Þegar við lentum í Leifsstöð á sunnudagskvöldinu var tekið á móti okkur með blómum sem hafa fegrað heimilið þessa vikuna. Ég bind miklar vonir við að þau standi alla helgina og ætla að leyfa þeim að fegra síðuna í dag.
Á þessum árstíma er ég farin að bíða eftir nýrri kartöfluuppskeru eins og barn bíður eftir jólunum. Mér þykja nýjar kartöflur svo æðislega góðar en að sama skapi lítið varið í kartöflurnar sem eru í búðunum núna. Við vorum reyndar óheppin þegar við versluðum inn á mánudaginn því kartöflurnar í búðinni voru ljótar og nautahakkið búið. Okkur langaði til að hafa kjötbollur í matinn og enduðum á að kaupa frosnar kjötbollur og skársta kartöflupokann sem við fundum. Í kvöld voru herlegheitin dregin fram, kartöflurnar soðnar og frosnu kjötbollunum raðað á ofnplötu. Til að fela hversu óspennandi kartöflurnar voru gerði ég kartöflumús og bjó síðan til sósu sem ég held að geti bjargað hvaða máltíð sem er.
Mér finnst ekki hægt að líkja heimagerðum kjötbollum saman við keyptar. Meira að segja krakkarnir höfðu strax orð á því að kjötbollurnar væru ekki eins góðar og venjulega. Ég hef sett inn uppskriftir af kjötbollum og buffum (t.d. hér, hér og hér) sem ég mæli með að þið prófið. Það er einfalt og alls ekki eins seinlegt og maður skyldi halda.
Þessi sósa er svo æðislega góð að þið verðið að prófa hana. Ég er viss um að ég hafi sett uppskriftina áður hingað inn en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Ég geri hana oft þegar ég er með heilsteiktan kjúkling og hún fer líka stórvel með kjötbollunum. Prófið!
Dásamlega góð sósa
- 1 dós sýrður rjómi (1,5 dl)
- 1 peli rjómi (2,5 dl)
- 1 kjúklingateningur
- 1 msk sojasósa
- 1 msk rifsberjahlaup
- salt og hvítur pipar
- maizena til að þykkja
Blandið öllu í pott og látið sjóða í 5 mínútur. Smakkið til með salti og hvítum pipar og þykkið með maizena.
Þessi sósa er svo sannarlega himnesk! Ég bar hana fram ásamt hakkabuffi af síðunni þinni og blómkálshrísgrjónum, heimilisfólkið dásamaði þetta allt í bak og fyrir og líklega hefur aldrei verið borðað eins mikið af sósu með kvöldmatnum á þessu heimili 🙂 Buffið var svo það besta sem ég hef smakkað og mun klárlega verða reglulega á boðstólnum hér. Blómkálshrísgrjónin eru auðvitað bara algjör snilld og enginn saknaði hefðbundinna hrísgrjóna. Eldri sonurinn var meira að segja viss um að þetta væru ekta hrísgrjón í bland við blómkálið 😉