Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Í dag var fyrsti vinnudagurinn minn eftir sumarfrí og lífið því dottið aftur í sína eðlilegu rútínu. Eins og mér þykir æðislegt að vera í fríi þá finnst mér alltaf jafn gaman þegar allt hefst að nýju eftir sumarið. Hversdagsrútínan er notaleg!

Mér þykir svona heimilismatur alveg hreint dásamlega góður og sérstaklega núna þegar það eru nýjar kartöflur í búðunum. Við létum okkur nægja að bera hann bara fram með nýjum kartöflum og sultu en bæði hrásalat og ferskt salat fer auðvitað stórvel með.

Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu (uppskrift fyrir 4)

 • 600 g nautahakk
 • 1/2 dl brauðrasp
 • 1/2 dl rjómi
 • 1 dl mjólk
 • 1 egg
 • 1 laukur
 • 2 tsk salt
 • svartur pipar
 • 1 tsk sykur

Blandið rjóma, mjólk og brauðraspi saman í skál og látið standa í 5 mínútur. Setjið hakkaðan lauk, egg, salt, sykur og pipar saman við og notið töfrastaf til að blanda öllu saman. Setjið að lokum nautahakkið saman við og blandið öllu vel saman. Mótið buff og steikið upp úr vel af smjöri.

Karamelluseraður laukur

 • 3 gulir laukar
 • salt
 • sykur
 • pipar
 • smjör

Skerið laukinn þunnt niður. Bræðið smjör á pönnu og setjið laukinn á. Steikið við miðlungshita (passið að hafa hitann ekki of háann), laukurinn á að mýkjast og fá smá lit. Hrærið annað slagið í lauknum. Setjið salt, sykur og pipar eftir smek undir lokin og látið laukinn karamelluserast.

Rjómasósa

 • steikingakraftur frá hakkabuffinu
 • 2 dl rjómi
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 1-2 grænmetisteningar
 • salt og pipar
 • sojasósa
 • maizena til að þykkja.

Blandið öllu saman í pott og látið sjóða saman. Smakkið til! Endið á að þykkja með maizena eftir smekk.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Tortillakaka

Sumarið virðist ekki að dekra við okkur með veðurblíðu í ár og ég verð að viðurkenna að mér þykir ágætt að vera ekki komin í sumarfrí. Þessa dagana snýst lífið aðallega um að vinna, skulta og sækja á æfingar og horfa á The Good Wife á Netflix á kvöldin (ef einhver hefur ekki séð þættina þá mæli ég hiklaust með þeim – svo góðir!). Síðan borðum við gott á hverju kvöldi, eins og þessa tortilluköku sem var stórkostlega góð. Ég bar hana fram með guacamole, sýrðum rjóma, ostasósu, salsa, nachos og salati. Þvílík veisla!

Tortillakaka (uppskrift fyrir 4-6)

 • 1 pakkning með 8 tortillum (medium stærð)
 • 500 g nautahakk
 • 1 poki tacokrydd
 • 100 g rjómaostur (mér finnst gott að nota philadelphia rjómaostinn)
 • 1 dl rjómi
 • 150 g maísbaunir
 • 1/2 krukka chunky salsa
 • salt og pipar
 • um 300 g rifinn ostur

Steikið nautahakkið og kryddið með tacokryddinu. Hrærið rjómaosti, rjóma, salsa og maísbaunum saman við og smakkið til með salti og pipar.

