Pestójólatré

Á föstudagskvöldinu vorum við með eitt af því besta sem ég veit og minn uppáhalds föstudagsmat, osta og skinkur. Fyrir utan hvað mér þykir það gott þá er ekki hægt að vera með einfaldari mat en að raða góðgæti á bakka og taka tappa úr góðri rauðvínsflösku. Engin eldamennska og nánast ekkert uppvask. Síðan veit ég fátt skemmtilegra en að sitja lengi yfir matnum og það gerist alltaf þegar það er plokkmatur. Þá sitjum við yfir matnum þar til við förum að sofa. Malín gerir oft grín af því að við sitjum hátt í heilan vinnudag yfir ostum og rauðvíni en það er bara svo notalegt og gaman.

Við héldum að við yrðum bara tvö í mat en eftir því sem leið á daginn fjölgaði við matarborðið og á endanum voru allir í mat. Svo gaman! Krakkarnir borða öll osta en kannski ekki sem kvöldmat eins og ég geri. Ég keypti því kokteilpulsur sem ég bætti á borðið, setti jólaplaylista á spotify og gerði pestójólatré upp á stemninguna. Það reyndist vinsælast af öllu!

Pestójólatréið er bæði fallegt á borði og gaman að bera fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu sem verða þá nokkurs konar brauðstangir. Sniðugt að bera fram með ostum eða með fordrykk, þá þarf bara að hafa servéttur með. Einfalt, jólalegt og æðislegt!

Pestójólatré

2 rúllur ferskt smjördeig
1 lítil krukka pestó
1 upphrært egg
maldonsalt

Rúllið annari smjördeigsrúllunni út á ofnplötu. Smyrjið pestó yfir og leggið hina smjördeigsrúlluna yfir. Þrýstið saman þannig að ekkert loft sé á milli. Skerið út jólatré og skerið síðan lengjur upp jólatréið sem er síðan snúið til að mynda greinar. Penslið jólatréið með upphrærðu eggi og stráið maldonsalti yfir. Bakið við 200° á blæstri í um 10-12 mínútur eða þar til jólatréið er orðið loftkennt og hefur fengið fallegan lit. Berið strax fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu og borða eins og stangir.

Rjómasoðið hvítkál með parmesan

Það átti nú ekki að líða svona langt milli færslna en lífið er stundum ófyrirsjáanlegt. Veikindi og spítalavist settu strik í plönin hjá okkur og þurfti því að breyta öllum ferðaplönum. Ég hef því verið ein að þvælast hér um á Balí og er núna stödd í Seminyak í góðu yfirlæti á Double-Six hótelinu, þar sem ég bý í 80 fm herbergi með minn eigin butler sem sér meira að segja um að taka upp úr töskunum fyrir mig. Lúxus!

Seminyak er öðruvísi en ég átti von á. Hér er umferðin gjörsamlega galin og það getur tekið hátt í 90 mínútur að fara með leigubíl þá 8 km sem eru frá hótelinu yfir á spítalann. Ég mun aldrei aftur kvarta undan föstudagsumferðinni heima! Flestir ferðast um á vespum og rafmagnsstaurarnir eru vel nýttir.

Það er afslappandi að rölta eftir ströndinni hérna en ég mun þó seint eyða dögunum í sólbaði þar. Í Nusa Dua var ströndin gjörólík ströndinni hér. Þar var meiri ró og þá lagðist ég gjarnan þar með bókina mína snemma í morgunsárið eða undir lok dags og fylgdist með deginum byrja eða sólinni setjast.

Það er ítalskur veitingastaður hér á hótelinu sem ég er búin að borða á undanfarin kvöld. Ég er búin að fá mig fullsadda af pastaréttum og mun eflaust ekki elda pasta heima í bráð. Hakk og spaghetti er eflaust vinsæll hversdagsréttur á fleiri heimilum en mínu (og ef þið hafið ekki prufað þessa uppskrift þá mæli ég með því!) en fyrir þá sem vilja breyta til og jafnvel hvíla sig á pastanu þá er rjómasoðið hvítkál með parmesan æðislega gott með kjötsósunni. Bragðmeira en spaghetti og skemmtileg tilbreyting!

