Litla gula hænan

Litla gula hænanÉg var svo lánsöm að fá að gjöf kjúklinga frá Litlu gulu hænunni um daginn. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er um velferðarkjúklinga að ræða, sem fá óerfðabreytt fóður, gott rými til að athafna sig og fara út að leika sér þegar veður leyfir. Hversu dásamlegt! Kjúklingarnir eru sælir og dafna eftir því. Mér þykir framtakið til fyrirmyndar og vert að skoða þegar kemur að kjúklingakaupum.

Litla gula hænan

Kjúklingurinn var pattaralegur og flottur. Ég nuddaði hann með sítrónu og kryddaði með kryddi lífsins, rósmarín og salti. Eftir það skar ég hálfa sítrónu í fernt og 1 sólóhvítlauk í báta og setti inn í kjúklinginn. Kjúklingurinn fór eftir það í ofnpott, lokið á og inn í 190° heitan ofn (án blásturs) í 2 klst. Það stóð nú ekki til að hafa hann svo lengi í ofninum og ég var hrædd um að hann væri orðinn þurr en þær áhyggjur voru óþarfar, kjúklingurinn datt af beinunum og var dásamlega meyr og góður.

Litla gula hænan

Þessi kjúklingur er góður fyrir líkama og sál. Ég bar hann fram með kartöflumús, maísbaunum sem ég hitaði í bræddu smjöri og saltaði með góðu salti, rifsberjahlaupi og sósu sem hefur lengi verið í uppáhaldi. Uppskriftin af henni hefur áður komið á bloggið en þolir vel að vera birt aftur.

Ljúffeng rjómasósa:

  • 2,5 dl rjómi (1 peli)
  • 1 dós sýrður rjómi (34%)
  • 1-2 kjúklingateningar
  • 1-2 msk rifsberjahlaup
  • 1-2 msk sojasósa
  • salt og hvítur pipar
  • maizena til að þykkja (má sleppa)

Blandið öllu í pott og látið sjóða í 5 mínútur. Byrjið á 1 kjúklingateningi, 1 msk af rifsberjahlaupi og 1 msk af sojasósu, smakkið til og bætið við eftir þörfum. Smakkið til með salti og hvítum pipar og þykkið með maizena.

2 athugasemdir á “Litla gula hænan

  1. Takk kaerlega fyrir ad stydja og benda a thetta goda framtak sem Litla Gula Haenan er. Thad er nogu mikil eymd og kvol i kjotframleidslu en thetta fyrirtaeki er til fyrirmyndar og fer vel med dyrin. Betra ad borga adeins meira og vera med hreina samvisku 😀

Færðu inn athugasemd