Smyrjið smelluform (hægt að sleppa því og raða tortillakökunum beint á ofnplötu) og setjið tvær tortillakökur í botninn á forminu. Setjið 1/3 af fyllingunni yfir og smá rifinn ost. Setjið tvær tortillur yfir og endurtakið (þannig að það verði 3 lög af fyllingu). Endið með tortillaköku efst og stráið restinni af ostinum yfir. Setjið í 200° heitann ofn í 20-25 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Quesadillas með nautahakksfyllingu

Það er æðisleg veðurspá fyrir helgina og eflaust margir sem ætla nýta veðurblíðuna til að grillla. Ég dró strákana með mér í hot yoga tíma áðan og þegar við komum heim var Hannes búinn að grilla steikur fyrir okkur. Lúxus! Það leynast margar góðar grilluppskriftir hér á síðunni og ef einhverjum vantar hugmyndir fyrir helgina þá langar mig að með að mæla með þremur uppskriftum sem eru í sérlegu uppáhaldi hjá mér:

Dásamlegur bbq-kjúklingur þar sem öllu er skellt saman í álpappír og grillað. Það gerist ekki einfaldara!

Humarpizza sem er svo góð að það nær engri átt.

Grilluð tandoori lambalund með salati, nanbrauði og raita. Slær alltaf í gegn!

Og fyrir þá sem ætla sér ekki að grilla kemur hér súpergóð hugmynd að kvöldverði, quesadillas með nautahakksfyllingu. Svo brjálæðislega gott!! Hér var barist um sneiðarnar og ég mun klárlega gera tvöfalda uppskrift næst. Ég veit að uppskriftin virðist löng og með mörgum hráefnum en flest hráefnanna leynast örugglega í eldhússkápnum. Síðan er líka lítið mál að breyta uppskriftinni eftir því sem til er í skápunum.

Quesadillas með nautahakksfyllingu

Nautahakksfyllingin:

 • 1 bakki nautahakk
 • svartur pipar
 • paprikukrydd
 • oregano
 • cumin
 • 1/2 dl vatn
 • 1 msk soja sósa
 • 1 msk sweet chili
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 msk tómatpuré

Steikið nautahakkið og kryddið eftir smekk (smakkið til!). Bætið vatni saman við og látið sjóða saman við vægan hita í 5 mínútur. Bætið þá sojasósu, sweet chili, hvítlauksrifi og tómatpuré saman við, blandið vel og látið allt sjóða saman í 2-3 mínútur.

Sósan:

 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • 1 tsk oregano
 • svartur pipar
 • cayenne pipar
 • salt

Blandið öllu í pott og látið sjóða saman.

Guacamole

 • 1 avokadó
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 1 hvítlauksrif, pressað
 • fínrifið hýði af 1 sítrónu
 • cayenne pipar
 • salt

Stappið avókadóið og hrærið saman við hin hráefnin.

Til að setja saman:

 • tortillur
 • jalapeno
 • maísbaunir
 • rifinn ostur

Setjið nautahakk, maísbaunir, sósu, rifinn ost og jalapeno á hverja tortillu. Brjótið tortilluna saman í hálfmána ost steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Skerið í sneiðar og berið strax fram með salati og guacamole.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Nautahakkshamborgarar

Í kvöld fer lítið fyrir eldamennskunni hjá mér því ég er að fara í saumaklúbb. Áður en ég fer ætla ég þó að hendast í Hagkaup í Smáralindinni því ég sá að það er 20% afsláttur af snyrtivöru þar í kvöld út af konukvöldi. Tímasetningin gæti ekki verið heppilegri því ilmvatnið mitt er að klárast og augnblýanturinn er á síðustu metrunum. Síðan má alltaf á sig glossum bæta, sérstaklega þegar það er afsláttur. Áður en ég hleyp út má ég þó til með að setja inn uppskrift af nautahakkshamborgurum sem mér þykja passa svo vel á helgarmatseðilinn. Ég sá þá fyrir löngu á Pinterest og lét loksins verða af því að elda þá um daginn. Einfaldir og súpergóðir!

