Föstudagskvöld

Húfa

Mig langaði bara til að kíkja inn og óska ykkur góðrar helgar. Við ætlum að eyða kvöldinu hefðinni samkvæmt í sjónvarpssófanum með krökkunum. Það er fátt sem slær föstudagssjónvarpskvöldin okkar út og við hlökkum til þeirra alla vikuna.

Það var mexíkósk kjúklingasúpa í kvöldmat hjá okkur og við ætlum að fá okkur eftirréttinn yfir X-Factor. Verkefni kvöldsins verður síðan að klára húfuna sem þið sjáið hér að ofan. Ég er að prjóna hana á litla frænku sem að býr allt of langt í burtu en á hjarta mitt skuldlaust.

Ég vona að kvöldið ykkar verði gott.

Hindberjakökur

Við fengum þær yndislegu fréttir í kvöld að Svanhvít systir hefði eignaðist litla stelpu í Kaupmannahöfn. Við erum búin að bíða eftir litlu frænkunni í tvær vikur og því óhætt að segja að öllum sé létt yfir að hún sé loksins komin í heiminn og að allt hafi gengið vel. Það er óbærilegt að vera svona langt í burtu frá þeim. Við fengum strax sendar myndir og erum öll sammála um að hún er fullkomin.

Í vor ákváðum við Gunnar að prjóna sængurgjöf handa litlu frænku. Gunnar vildi prjóna sokka og ég ákvað að gera peysu í stíl. Við áttum margar notalegar stundir saman yfir prjónunum og erum ánægð með útkomuna. Bæði sokkarnir og peysan eru úr merinó ull frá Rowan sem er bæði mjúk og hlý fyrir litla englakroppa. Uppskriftin að peysunni kemur frá Petit Purls og sokkauppskriftina fann ég í gömlu Rowan blaði sem heitir Rowan babies.

Við fögnum deginum með því að bjóða upp á hindberjakökur sem eru bæði einfaldar og mjög fljótbakaðar. Ég stóðst ekki mátið og gerði hjörtu í staðin fyrir holu sem ég fyllti með hindberjasultu. Mér þóttu þær svo mikið fallegri þannig.

Hindberjakökur

 • 125 gr smjör
 • 3/4 dl sykur
 • 2 1/2 dl hveiti
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 tsk lyftiduft

Hitið ofninn í 200°. Hrærið smjör og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, vanillusykri og lyftidufti saman við og hrærið saman. Setjið deigið á hveitistráð borð og rúllið upp í rúllu. Skerið rúlluna í eins stóra bita og þið viljið hafa kökurnar (mér finnst passlegt  að hafa 12-15 bita) og rúllið hverjum bita í kúlu. Leggið hverja kúlu í möffinsform og þrýstið aðeins á þær. Gerið holu í miðjuna og fyllið hana með hindberjasultu. Bakið í ca 10 mínútur.

Oreganokjúklingur og vettlingar

Ég hef aldrei skrifað bloggfærslu við eins fallegar aðstæður og núna. Við erum í Vestmannaeyjum og ég horfi yfir dalinn, byggðina, Heimaklett og út á haf. Mér finnst alltaf jafn yndislegt að koma hingað og það er að verða hefð hjá okkur að fara til Eyja á sumrin. Í gærkvöldi fórum við í sund fyrir kvöldmat og komum svo við í videóleigunni á leiðinni heim, leigðum 4 myndir og keyptum ársbyrgðir af nammi og snakki. Öggi og strákarnir eru að horfa á síðustu myndina, mynd sem strákarnir völdu. Mér líst ekkert á hana og sit því hér við tölvuna og ætla að gefa uppskrifina af kvöldmatnum hjá okkur í gær.

Áður en við lögðum af stað hingað leist okkur ekkert á veðurspána en núna þegar við erum á heimleið erum við sammála um að helgin hefði ekki verið svona róleg og notaleg ef við hefðum ekki fengið rigninguna. Við erum meðal annars búin að klára að lesa Hungurleikana, horfa á sjónvarpið, spila, blogga og prjóna. Prjónaverkefni helgarinnar voru þessir vetrarvettlingar fyrir Gunnar sem ég prjónaði úr afgangsgarni sem ég átti. Uppskriftin kemur úr bók eftir Kristínu Harðardóttur sem heitir Vettlingar og fleira.

Uppskrifina að kjúklingaréttinum fékk ég fyrir mörgum árum í blaði sem sænska matvörukeðjan Ica gefur út, Buffé. Þetta er einfaldur og fljótlegur réttur sem okkur þykir feiknagóður. Oregano og balsamik edik gefur réttinum mikið og gott bragð og okkur þykir gott að hafa baguette með til að dýfa í sósuna.

Oreganokjúklingur

 • 4 kjúklingabringur
 • 4 hvítlauksrif
 • smjör
 • salt og pipar
 • 5 dl matreiðslurjómi
 • 2 kjúklingateningar
 • 5-6 tsk ferskt eða þurrkað oregano
 • 2-3 msk balsamik edik

Skerið hverja kjúklingabringu í þrennt á lengdina. Takið hýðið af hvítlauksrifunum og hakkið þau fínt niður.  Steikið kjúklinginn upp úr smjöri á pönnu við miðlungsháan hita og saltið og piprið. Blandið matreiðslurjóma, kjúklingateningum, oregano og balsamik ediki saman í potti og látið suðuna koma upp. Bætið kjúklingnum og hvítlauknum út í og látið sjóða við vægan hita undir loki í ca 5 mínútur. Smakkið til og bætið ef til vill meiri oregano eða basamik ediki út í. Berið fram með ofnbökuðum kartöflum eða hrísgrjónum og salati. Okkur þykir líka gott að hafa baguette brauð með til að dýfa í sósuna því hún er mjög bragðgóð.