Við fengum þær yndislegu fréttir í kvöld að Svanhvít systir hefði eignaðist litla stelpu í Kaupmannahöfn. Við erum búin að bíða eftir litlu frænkunni í tvær vikur og því óhætt að segja að öllum sé létt yfir að hún sé loksins komin í heiminn og að allt hafi gengið vel. Það er óbærilegt að vera svona langt í burtu frá þeim. Við fengum strax sendar myndir og erum öll sammála um að hún er fullkomin.
Í vor ákváðum við Gunnar að prjóna sængurgjöf handa litlu frænku. Gunnar vildi prjóna sokka og ég ákvað að gera peysu í stíl. Við áttum margar notalegar stundir saman yfir prjónunum og erum ánægð með útkomuna. Bæði sokkarnir og peysan eru úr merinó ull frá Rowan sem er bæði mjúk og hlý fyrir litla englakroppa. Uppskriftin að peysunni kemur frá Petit Purls og sokkauppskriftina fann ég í gömlu Rowan blaði sem heitir Rowan babies.
Við fögnum deginum með því að bjóða upp á hindberjakökur sem eru bæði einfaldar og mjög fljótbakaðar. Ég stóðst ekki mátið og gerði hjörtu í staðin fyrir holu sem ég fyllti með hindberjasultu. Mér þóttu þær svo mikið fallegri þannig.
Hindberjakökur
- 125 gr smjör
- 3/4 dl sykur
- 2 1/2 dl hveiti
- 2 tsk vanillusykur
- 1 tsk lyftiduft
Hitið ofninn í 200°. Hrærið smjör og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, vanillusykri og lyftidufti saman við og hrærið saman. Setjið deigið á hveitistráð borð og rúllið upp í rúllu. Skerið rúlluna í eins stóra bita og þið viljið hafa kökurnar (mér finnst passlegt að hafa 12-15 bita) og rúllið hverjum bita í kúlu. Leggið hverja kúlu í möffinsform og þrýstið aðeins á þær. Gerið holu í miðjuna og fyllið hana með hindberjasultu. Bakið í ca 10 mínútur.
Namm, hallongrottor! 🙂 Til hamingju með litlu frænku og vá hvað þið prjónafötin eru flott!
Takk, takk – hallongrottornar eru eitt af því góða sem við fluttum með okkur frá Svíþjóð 🙂