Nautahakkshamborgarar – lítillega breytt uppskrift frá Kevin & Amanda

 • 450 g nautahakk
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk pepper
 • 1 tsk kúmin (ath. ekki kúmen)
 • 1 tsk sinnepsduft
 • 1/2 tsk reykt paprika
 • 2 bollar hakkaður laukur (ca 1 stór eða 2 litlir laukar)
 • 3-4 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 2 dl hakkaðir tómatar í dós með chili (ég var með frá Hunts)
 • 1 tsk sykur
 • 1 nautateningur
 • ostur (ég var með cheddar ost)
 • 6 hamborgarabrauð

Gljái

 • 1/2 bolli (8 msk) smjör
 • 2 msk púðursykur
 • 1 msk Worcestershire sósa
 • 1 msk sinnep
 • 1 msk sesamfræ

Hitið ofninn í 175° og smyrjið eldfast mót sem rúmar 6 hamborgarabrauð.

Hitið pönnu vel og setjið hakkið á pönnuna. Látið það brúnast vel og kryddið með salti, pipar, kúmin, sinnepsdufti og reyktri papriku. Bætið lauk og hvítlauk á pönnuna og steikið áfram þar til laukurinn er mjúkur. Hrærið hökkuðu tómötunum saman við og látið sjóða saman í smá stund.

Setjið neðri helmingana af hamborgarabrauðunum í eldfasta mótið. Setjið nautahakkið yfir og ost í sneiðum (gott að setja vel af honum). Setjið lokin af hamborgarabrauðunum yfir.

Setjið öll hráefnin í gljáann í pott og hitið þar til allt hefur blandast vel saman. Hellið yfir hamborgarana og setjið í ofninn í um 25 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Sloppy Joe Mac n Cheese

Sloppy Joe Mac n Cheese
Mig grunar að margir séu að taka matarræðið í gegn núna í upphafi árs, eftir að hafa lifað lífinu í desember. Sjálf sit ég hér með nýbakaða skúffuköku á meðan ég fer í gegnum uppskriftir og dáist að öllum þeim sem hamast í ræktinni þessa dagana. Ég á aldrei ræktarkort þar sem útivist hentar mér betur. Að fara í göngutúra, fjallgöngur eða á skíði yfir vetrartímann þykir mér bæði endurnærandi og skemmtilegt. Hver og einn verður að finna sitt, ekki satt?
 Sloppy Joe Mac n Cheese
Ég gerði svo góðan hversdagsrétt eitt kvöldið fyrir jól og þar sem ég veit að margir mikla fyrir sér bollamálin þá passaði ég upp á að mæla allt í desilítum. Nú er ég hins vegar búin að snúa öllu við og finn ekki blaðið sem ég skrifaði desilítramálin á. Það hefur örugglega endað í ruslinu fyrir mistök. Rétturinn var þó svo góður (krakkarnir hrósuðu honum í bak og fyrir!) að ég ætla að setja uppskriftina inn þrátt fyrir bollamálin. Uppskriftin er lítil en lítið mál að tvöfalda hana.
 Sloppy Joe Mac n Cheese
Sloppy Joe Mac n Cheese (uppskrift fyrir 2-3) – uppskrift frá Taste and tell
Sósan:
 • ¾ bolli tómatsósa í dós
 • 2 msk púðursykur
 • 1 msk tómatpúrra
 • 2 tsk Worcestershire sósa
 • ½ tsk salt
 • ¼ tsk mulinn svartur pipar

Hrærið öllu saman og leggið til hliðar.

 • 2 bollar ósoðið pasta
 • 1 msk olía
 • ¾ bolli hakkaður laukur
 • 1 græn paprika, skorin smátt
 • 2 hvítlauksrif, pressuð eða fínhökkuð
 • 225 g nautahakk
 • 1 bolli rifinn cheddar ostur

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Hitið olíu á pönnu við miðlungsháan hita og steikið lauk, papriku og hvítlauk þar til mjúkt. Bætið nautahakki á pönnuna og steikið þar til fulleldað. Bætið þá sósunni á pönnuna ásamt soðnu pastanu og setjið rifinn ostinn yfir. Lækkið hitann undir pönnunni og blandið varlega saman þar til osturinn hefur bráðnað og allt hefur blandast vel.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Nachos og listi yfir jólabíómyndir

