Tacobaka

Þessi vika hefur verið fullbókuð og mikið púsl að láta allt ganga upp. Það hefur gefist lítill tími í eldhúsinu og ég er búin að vera með hvern hraðréttinn á fætur öðrum alla vikuna. Ég er því búin að hlakka mikið til þess að eiga rólegt föstudagskvöld með fjölskyldunni og góðum mat.

Þessi tacobaka hefur verið reglulega á borðum hjá okkur í gegnum tíðina. Ég hef gert hana bæði fyrir matarboð og saumaklúbba og hef gefið mörgum uppskriftina að henni. Okkur þykir hún mjög góð og passa vel á föstudagskvöldum.

Mér þykir gott að bera bökuna fram með salati, nachos, salsa, sýrðum rjóma og guacamole eða avókadóhræru. Avókadóhræran er einföld og fljótleg og verður því oftar en ekki fyrir valinu. Ég einfaldlega stappa avókadó og blanda saman við pressað hvítlauksrif, sítrónusafa, cayanne pipar og smá sýrðum rjóma.

Botn

 • 4 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 50 gr smjör
 • 1 1/2 dl mjólk

Fylling

 • 500 gr nautahakk
 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 3 msk tómatpuré
 • 2 msk chillisósa
 • 1 msk sojasósa
 • 2 tsk chilipipar (krydd)
 • 2 tsk cummin
 • 2 tsk kóriander (krydd)
 • 2 tsk karrý
 • 1-2 tsk salt
 • 2 dl vatn

Ofanlag

 • 3 tómatar
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 4 msk majónes
 • 150 gr rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti í skál. Látið smjörið ná stofuhita, skerið það í bita og blandið því við þurrefnin. Bætið mjólkinni saman við og hrærið öllu saman í deig. Þrýstið deiginu í bökuform eða smelluform. Það þarf ekki að forbaka botninn.

Hakkið lauk og steikið ásamt nautahakki og fínt hökkuðum hvítlauk. Steikið þar til nautahakkið er ekki lengur rautt. Bætið tómatpuré, chilisósu og sojasósu á pönnuna ásamt kryddunum og vatni. Látið sjóða við vægan hita þar til vatnið er næstum horfið, ca 10-15 mínútur. Smakkið til og kryddið meira ef þarf. Setjið nautahakkið yfir botninn.

Skerið tómatana í bita og dreifið yfir nautahakkið.

Hrærið saman sýrðum rjóma, majónesi og rifnum osti og breiðið yfir tómatana.

Bakið í miðjum ofni í ca 15 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn og fengið fallegan lit.

Berið fram með góðu salati, nachos, sýrðum rjóma, salsa eða guacamole.

 

 

 

19 athugasemdir á “Tacobaka

 1. Sæl Svava, hef verið að fylgjast með heimasíðunni hjá þér í nokkurn tíma og margir girnilegir réttir sem ég á eftir að prófa. Ein samstarfskona þín var að koma í mat til mín og fannst því upplagt að bjóða henni upp á rétt frá þér 🙂 Tacobakan klikkað svo sannarlega ekki! Setti reyndar kotasælu í staðin fyrir majones sem virkaði alveg held ég. Enn og aftur frábært að fylgjast með hvað þú töfrar fram!!

 2. Hæhæ!
  Frábær síða hjá þér 🙂
  Ég má til með að spurja þig .. hver er munurinn á deiginu í Tacobökunni og Kjúklingabökunni?

  1. Mér þykir munurinn helst vera að í tacobökunni er botninn mýkri. Í kjúklingabökunni er botninn forbakaður og verður stökkari. Ég mæli með að þú prófir þær báðar – þær eru æðislega góðar 🙂
   Bestu kveðjur,
   Svava.

 3. Sæl Svava.
  Ég prófaði þessa í kvöld og hún vakti þvílíka lukku.
  Ég er búin að prófa fleira hér af síðunni þinni sem hefur allt verið gott.
  Takk fyrir að deila með okkur öllum þessum frábæru uppskriftum 🙂

 4. Þessi var sjúklega góð og miklu betri en ég þorði að vona. Ég reyndar átti ekki hakk eins og ég hélt þegar ég ákvað að elda þetta, en notaði kjúkling í staðinn og skar hann rosalega fínt þannig að hann var nánast eins og hakk. Það var rosalega gott! En ég á eftir að gera þetta aftur, með hakki, hehe 😉

  Takk fyrir frábæra síðu, þú hefur alveg bjargað matarplanshugmyndum á þessu heimili 😉

 5. ég prufaði þessa um daginn og hlakkaði mikið til að borða afganginn daginn eftir , en maðurinn tók hann með sér í vinnuna . Hann gaf fleirum að smakka með sér sem báðu hann um uppskriftina 🙂 . Frábær síða hjá þér . Er á fullu að prufa fleiri uppskriftir. Takk fyrir okkur.

 6. Sæl Svava. Ég bakaði þessa í gær og bauð nokkrum vinum í mat. Þeir voru mjög hrifnir af þessari uppskrift en hvenig „deili“ ég þessu ? ég ætlaði að sýna vinum mínum á Facebook þetta en kann ekkert á þetta. Bíð eftir svari.

  1. Gaman að heyra að bakan hafi vakið lukku 🙂 Til að deila færslunni þá smellir þú á Facebook merkið sem er fyrir neðan færsluna.

   Sent from my iPhone

   >

 7. Sæl Svava og takk fyrir uppáhalssíðuna mína 😉 Ég var að velta fyrir mér hvernig cilli sósu þú notaðir í þennan rétt?
  Bkv. Hafdís

 8. Ég get ekki talið það hvað ég hef eldað þessa oft og kærastinn fær ekki nóg af henni. Takk fyriir frábæra síðu 🙂

 9. Þetta var alveg æðislega gott og ég hlakka til að prófa fleiri uppskriftir af síðunni þinni. Þetta sló meira að segja í gegn hjá 3 ára syni mínum sem er ekkert voðalega duglegur að borða. 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s