Síðan ég byrjaði að blogga fyrir rúmum 4 árum hef ég fengið ótal margar fyrirspurnir um Kitchenaid tækin mín. Fyrir helgina bætti ég langþráðu tæki í safnið og ákvað í kjölfarið að það væri kannski snjallt að bjóða ykkur í smá ferð um eldhúsið mitt og sýna ykkur eldhústækin sem ég hreint út sagt gæti ekki verið án.
Fyrst ber að nefna Kitchenaid hrærivélina mína, enda er hún búin að vera í STÖÐUGRI notkun síðan ég eignaðist hana sumarið 2002. Ég nota hana oft í viku og hún hefur aldrei nokkurn tímann klikkað eða þurft neitt einasta viðhald. Ég gæti ekki án hennar verið! Ég nota hana bæði í bakstur og í matargerð. Kökur, pizzadeig, brauð, rjómi, kartöflumús, hakkblöndur… allt fer í vélina. Hún er einföld í notkun og falleg á borði. Ég elska hana.
Blandarann eignaðist ég á sama tíma og hrærivélina, þ.e. fyrir rúmum 14 árum. Þessi græja hefur líkt og hrærivélin verið notuð óspart og hefur staðið sig eins og hetja. Hún á ekki í neinum vandræðum með að mylja klaka og frosna ávextir og ég hef gert óteljandi boozt (þessi er í uppáhaldi) og drykki (þessi er alltaf vinsæll) í blandaranum. Ég hef ekki farið mjúkum höndum um hann og hef tvisvar þurft að fara með blandarann í Einar Farestveit eftir að hafa brotið könnuna og eytt upp tökkum undir honum. Í bæði skiptin fékk ég frábæra þjónustu, varahlutirnir voru til á lager og kostuðu lítið. Sú verslun fær mín bestu meðmæli! Ég hef keypt allar Kitchenaid vörurnar mínar þar og hef alltaf fengið persónulega og góða þjónustu. Og hvernig tókst mér að brjóta könnuna? Það duga sko engin vettlingatök til því hún er bæði þykk og vegleg. Það getur þó gerst á bestu heimilum þegar verið er að setja matskeið af chiafræjum í booztið að matskeiðinni sé í leiðinni hent ofan í blandarann og svo allt keyrt í gang.
Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um hvítu græjuna sem sést glitta í á forsíðumyndinni. Þetta er matvinnsluvélin mín. Þegar ég ákvað að kaupa mér matvinnsluvél kom engin önnur til greina en þessi, bæði vegna þess að Kitchenaid vörurnar mínar hafa reynst mér vel og líka vegna þess að mér þykir hún vera nett og falleg á borði. Ég vil hafa fallegt í kringum mig og þau tæki sem mér þykja ekki falleg fá einfaldlega ekki að standa frammi. Ég hef þó lært það af reynslunni að þau tæki sem ég geymi ofan í skúffum eða inni í skápum nota ég sjaldan, því ég nenni ekki að draga þau fram. Fyrir mig eykur það notagildið til muna að hafa tækin á eldhúsborðinu. Það á svo sannarlega við um matvinnsluvélina mína, ég nota hana í allt mögulegt af því það er svo einfalt. Ef það þarf að hakka hnetur, gera sósur eða annað smáræði þá nota ég litlu skálina sem fylgir vélinni. Ég veit ekki hvernig ég fór að áður en ég eignaðist matvinnsluvélina.
Nýjasta viðbótin í Kitchenaid safnið mitt er brauðristin. Það sem mig hefur lengi langað í hana! Ég hef allt of oft keypt mér ódýrar brauðristir sem hafa varla dugað út árið. Síðustu tvær hafa dáið með látum og ég held að Malín sé enn að jafna sig eftir sprenginguna sem varð hér um daginn þegar síðasta brauðristin gaf upp öndina. Þá ákvað ég að fjárfesta í góðri brauðrist og það kom engin önnur til greina en þessi. Hún er algjör draumur! Ristar beyglur (það er svo dásamlega notalegt að rista beyglu með morgunkaffinu og smyrja með rjómaosti og sultu), samlokur (þvílíkur munur að geta ristað samlokur í brauðristinni í staðin fyrir að vera með sér samlokugrill sem þarf að taka fram og hita) og svo auðvitað brauðsneiðar. Ef brauðið er ekki tekið úr ristinni þá setur brauðristin hana sjálfkrafa aftur niður og heldur henni heitri. Lúxus! Samlokuklemman er hér á myndinni fyrir neðan, með óristaðri samloku í, og á neðri myndinni er ristuð brauðsneið. Við erum í skýjunum með þessa nýjustu viðbót í eldhúsið, svo ég tali nú ekki um hvað hún er falleg á borði.
Ég hef engan áhuga á að fylla eldhúsið mitt af tækjum og tólum, heldur vel frekar færri og vönduð tæki sem ég veit að nýtast vel. Það er lítið spennandi að vera með troðfulla skápa og skúffur af hlutum sem nýtast illa. Ég mæli með að vanda valið þegar verið er að fjárfesta í eldhústækjum, það marg borgar sig til lengri tíma. Síðan er óneitanlega skemmtilegra að stússast í eldhúsinu með góð verkfæri.
En að uppskriftinni sem sló svo rækilega í gegn hér heima um daginn, heimalagaðar kjötbollur í möffinsformi. Það er allt gott við þessa uppskrift! Kjötbollurnar eru himneskar á bragðið og súpereinfaldar í gerð. Öllum hráefnunum er einfaldlega húrrað saman og sett í möffinsform. Með kjötbollunum bar ég fram kartöflumús, rifsberjahlaup og sósu sem er út úr þessum heimi góð, uppskriftin af henni er hér. Þetta verðið þið að prófa!!
Kjötbollur í möffinsformi (uppskriftin gefur um 10 bollur)
- um 500 g nautahakk (1 bakki)
- ½ dl haframjöl
- ½ dl parmesan ostur (vel þjappað)
- 1 egg
- ½ dl tómatsósa
- ½ tsk hvítlaukskrydd
- salt og pipar
- 1 tsk Worcestershire sósa
- 1 ½ – 2 dl af því grænmeti sem til er (t.d. paprika, rauðlaukur og sveppir, eða brokkólí og rifnar gulrætur…. allt gengur!)
Hitið ofninn í 180°. Blandið öllum hráefnunum saman í skál (ég nota k-ið á hrærivélinni, en það er líka hægt að nota bara hendurnar eða sleif). Þjappið blöndunni í möffinsform (ég spreyja það áður með PAM). Setjið smá tómatsósu yfir og bakið í 30-35 mínútur.
Hvernig gerir þú kartöflumúsina? 🙂
Ég sker kartöflurnar í bita áður en ég sýð þær til að stytta suðutímann. Stappa þær síðan með smjöri (bræði það oft áður) og mjólk eða rjóma. Krydda með salti, hvítum pipar og smá sykri 🙂
Sent from my iPhone
>
Takk 😀