Nachos og listi yfir jólabíómyndir

Það hefur myndast sú hefð hér heima að horfa saman á jólamyndir á aðventunni. Þetta eru notalegar stundir sem okkur þykir öllum vænt um og eru orðnar stór þáttur í jólaundirbúningnum. Undanfarin ár hef ég safnað saman lista yfir jólamyndir og mér datt í hug að setja hann hingað inn ef fleiri geta notið góðs af. Sumar þeirra horfum við á ár eftir ár, á meðan aðrar hanga óséðar á listanum. Þegar kemur að jólabíómundum vilja margir meina að Die Hard 1 sé besta jólamynd allra tíma en ég á erfitt með að taka undir það. Sjálf vel ég The Holiday, Love Actually eða Bridget Jones alla daga fram yfir Die Hard. Hvað krakkana varðar þá held ég að National Lampoon´s christmas vacation, Christmas with the Kranks og Home alone séu í uppáhaldi. Hér kemur listinn og hver mynd er með link á IMDb svo hægt sé að kynna sér þær betur:

Nú þegar líður að annarri aðventuhelginni eru eflaust einhverjir farnir að huga að helgarmatnum. Jakob gerði matarmikið nachos um daginn með nautahakki, ostasósu, salsa og guacamole sem var svo æðislega gott að ég má til með að benda á uppskriftina. Ég kaupi ferskt guacamole í Hagkaup og hef staðið í þeirri trú að það fáist bara á föstudögum en mér til mikillar gleði sá ég það í Hagkaup í Smáralind í gær. Það er því vonandi farið að fást daglega. Við borðuðum nachosið yfir sjónvarpinu og mér finnst alveg upplagt að bjóða upp á það yfir jólamynd annað kvöld. Mín besta tillaga er að hendast í sturtu strax eftir vinnu, fara í náttfötin og koma sér síðan vel fyrir í sjónvarpssófanum yfir jólamynd og með nachos í kvöldmat. Í eftirrétt er hægt að hafa nammi. Notalegheit í hæstu hæðum!

Nachos og listi yfir jólabíómyndir

Nachos

1 pakki nautahakk
1 poki Santa Maria taco krydd
1 poki Tostitos (við vorum með eitthvað annað merki)
1 stk Tostitos ostasósa
1 krukka Santa Maria jalepeno (hægt að sleppa)
1 pk pizzaostur
1 stk sýrður rjómi 18%
1 stk Tostitos salsa
Guacamole

Steikið nautahakkið á pönnu og kryddið með Taco kryddinu. Raðið Tostitos flögum í eldfast mót og setjið nautahakk, jalapeno og ostasósu vítt og dreift á flögurnar. Gott er að láta enda á flögunum standa uppúr, þannig að auðvelt er að grípa í eftir eldun. Toppið nachosið með pizzaostinum og setjið í ofn í 8-10 mín á 180° eða þangað til osturinn bráðnar. Sýrði rjóminn, Tostitos salsa og Guacamole er sett á réttinn eftir eldun.
Nachos og listi yfir jólabíómyndirNachos og listi yfir jólabíómyndirNachos og listi yfir jólabíómyndirNachos og listi yfir jólabíómyndir
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP

Sænskur heimilismatur eins og hann gerist bestur!

Kálbúðingur

Svakalega hefur kólnað hratt undanfarna daga. Ég sest ekki orðið upp í bílinn án þess að setja hitann á sætinu í botn og þegar ég fór í stutta göngu í gærkvöldi hélt ég að nefið myndi detta af mér. Það er á svona köldum dögum sem mér þykir góður heimilismatur sérlega lokkandi og þegar ég eldaði þennan dásamlega heimilismat um daginn fannst mér lífið svo ljúft, þrátt fyrir kuldann og skammdegið.

