Það er búið að vera nóg að gera á heimilinu í kvöld og enginn tími verið til að sinna blogginu. Ég má þó til með að líta stutt inn og deila með ykkur uppskrift að kvöldmatnum hjá okkur.
Það er langt síðan ég sá þessa uppskrift en hún hefur ekki ratað inn á matseðilinn fyrr en núna. Hún verður þó án efa elduð oftar því þessi ofnbakaða eggjakaka sló í gegn og kláraðist upp til agna. Hún er einföld og fljótleg og hentar því vel í dagsins amstri.
Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki (uppskrift frá Tasteline).
Fyllingin
- 400 gr nautahakk
- 2 hvítlauksrif
- 1 laukur
- 3 msk vatn
- 1,5 msk tómatpuré
- timjan
- chili explosion krydd frá Santa Maria
Botninn
- 4 egg
- 1 dl rjómi
- 2 msk smjör
- 1 tsk oregano
Ofanlag
- 3 dl rifinn ostur
- 1,5 dl rjómi
- 3/4 dl sýrður rjómi
- kokteiltómatar
Hitið ofninn í 200°. Skerið lauk og hvítlauk smátt niður. Steikið nautahakkið ásamt laukunum þar til nautahakkið er full steikt. Saltið og piprið. Bætið vatni á pönnuna ásamt tómatpuré og hökkuðu fersku timjan (eða þurrkuðu ef þið eigið ekki ferskt) og látið sjóða við vægan hita þar til vökvinn hefur að mestu gufað upp.
Hrærið eggin með rjóma og oregano og hellið blöndunni í smurt eldfast mót. Bakið í ofni í ca 8-10 mínútur. Takið úr ofninum og leggið hakkfyllinguna yfir.
Hrærið saman rifnum osti, rjóma og sýrðum rjóma og hellið yfir nautahakkið. Dreifið sneiddum kokteiltómötum yfir. Setjið aftur í ofninn og bakið í ca 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit.
Berið fram heitt með góðu salati (og tómatsósu að mati strákanna).
Eldaði þessa í kvöld handa Rósu og Emil og náttúrlega Gunnlaugi. Gerði mikla lukku. Takk fyrir Svava mín.
Kveðja, Malín
Þessi er algjör snilld!! Svo góður, prófuðum hann í fyrsta skipti í kvöld og við familían munum sko hafa hann oftar! 🙂
Eldaði þessa uppskrift í vikunni, hún var æði! Kom virkilega á óvart! 🙂