Í næstu viku hefst haustrútínan hér á heimilinu en þá byrja skólarnir og sumarfríi strákanna tekur enda. Ég hef alltaf elskað haustin og finnst svo mikil stemning fylgja því þegar allt hefst á nýjan leik eftir sumarið. Ég finn að okkur er farið að langa í haustlegri mat og nú hef ég gert þessar góðu kjötbollur tvisvar á mjög stuttum tíma.
Það eiga eflaust margir uppskriftina af þessum bollum enda uppskrift sem gekk manna á milli fyrir mörgum árum. Bollurnar voru oft gerðar litlar og hafðar sem pinnamatur en mér þykir gott að gera þær aðeins stærri og bera fram með kartöflumús, sósu og sultu. Ég hrúga bara öllum hráefnunum í hrærivélina og vinn þau snögglega saman. Síðan tek ég ískúluskeið (heitir það ekki annars það?) og þá fæ ég allar kjötbollurnar jafn stórar á stuttum tíma. Í gærkvöldi átti ég bara einn bakka af nautahakki og hálfan pakka af kexinu en setti samt allt bréfið af púrrulaukssúpunni og tvö egg og kjötbollurnar urðu mjög góðar. Þetta virðist bara aldrei klikka!
Kjötbollur með púrrlaukssúpu og rizkexi
- 1 kg nautahakk (eða 500 g nautahakk og 500 g svínahakk)
- 2 egg
- 1 bréf púrrulaukssúpa
- 1 pakki rizkex (fínmulið)
Hrærið allt saman og mótið kjötbollur. Bakið við 180° í 15 mínútur.
Hæ, hvernig gerirðu þessa girnilegu sósu sem er á myndinni?
Kv, Kristín
Þetta er bara sveppasósa frá Knorr sem ég bætti smá grænmetisteningi í en hér er mjög góð sósa með kjötbollum: https://ljufmeti.com/2013/05/23/dasamlega-god-sosa/