Kálbúðingur

Uppskriftin fylgir mér frá Svíþjóðarárunum og er alveg hreint æðislega góð. Þennan rétt þekkja allir sem hafa dvalið í Svíþjóð þar sem hann er vinsæll hversdagsmatur. Rétturinn er svo einfaldur og góður að mér finnst að allir ættu að prófa hann. Ég ber réttinn fram með bestu rjómasósunni (ekki sleppa henni, hún passar svo vel með), kartöflum, sultu og hrásalti fyrir þá sem það vilja. Haustleg og dásamlega góð máltíð!

Kálbúðingur

 • 1 lítill hvítkálshaus (um 1 kg)
 • smjör til að steikja í
 • 1-2 dl vatn
 • 2 msk síróp
 • salt
 • 400 g nautahakk
 • 1 egg
 • ca 1 tsk Kød & Grill krydd (eða annað krydd)
 • 1 dl vatn
 • salt og pipar

Skerið hvítkálið í litla bita og steikið þá í smjöri. Setjið smá vatn annað slagið á pönnuna svo hvítkálið brenni ekki. Saltið og piprið. Þegar hvítkálið er orðið mjúkt þá er sírópi helt yfir og látið steikjast í nokkrar mínútur til viðbótar.

Blandið nautahakki saman við egg, vatn og krydd.

Setjið helming af hvítkálinu í botn á eldföstu móti. Setjið hakkblönduna yfir og sléttið yfirborðið. Setjið seinni helminginn af hvítkálinu yfir. Bakið við 175° í um 45 mínútur. Ef hvítkálið gerir sig líklegt til að brenna þá er álpappír settur yfir.

Rjómasósa

 • 3 dl rjómi
 • 1,5 dl sýrður rjómi
 • 1 kjúklingakraftsteningur
 • 1 msk sojasósa
 • 1 msk rifsberjahlaup
 • 1 msk hveiti, hrært saman við smá vatn (eða sósuþykkir)
 • salt og pipar

Blandið öllu saman í pott og látið suðuna koma upp. Látið sjóða við vægan hita í 5 mínútur og smakkið til.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

 

Himneskar kjötbollur og uppáhalds tækin í eldhúsinu mínu

Himneskar kjötbollur

Síðan ég byrjaði að blogga fyrir rúmum 4 árum hef ég fengið ótal margar fyrirspurnir um Kitchenaid tækin mín. Fyrir helgina bætti ég langþráðu tæki í safnið og ákvað í kjölfarið að það væri kannski snjallt að bjóða ykkur í smá ferð um eldhúsið mitt og sýna ykkur eldhústækin sem ég hreint út sagt gæti ekki verið án.

Himneskar kjötbollur

Fyrst ber að nefna Kitchenaid hrærivélina mína, enda er hún búin að vera í STÖÐUGRI notkun síðan ég eignaðist hana sumarið 2002. Ég nota hana oft í viku og hún hefur aldrei nokkurn tímann klikkað eða þurft neitt einasta viðhald. Ég gæti ekki án hennar verið! Ég nota hana bæði í bakstur og í matargerð. Kökur, pizzadeig, brauð, rjómi, kartöflumús, hakkblöndur… allt fer í vélina. Hún er einföld í notkun og falleg á borði. Ég elska hana.

