Dumlekökur í ofnskúffu

Dumlekökur í ofnskúffu

Hér áður fyrr, þegar börnin voru yngri, gat ágústmánuður oft verið svolítið snúin. Þá var sumarfríið oft búið hjá okkur foreldrunum en skólinn ekki byrjaður og málin voru leyst með því að skrá börnin á sumarnámskeið. Í dag er þetta liðin saga og börnin orðin svo stór að í ár voru þau í fyrsta sinn öll í sumarvinnu.  Það sem mér þykir ekki minna merkilegt er að í fyrsta sinn á ævinni kom sú staða upp að ég hef nánast verið ein heima í heila viku! Ég man varla eftir að hafa nokkurn tímann verið ein heima í sólarhring þannig að þetta eru svo sannarlega viðbrigði. Í fyrstu hugsaði ég með mér að það væri nú ágætt að þurfa ekki að hugsa um neinn nema sjálfa mig en þetta fer að verða gott. Á morgun kemur Malín heim (eftir tveggja vikna flakk um Stokkhólm og Wales) og ég get ekki beðið!

Dumlekökur í ofnskúffu

Í vikunni hef ég komið ýmsu í verk og þegar ég var að renna yfir myndirnar í tölvunni í gærkvöldi þá rakst ég á þessar af Dumle kökum sem ég bakaði fyrr í sumar. Þær voru æðislegar og áttu auðvitað að vera fyrir löngu komnar inn á bloggið. Það hentar jú sjaldan jafn vel að eiga góðgæti með kaffinu en þegar allir eru heima í sumarfríi! Þessi uppskrift er stór og gefur um 50 kökur sem hægt er að frysta og taka út eftir þörfum. Ég mæli þó með að þeim sé komið strax í frystinn því annars eiga þær eftir að klárast upp til agna áður en þú veist af. Þar tala ég af reynslu!

Dumlekökur í ofnskúffu

Dumlekökur (uppskriftin gefur um 50 kökur)

 • 300 g smjör, við stofuhita
 • 3 dl sykur
 • 2 msk vanillusykur
 • 3 tsk lyftiduft
 • 3 mak sýróp
 • 7,5 dl hveiti
 • 2 pokar Dumle karamellur (samtals 240 g), hakkaðar

Hitið ofninn í 175° og klæðið ofnskúffu með bökunarpappír. Hnoðið öll hráefnin, fyrir utan Dumle karamellurnar, saman í deig og þrýstið því í ofnskúffuna þannig að það verði jafn þykkt og fylli út í hana. Stráið hökkuðum Dumle karamellum yfir. Bakið 10-12 mínútur, þar til kanntarnir hafa fengið gylltan lit. Látið kólna og skerið síðan í bita.

Dumlekökur í ofnskúffu

Hindberjakökur

Við fengum þær yndislegu fréttir í kvöld að Svanhvít systir hefði eignaðist litla stelpu í Kaupmannahöfn. Við erum búin að bíða eftir litlu frænkunni í tvær vikur og því óhætt að segja að öllum sé létt yfir að hún sé loksins komin í heiminn og að allt hafi gengið vel. Það er óbærilegt að vera svona langt í burtu frá þeim. Við fengum strax sendar myndir og erum öll sammála um að hún er fullkomin.

Í vor ákváðum við Gunnar að prjóna sængurgjöf handa litlu frænku. Gunnar vildi prjóna sokka og ég ákvað að gera peysu í stíl. Við áttum margar notalegar stundir saman yfir prjónunum og erum ánægð með útkomuna. Bæði sokkarnir og peysan eru úr merinó ull frá Rowan sem er bæði mjúk og hlý fyrir litla englakroppa. Uppskriftin að peysunni kemur frá Petit Purls og sokkauppskriftina fann ég í gömlu Rowan blaði sem heitir Rowan babies.

Við fögnum deginum með því að bjóða upp á hindberjakökur sem eru bæði einfaldar og mjög fljótbakaðar. Ég stóðst ekki mátið og gerði hjörtu í staðin fyrir holu sem ég fyllti með hindberjasultu. Mér þóttu þær svo mikið fallegri þannig.

Hindberjakökur

 • 125 gr smjör
 • 3/4 dl sykur
 • 2 1/2 dl hveiti
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 tsk lyftiduft

Hitið ofninn í 200°. Hrærið smjör og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, vanillusykri og lyftidufti saman við og hrærið saman. Setjið deigið á hveitistráð borð og rúllið upp í rúllu. Skerið rúlluna í eins stóra bita og þið viljið hafa kökurnar (mér finnst passlegt  að hafa 12-15 bita) og rúllið hverjum bita í kúlu. Leggið hverja kúlu í möffinsform og þrýstið aðeins á þær. Gerið holu í miðjuna og fyllið hana með hindberjasultu. Bakið í ca 10 mínútur.