Oreganokjúklingur og vettlingar

Ég hef aldrei skrifað bloggfærslu við eins fallegar aðstæður og núna. Við erum í Vestmannaeyjum og ég horfi yfir dalinn, byggðina, Heimaklett og út á haf. Mér finnst alltaf jafn yndislegt að koma hingað og það er að verða hefð hjá okkur að fara til Eyja á sumrin. Í gærkvöldi fórum við í sund fyrir kvöldmat og komum svo við í videóleigunni á leiðinni heim, leigðum 4 myndir og keyptum ársbyrgðir af nammi og snakki. Öggi og strákarnir eru að horfa á síðustu myndina, mynd sem strákarnir völdu. Mér líst ekkert á hana og sit því hér við tölvuna og ætla að gefa uppskrifina af kvöldmatnum hjá okkur í gær.

Áður en við lögðum af stað hingað leist okkur ekkert á veðurspána en núna þegar við erum á heimleið erum við sammála um að helgin hefði ekki verið svona róleg og notaleg ef við hefðum ekki fengið rigninguna. Við erum meðal annars búin að klára að lesa Hungurleikana, horfa á sjónvarpið, spila, blogga og prjóna. Prjónaverkefni helgarinnar voru þessir vetrarvettlingar fyrir Gunnar sem ég prjónaði úr afgangsgarni sem ég átti. Uppskriftin kemur úr bók eftir Kristínu Harðardóttur sem heitir Vettlingar og fleira.

Uppskrifina að kjúklingaréttinum fékk ég fyrir mörgum árum í blaði sem sænska matvörukeðjan Ica gefur út, Buffé. Þetta er einfaldur og fljótlegur réttur sem okkur þykir feiknagóður. Oregano og balsamik edik gefur réttinum mikið og gott bragð og okkur þykir gott að hafa baguette með til að dýfa í sósuna.

Oreganokjúklingur

  • 4 kjúklingabringur
  • 4 hvítlauksrif
  • smjör
  • salt og pipar
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • 2 kjúklingateningar
  • 5-6 tsk ferskt eða þurrkað oregano
  • 2-3 msk balsamik edik

Skerið hverja kjúklingabringu í þrennt á lengdina. Takið hýðið af hvítlauksrifunum og hakkið þau fínt niður.  Steikið kjúklinginn upp úr smjöri á pönnu við miðlungsháan hita og saltið og piprið. Blandið matreiðslurjóma, kjúklingateningum, oregano og balsamik ediki saman í potti og látið suðuna koma upp. Bætið kjúklingnum og hvítlauknum út í og látið sjóða við vægan hita undir loki í ca 5 mínútur. Smakkið til og bætið ef til vill meiri oregano eða basamik ediki út í. Berið fram með ofnbökuðum kartöflum eða hrísgrjónum og salati. Okkur þykir líka gott að hafa baguette brauð með til að dýfa í sósuna því hún er mjög bragðgóð.

3 athugasemdir á “Oreganokjúklingur og vettlingar

  1. Var með matarboð, hafði lítinn tíma og gerði þennan rétt. Maturinn sló í gegn, sósan næstum sleikt af diskunum. Takk fyrir frábæra síðu, ég mæli með henni við alla sem ég þekki. Kveðja, Halldóra

  2. Ótrúlega gott, gerði þennan i gærkvöldi, sló heldur betur í gegn þessi kjúllaréttur!! 😉

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s