Himneskar kjötbollur

Blandarann eignaðist ég á sama tíma og hrærivélina, þ.e. fyrir rúmum 14 árum. Þessi græja hefur líkt og hrærivélin verið notuð óspart og hefur staðið sig eins og hetja. Hún á ekki í neinum vandræðum með að mylja klaka og frosna ávextir og ég hef gert óteljandi boozt (þessi er í uppáhaldi) og drykki (þessi er alltaf vinsæll) í blandaranum. Ég hef ekki farið mjúkum höndum um hann og hef tvisvar þurft að fara með blandarann í Einar Farestveit eftir að hafa brotið könnuna og eytt upp tökkum undir honum. Í bæði skiptin fékk ég frábæra þjónustu, varahlutirnir voru til á lager og kostuðu lítið. Sú verslun fær mín bestu meðmæli! Ég hef keypt allar Kitchenaid vörurnar mínar þar og hef alltaf fengið persónulega og góða þjónustu. Og hvernig tókst mér að brjóta könnuna? Það duga sko engin vettlingatök til því hún er bæði þykk og vegleg. Það getur þó gerst á bestu heimilum þegar verið er að setja matskeið af chiafræjum í booztið að matskeiðinni sé í leiðinni hent ofan í blandarann og svo allt keyrt í gang.

Himneskar kjötbollurHimneskar kjötbollur

Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um hvítu græjuna sem sést glitta í á forsíðumyndinni. Þetta er matvinnsluvélin mín. Þegar ég ákvað að kaupa mér matvinnsluvél kom engin önnur til greina en þessi, bæði vegna þess að Kitchenaid vörurnar mínar hafa reynst mér vel og líka vegna þess að mér þykir hún vera nett og falleg á borði. Ég vil hafa fallegt í kringum mig og þau tæki sem mér þykja ekki falleg fá einfaldlega ekki að standa frammi. Ég hef þó lært það af reynslunni að þau tæki sem ég geymi ofan í skúffum eða inni í skápum nota ég sjaldan, því ég nenni ekki að draga þau fram. Fyrir mig eykur það notagildið til muna að hafa tækin á eldhúsborðinu. Það á svo sannarlega við um matvinnsluvélina mína, ég nota hana í allt mögulegt af því það er svo einfalt. Ef það þarf að hakka hnetur, gera sósur eða annað smáræði þá nota ég litlu skálina sem fylgir vélinni. Ég veit ekki hvernig ég fór að áður en ég eignaðist matvinnsluvélina.

Himneskar kjötbollurHimneskar kjötbollur

Nýjasta viðbótin í Kitchenaid safnið mitt er brauðristin. Það sem mig hefur lengi langað í hana! Ég hef allt of oft keypt mér ódýrar brauðristir sem hafa varla dugað út árið. Síðustu tvær hafa dáið með látum og ég held að Malín sé enn að jafna sig eftir sprenginguna sem varð hér um daginn þegar síðasta brauðristin gaf upp öndina. Þá ákvað ég að fjárfesta í góðri brauðrist og það kom engin önnur til greina en þessi. Hún er algjör draumur! Ristar beyglur (það er svo dásamlega notalegt að rista beyglu með morgunkaffinu og smyrja með rjómaosti og sultu), samlokur (þvílíkur munur að geta ristað samlokur í brauðristinni í staðin fyrir að vera með sér samlokugrill sem þarf að taka fram og hita) og svo auðvitað brauðsneiðar. Ef brauðið er ekki tekið úr ristinni þá setur brauðristin hana sjálfkrafa aftur niður og heldur henni heitri. Lúxus! Samlokuklemman er hér á myndinni fyrir neðan, með óristaðri samloku í, og á neðri myndinni er ristuð brauðsneið. Við erum í skýjunum með þessa nýjustu viðbót í eldhúsið, svo ég tali nú ekki um hvað hún er falleg á borði.

Himneskar kjötbollurHimneskar kjötbollur

Ég hef engan áhuga á að fylla eldhúsið mitt af tækjum og tólum, heldur vel frekar færri og vönduð tæki sem ég veit að nýtast vel. Það er lítið spennandi að vera með troðfulla skápa og skúffur af hlutum sem nýtast illa. Ég mæli með að vanda valið þegar verið er að fjárfesta í eldhústækjum, það marg borgar sig til lengri tíma. Síðan er óneitanlega skemmtilegra að stússast í eldhúsinu með góð verkfæri.