Rjómasoðið hvítkál með parmesan (uppskriftin er fyrir ca 4)

  • 1 lítill hvítkálshaus
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl parmesan
  • salt og pipar

Mýkið hvítkálið í smjöri á pönnu. Hellið rjóma og parmesanosti yfir og látið sjóða saman við vægan hita þar til blandan hefur þykknað og hvítkálið er orðið mjúkt. Smakkið til með salti og pipar.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Big Mac hamborgarasósan

Síðasta sumar gekk uppskriftin af Big Mac hamborgarasósunni um netheima og það var ekki fyrr en um daginn, þegar ég gerði halloumi hamborgarana, að ég lét verða af því að prófa hana. Hún var geggjuð! Mig grunar að ég eigi eftir að hræra í margar svona í sumar.

Big Mac hamborgarasósan

  • 1 dl majónes (Hellmanns)
  • 2 msk fínhökkuð sýrð gúrka
  • 1 msk gult sinnep
  • 1 tsk hvítvínsedik
  • 1 tsk hvítlaukskrydd
  • 1 tsk laukkrydd
  • 1 tsk paprikukrydd

Blandið öllu saman. Tilbúið!

 

Stökkar sætkartöflufranskar og köld sósa sem passar með öllu

Stökkar sætkartöflufranskar og köld sósa sem passar með öllu

Ég hef verið með æði fyrir sætum kartöflufrönskum upp á síðkastið. Ofnbakaðar sætar kartöflur eiga það til að verða mjúkar bæði að utan og innan en ég vil hafa þær stökkar að utan og mjúkar að innan. Eftir að hafa prófað óteljandi leiðir til datt ég loks niður á þessa aðferð sem hefur reynst mér best til að ná kartöflunum stökkum að utan án þess að djúpsteikja þær.

Stökkar sætkartöflufranskar og köld sósa sem passar með öllu

Sætar kartöflur fara vel með flestum mat og mér þykja þær sérlega góðar með kjúklingi og fiski. Ofnbakaðir þorskhnakkar með sætum kartöflufrönskum, kaldri sósu (uppskriftin er hér fyrir neðan) og salati er einfaldur, hollur og svo æðislega góður matur sem bæði passar hversdags eða með hvítvínsglasi í vikulok. Sósan passar með öllum mat og er sérlega góð með fiski. Ég mæli með að þið prófið!

Stökkar sætkartöflufranskar og köld sósa sem passar með öllu

Stökkar sætkartöflufranskar

Hitið ofninn í 130° og skerið sætu kartöflurnar niður í franskar. Dreifið úr þeim á bökunarplötu klædda bökunarpappír og bakið í um 40 mínútur án þess að hafa olíu eða krydd á þeim. Takið þær síðan úr ofninum, sáldrið ólífuolíu yfir og kryddið eftir smekk. Hækkið hitann á ofninum upp í 200-220°og bakið kartöflurnar aftur í um 20 mínútur.

Köld sósa

Hrærið saman sýrðum rjóma og sweet chilli sósu. Byrjið með ca 2 msk á móti einni dós af sýrðum rjóma og smakkið ykkur áfram.

 

Meðlæti með grillmatnum

 

Meðlæti með grillmatnum

Ég lofaði viðbót í meðlætaflokkinn hér á blogginu og bæti núna tveim góðum meðlætum í hópinn, grillaðar kartöflur með rósmarín og reyktu paprikukryddi sem og marineruðum sveppum sem er gott að setja yfir grillkjötið.

