Ég fór í smá göngu með vinkonum mínum í veðurblíðunni í gærkvöldi. Ég setti inn myndir á Instagram stories og fékk í kjölfarið þónokkrar fyrirspurnir um hvar við vorum. Fyrir áhugasama þá gengum við frá Vífilsstaðavatni upp að Gunnhildi og yfir í Heiðmörk. Mjög falleg og skemmtileg leið sem óhætt er að mæla með. Við byrjuðum þó ferðina á að leggja bíl með veitingum í Heiðmörk og keyrðum síðan yfir að Vífilsstaðarvatni með hina bílana. Þegar við komum í Heiðmörk beið okkar því æðislegt pastasalat með dressingu og litlar prinsessutertur úr Ikea, sem Sigrún vinkona mín var búin að græja. Við fengum meira að segja kvöldsól yfir matnum! Frábært kvöld í alla staði.
Áður en ég lagði af stað eldaði ég súpu handa krökkunum en um daginn gerði ég hins vegar kartöflugratín með nautahakki sem okkur þótti mjög gott. Uppskriftina fann ég á Hemmets Journal og þurfti að hafa heilmikið fyrir að finna hana aftur. Frábær hversdagsmatur en mig grunar að falli í kramið hjá öllum aldurshópum.
Kartöflugratín með nautahakki
- 500 g nautahakk
- 1 msk smjör
- 1 laukur
- 1 hvítlauksrif
- 1 msk tómatpuré
- 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
- 1 msk kálfakraftur
- salt og pipar
- oregano, þurrkað
- 10 kartöflur
- 2 dl rjómi
- 2 dl rifinn ostur
❤❤❤