Himneskar kjötbollurHimneskar kjötbollur

En að uppskriftinni sem sló svo rækilega í gegn hér heima um daginn, heimalagaðar kjötbollur í möffinsformi. Það er allt gott við þessa uppskrift! Kjötbollurnar eru himneskar á bragðið og súpereinfaldar í gerð. Öllum hráefnunum er einfaldlega húrrað saman og sett í möffinsform. Með kjötbollunum bar ég fram kartöflumús, rifsberjahlaup og sósu sem er út úr þessum heimi góð, uppskriftin af henni er hér. Þetta verðið þið að prófa!!

Kjötbollur í möffinsformi (uppskriftin gefur um 10 bollur)

 • um 500 g nautahakk (1 bakki)
 • ½ dl haframjöl
 • ½ dl parmesan ostur (vel þjappað)
 • 1 egg
 • ½ dl tómatsósa
 • ½ tsk hvítlaukskrydd
 • salt og pipar
 • 1 tsk Worcestershire sósa
 • 1 ½ – 2 dl af því grænmeti sem til er (t.d. paprika, rauðlaukur og sveppir, eða brokkólí og rifnar gulrætur…. allt gengur!)

Hitið ofninn í 180°. Blandið öllum hráefnunum saman í skál (ég nota k-ið á hrærivélinni, en það er líka hægt að nota bara hendurnar eða sleif). Þjappið blöndunni í möffinsform (ég spreyja það áður með PAM). Setjið smá tómatsósu yfir og bakið í 30-35 mínútur.

Himneskar kjötbollur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Súpergott tacogratín!

Súpergott tacogratín!

Það má eflaust halda að það að vera matarbloggari sé nokkuð hættulaust starf. Ég get þó upplýst ykkur um að ég lagði líf mitt í hættu við að mynda þennan rétt. Á meðan krakkarnir biðu full tilhlökkunar að smakka á þessari nýju útfærslu af tacogratíni (sem er með því besta sem við vitum!) var ég, eins og svo oft áður, að álpast við að taka mynd af réttinum fyrir bloggið. Eitthvað hallaði ég stólnum sem ég sat á aftur til að ná betri mynd sem fór nú ekki betur en svo að ég missti jafnvægið, með þeim afleiðingum að ég flaug á hausinn og fékk í leiðinni þrjá stóla yfir mig. Svipurinn á Malínu var óborganlegur, hún var að springa úr hlátri en þorði ekki fyrir sitt litla líf að láta það eftir sér að hlægja ef ske kynni að ég væri slösuð, sem ég var ekki. Ég fékk þó myndarlegan marblett sem gaf okkur regluleg hlátursköst í heila viku.

Súpergott tacogratín!

Rétturinn var alveg hreint dásamlega góður og krakkarnir elskuðu hann! Ég bauð upp á hann yfir Eurovision (sem við gátum varla horft á vegna þess að við vorum enn í hláturskasti yfir fallinu mínu) en mér þykir hann passa svo vel á föstudagskvöldum þegar öllum langar í eitthvað gott og ég vil eyða sem styðstum tíma í eldhúsinu. Ég keypti ferskt guacamole í Hagkaup (það fæst bara um helgar) sem ég bar fram með réttinum ásamt heitri ostasósu (keypti í glerkrukku) og nachos, en ferskt salat passar líka vel með. Ef það eru fullorðnir í mat er ekki úr vegi að bjóða upp á kaldan bjór með, eins og t.d. Corona með límónusneið í.

Súpergott tacogratín!

Að lokum fær myndin sem varð mér nánast að bana (engin dramatík) að fylgja með. Fókusinn hefur greinilega farið í vitleysu við fallið og lent á kertastjakanum í staðin fyrir matnum, sem er sko í fínu lagi mín vegna því mér þykir hann svo fallegur. Vänskapsknuten frá Svenskt tenn, sem hefur staðið á óskalistanum leeeengi og var keyptur í síðustu Stokkhólmsferð. Maður getur víst alltaf á sig kertastjökum bætt!

