauði og köldum bjór.