Meðlæti með grillmatnum

Grillaðar kartöflur með rósmarín og reyktu paprikukryddi

  • 500 g kartöflur, skornar í teninga
  • 1 laukur, skorinn í smáa bita
  • 6 hvítlauksrif, afhýdd og hvert rif skorið í þrennt
  • 1,5-2 msk ólífuolía
  • 1 ½ tsk rósmarínkrydd (þurrkað), sem er mulið niður í mortéli
  • ½ tsk reykt paprikukrydd
  • ½ tsk salt
  • ½ tsk pipar úr kvörn

Hitið grillið í miðlungshita. Setjið kartöflubitana, laukinn, hvítlaukinn og ólífuolíuna í skál og blandið vel saman. Bætið rósmarín, reyktri papriku, salti og pipar í skálina og blandið öllu vel saman.

Takið tvö 60 cm álpappírsblöð og leggið yfir hvort annað þannig að það myndi kross. Setjið kartöflublönduna í miðjuna á krossinum og passið að þær séu í nokkuð jöfnu lagi. Brjótið álpappírinn saman yfir kartöflurnar og klípið hann saman til að loka vel fyrir. Takið þriðja álpappírsblaðið og vefjið utan um kartöflupakkann. Setjið á grillið í 20 mínútur, snúið þá pakkanum við og grillið áfram í 15-20 mínútur. Farið varlega þegar þið opnið álpappírspakkann því það kemur mikill hiti úr honum. Kartöflurnar geymast heitar í pakkanum í 10-15 mínútur.

Meðlæti með grillmatnum

Grillaðir marineraðir sveppir

Marineringin:

  • 1/4 bolli ólífuolía
  • 1/4 bolli sítrónusafi
  • handfylli af steinselju
  • 1 tsk sykur
  • 1 tsk salt
  • 1/4 tsk pipar
  • 1/4 tsk cayenne pipar
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1 msk balsamik edik

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og vinnið saman í nokkuð slétta blöndu.

  • 450 g sveppir
  • 10 spjót

Skerið sveppina í tvennt, setjið þá í poka og hellið marineringunni yfir. Setjið pokann í ísskáp í 30-45 mínútur.

Ef notuð eru tréspjót er best að leggja þau í bleyti í 15 mínútur svo þau brenni ekki á grillinu. Þræðið sveppina upp á spjótin (best er að snúa þeim upp á svo sveppirnir klofni ekki) og grillið í 3 mínútur á hvorri hlið.

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

Við nýttum veðurblíðuna um daginn og grilluðum lambakjöt. Þegar ég var að velta meðlætinu með grillmatnum fyrir mér þá áttaði ég mig á því að það vantar upp á meðlætistillögur hér á blogginu. Meðlætið skiptir jú svo miklu máli, sérstaklega með grillkjöti. Nú stefni ég á að kippa þessu í lag og set strax inn sætar parmesankartöflur sem voru svoooo góðar. Mér þykja sætar kartöflur alltaf góðar en þessar eru extra góðar með parmesanhjúp og kryddum. Frábært meðlæti!

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur

  • 2 sætar kartöflur
  • 2 tsk pressaður hvítlaukur
  • 1 msk ólífuolía
  • 2 msk smjör, brætt
  • 4 msk rifinn parmesan ostur
  • ½ tsk hvítlaukssalt
  • ½ tsk ítölsk kryddblanda

Hitið ofninn í 200°.

Afhýðið kartöflurnar og skerið í 2 cm teninga. Setjið hvítlauk, olíu, smjör, hvítlaukssalt, parmesan og ítölsku kryddblönduna í plastpoka og blandið vel. Bætið sætu kartöflunum í pokann og hristið hann vel, þannig að kartöflurnar verði hjúpaðar af olíu/smjör/ostablöndunni. Setjið álpappír yfir ofnplötu, spreyið léttilega yfir með olíu og dreifið úr kartöflunum yfir. Bakið í um 20 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn.

Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósuVið ákváðum að draga aftur í gang það stórskemmtilega verkefni að láta krakkana skiptast á að sjá um þriðjudagsmatinn. Mér þykir svo gaman að sjá hvað þau velja að hafa í matinn en því verður ekki neitað að metnaðurinn er mismikill hjá þeim. Á meðan sumir eru að gæla við að elda jólaskinku eru aðrir að velta því fyrir sér að sjóða fisk. Eitt er þó víst að þau hafa mjög gott og gaman af þessu. Jakob reið fyrstur á vaðið og bauð upp á kjöt í káli, með soðnum nýjum kartöflum, gulrótum og bræddu smjöri. Þvílík veisla! Við borðuðum á okkur gat.
Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Það kemur þó engin uppskrift frá veislumatnum hans Jakobs hingað á bloggið (enda svo sem enga uppskrift sem þarf við að sjóða kjöt í káli, það er bara öllu húrrað í pott og soðið!) heldur langaði mig að setja inn uppskrift af sunnudagsmatnum okkar, heilsteiktri svínalund með sinnepssveppasósu sem okkur þótt svo æðislega gott. Kannski hugmynd fyrir helgina?

Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Ofnbökuð svínalund með sinnepssvepasósu

  • 600 g svínalund
  • salt og pipar
  • smjör
  • 150 g sveppir
  • 1 skarlottulaukur
  • 1 msk hveiti
  • 1 dl kjötkraftur af steikarpönnunni
  • 1 dl rjómi
  • 1 dl mjólk
  • 1 msk kálfakraftur (fæst fljótandi í glerflöskum, stendur kalvfond á)
  • 1 msk dijon sinnep
  • skvetta af sojasósu
  • smá sykur

Hreinsið kjötið og kryddið með salti og pipar. Bræðið smjör á pönnu og brúnið hliðarnar á kjötinu. Takið kjötið af pönnunni og setjið í eldfast mót. Hellið 1 dl af vatni á pönnuna og sjóðið kraftinn upp (hann verður notaður í sósuna). Setjið kjötið í 175° heitan ofn í um 20 mínútur, eða þar til kjötmælir sýnir 67°. Látið kjötið standa í 10 mínútur áður en það er skorið.

Skerið sveppina í fernt og hakkið laukinn. Bræðið smjör í potti við miðlungsháan hita og steikið laukinn og sveppina þar til laukurinn er mjúkur. Stráið hveiti yfir og hrærið vel. Hrærið steikarkraftinum saman við og síðan rjóma, mjólk og kálfakrafti. Látið sjóða saman í 5 mínútur. Smakkið til með sykri, dijon sinnepi, salti, pipar og smá sojasósu.

 

Ofnbakaðir maískólfar

Ofnbakaðir maískólfarÉg dáist að þeim sem eru að hlaupa í maraþoninu í dag. Sjálf sit ég enn heima í náttsloppnum og get svarið það að ekkert hefði getað rifið mig út í morgun til að hlaupa. Ég fæ meira að segja hroll við tilhugsunina. Mér þykir svo brjálæðislega notalegt að byrja dagana rólega um helgar, að gera mér eggjahræru og fletta blaðinu yfir morgunmatnum.Ofnbakaðir maískólfar

Ég veit ekki hvort það sé mikið grillveður í kortunum þessa helgina en ég ofnbakaði maískólfa um daginn sem vöktu gífurlega lukku hér heima. Það má vel bera þá fram með öðru en grillmat, til dæmis með heilsteiktum kjúklingi. Hvernig væri til dæmis að gera hlutina einfalda og kaupa grillaðan kjúkling, heita kjúklingasósu og hrásalat í búðinni og skella síðan maískólfum og frönskum í ofninn þegar heim er komið. Það mun enginn kvarta undan slíkri veislu!

Ofnbakaðir maískólfar

Ofnbakaðir maískólfar

  • maískólfar
  • salt og pipar
  • smjör

Hitið ofninn í 200°. Saltið og piprið maískólfana vel (verið ekkert að spara það!). Klæðið lítið eldfast mót með bökunarpappír og leggið maískólfana í. Setjið vel af smjöri ofan á hvern og einn maískólf og bakið í 35-45 mínútur, eða þar til þeir byrja að brúnast. Snúið maískólfunum annað slagið á meðan þeir eru í ofninum. Þegar þeir koma úr ofninum er smá smjör sett yfir þá áður en þeir eru bornir fram.

Ofnbakaðir maískólfar

 

Bernaise sósa

Bernaise sósaNú fer vonandi tími grillkvölda að renna upp og hann er svo kærkominn. Það jafnast fátt á við góða grillsteik á sumarkvöldum. Mér þykir meðlætið ekki minna mikilvægt en kjötbitinn og góð sósa getur hreinlega fullkomnað máltíðina.

Bernaise sósa

Ég elska bernaise sósu og þessi uppskrift er mín uppáhalds. Hún er himnesk! Uppskriftina fann ég á heimasíðu Hagkaups og hún kemur upphaflega frá Rikku. Ég mæli með að þið prófið, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!
 BERNAISE SÓSA
  • 350 g smjör
  • 4 eggjarauður
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 1/2 msk sterkt sinnep
  • karrý á hnífsoddi
  • cayenne pipar á hnífsoddi
  • 1/4 nautakraftskubbur
  • 1/2 msk þurrkað estragon
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar
Bræðið smjörið í potti við vægan hita. Setjið eggjarauðurnar í pott ásamt ediki, sinnepi, karrý og cayenne pipar og þeytið vel yfir vatnsbaði þar til að blandan verður ljós og létt. Gætið þess að eggjarauðurnar hlaupi ekki. Leggið pottinn á vinnuborðið og hellið smjörinu smám saman við og hrærið vel á milli. Þegar 1/3 af smjörinu er kominn saman við blönduna er kjötkraftskubbi og estragoni bætt við og síðan haldið áfram að bæta smjörinu smám saman við þar til að það er uppurið. Kryddið til með salti og pipar.
Bernaise sósaBernaise sósa

Litla gula hænan

Litla gula hænanÉg var svo lánsöm að fá að gjöf kjúklinga frá Litlu gulu hænunni um daginn. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er um velferðarkjúklinga að ræða, sem fá óerfðabreytt fóður, gott rými til að athafna sig og fara út að leika sér þegar veður leyfir. Hversu dásamlegt! Kjúklingarnir eru sælir og dafna eftir því. Mér þykir framtakið til fyrirmyndar og vert að skoða þegar kemur að kjúklingakaupum.

Litla gula hænan

Kjúklingurinn var pattaralegur og flottur. Ég nuddaði hann með sítrónu og kryddaði með kryddi lífsins, rósmarín og salti. Eftir það skar ég hálfa sítrónu í fernt og 1 sólóhvítlauk í báta og setti inn í kjúklinginn. Kjúklingurinn fór eftir það í ofnpott, lokið á og inn í 190° heitan ofn (án blásturs) í 2 klst. Það stóð nú ekki til að hafa hann svo lengi í ofninum og ég var hrædd um að hann væri orðinn þurr en þær áhyggjur voru óþarfar, kjúklingurinn datt af beinunum og var dásamlega meyr og góður.

Litla gula hænan

Þessi kjúklingur er góður fyrir líkama og sál. Ég bar hann fram með kartöflumús, maísbaunum sem ég hitaði í bræddu smjöri og saltaði með góðu salti, rifsberjahlaupi og sósu sem hefur lengi verið í uppáhaldi. Uppskriftin af henni hefur áður komið á bloggið en þolir vel að vera birt aftur.

Ljúffeng rjómasósa:

  • 2,5 dl rjómi (1 peli)
  • 1 dós sýrður rjómi (34%)
  • 1-2 kjúklingateningar
  • 1-2 msk rifsberjahlaup
  • 1-2 msk sojasósa
  • salt og hvítur pipar
  • maizena til að þykkja (má sleppa)

Blandið öllu í pott og látið sjóða í 5 mínútur. Byrjið á 1 kjúklingateningi, 1 msk af rifsberjahlaupi og 1 msk af sojasósu, smakkið til og bætið við eftir þörfum. Smakkið til með salti og hvítum pipar og þykkið með maizena.