Súpergott tacogratín!

Tacogratín

 • 1 laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 500 g nautahakk
 • 1 bréf tacokrydd (28 g)
 • 1 dl vatn
 • 1 krukka tacosósa (230 g)
 • 1 lítil dós maís (280 g)
 • 2-3  tómatar
 • 2 hnefafylli tortillaflögur
 • 1 askja texmex smurostur (250 g)
 • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
 • 2 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 225°.

Hitið pönnu og bræðið smá smjör á henni. Hakið laukinn og rífið hvítlauksrifið og steikið upp úr smjörinu þar til mjúkt og bætið þá nautahakkinu á pönnuna og steikið þar til fulleldað. Bætið tacokryddi, vatni og tacosósu á pönnuna og hrærið saman við nautahakkið. Bætið maísbaunum á pönnuna og látið allt sjóða saman við vægan hita í 5 mínútur.

Setjið nautahakksblönduna í eldfast form. Myljið tortillaflögurnar örlítið og hrærið þeim saman við nautahakksblönduna. Hrærið saman texmex smurosti og sýrðum rjóma og setjið yfi rnautahakkið. Skerið tómatana í bita og setjið yfir sýrðu rjómablönduna. Setjið að lokum rifinn ost yfir og stingið nokkrum nachosflögum ofan í. Setjið í ofninn í 15 mínútur. Berið fram með salati, guacamole, ostasósu og auka nachosflögum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Nachos í kvöldmat!

Nachos í kvöldmat!

Á laugardaginn fórum við strákarnir og mamma í Smáralindina. Þar röltum við um, versluðum aðeins og enduðum ferðina á að fara í Smárabíó að sjá sænsku myndina Maður sem heitir Ove. Við mamma vorum báðar búnar að lesa bókina og vorum sammála um að myndin stóð undir væntingum, hún er yndisleg! Eftir að hafa borðað popp, gos og nammi í bíóinu var lítill áhugi á að borða kvöldmat og því var ákveðið að hafa bara snarl þegar leið á kvöldið. Snarlið endaði sem risa nachosfat sem við borðuðum yfir sjónvarpinu. Súpergott!

Nachos í kvöldmat!

Súper nachos

 • 500 g nautahakk
 • 1/2 laukur, hakkaður
 • 1/2 tsk chilikrydd
 • 1 tsk paprikukrydd
 • 1/2 tsk kúmín (ath. ekki kúmen)
 • 1/2 tsk rauðar piparflögur
 • salt og pipar
 • 1 dós pinto baunir
 • 1,5 dl vatn
 • Nachos flögur
 • 7 -8 dl rifinn ostur, t.d. blanda af cheddar og mozzarella
 • avocado
 • sýrður rjómi
 • ostasósa

Mýkið laukinn í olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita. Bætið nautahakkinu við og steikið þar til fulleldað. Kryddið og bætið baunum og vatni á pönnuna. Smakkið til, það gæti þurft að krydda betur. Látið malla við vægan hita á meðan hin hráefnin eru undirbúin.

Salsa sósa:

 • 5-6 plómutómata (eða aðra góða tómata), skornir í teninga
 • 1/2 laukur
 • 1 jalapeno, fínhakkað
 • 1/2 askja kóriander, saxað
 • safi af 1 lime
 • 1/2 tsk salt

Blandið öllu saman.

Sett saman:

Setjið nachosflögur í botninn á eldföstu móti. Setjið smá ostasósu yfir, síðan eitt lag af nautahakksblöndu og að lokum rifinn ost. Setjið annað lag af nachosflögum yfir, smá ostasósu, síðan nautahakksblöndu og ost. Endurtakið þannig að alls séu þrjú lög. Setjið í 180° heitan ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Setjið salsasósuna yfir ásamt avocadó, sýrðum rjóma og ostasósunni (gott að hita hana aðeins í örbylgjuofni áður).

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP