Tælenskar kjúklinganúðlur

Það er stutt vinnuvika framundan hjá mér og strákarnir eru nú þegar komnir í páskafrí. Við verðum heima yfir páskana og helst vil ég eyða dögunum í sófanum með bók og páskaegg, á milli þess sem ég borða góðan mat og dunda mér í eldhúsinu.

Þar sem við verðum heima yfir páskana þá er ég búin að liggja yfir uppskriftum til að prófa. Ég er alltaf með lamb á páskadag og ætla að vera með hægeldaðan lambahrygg þetta árið. Síðan er ég með kjúklingauppskriftir sem mig langar að prófa og auðvitað eftirrétti, helst á hverju kvöldi. Ég prófaði hins vegar um daginn uppskrift af tælenskum kjúklinganúðlum sem okkur þóttu æðislegar! Kannski ekki hefðbundinn páskamatur en frábær réttur sem gæti verið upplagt að bjóða upp á í páskafríinu.

Tælenskar kjúklinganúðlur – uppskrift fyrir 3-4

  • 2 kjúklingabringur
  • 6 dl vatn
  • 1,5 kjúklingateningur
  • 2 msk fiskisósa
  • 1,5 msk sykur
  • 1 tsk chilliflögur
  • 1 lime, fínrífið hýðið (passið að taka bara græna hlutann) og safinn úr helmingnum
  • 50 g ferskt engifer, rifið
  • 200 ml kókosmjólk
  • 1 hvítlauksrif
  • 100 g glass noodles
  • 1/2 dós bambus, skolið vel og skerið í aðeins minni bita

Setjið vatn, kjúklingakraft, fiskisósu, sykur, chilliflögur, lime (hýðið og safann) og rifið engifer í pott og látið suðuna koma upp. Skerið hvora bringu í tvennt eftir þeim endilöngum og leggið í pottinn. Látið sjóða án loks í um 40 mínútur, eða þar til kjúklingakjötið nánast dettur í sundur og vökvinn hefur minnkað til muna. Takið kjúklinginn úr pottinum og rífið hann í sundur með tveim göfflum. Bætið kókosmjólk og hvítlauk út í soðið sem var eftir í pottinum og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hitanum og leggið núðlurnar í hann. Látið þær liggja í nokkrar mínútur eða þar til þær hafa tekið mestu sósuna í sig. Klippið núðlurnar aðeins niður í pottinum með skærum. Endið á að hræra kjúklingnum og bambusnum út í . Berið fram með hökkuðum salthnetum og sojasósu.

Kjúklingur og sætar kartöflur í æðislegri sósu

Það átti nú ekki að líða svona langt á milli færslna en ég fór í tveggja vikna frí í byrjun mars og hef verið löt að prófa nýjar uppskriftir eftir að ég kom heim. Það hefur því lítið verið til frásagnar úr eldhúsinu síðustu vikurnar en þó eitt og annað, og nú er ég allt í einu með nokkrar æðislegar uppskriftir sem bíða eftir að komast inn.

Ég eldaði svo þægilegan kjúklingarétt á sunnudagskvöldinu sem allir voru sammála um að væri æðislega góður. Einfaldara verður það varla! Allt fór saman í ofnpott og inn í ofn. Á meðan gekk ég frá í eldhúsinu, lagði á borð og lagðist svo í sófann þar til maturinn varð tilbúinn.

Jakob stakk upp á því að bæta hnetum út í réttinn og það ætla ég að gera næst. Ég held að nanbrauð gæti líka passað vel með. Ég bar hann bara fram með hrísgrjónum og einföldu salati en í raun væri hægt að sleppa öllu meðlæti þar sem það er bæði kjúklingur og sætar kartöflur í honum.

Kjúklingur og sætar kartöflur – uppskrift fyrir 4

  • 1 lítil dós kókosmjólk (160 ml)
  • 2 msk púðursykur
  • 2 msk sojasósa
  • 2 msk hnetusmjör
  • 1 msk fiskisósa
  • 1 tsk karrýmauk (red curry paste)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk pipar
  • 1 dós hakkaðir tómatar í dós (400 ml)
  • 2 miðlungsstórar sætar kartöflur, afhýddar og skornar í sneiðar
  • 900 g beinlaus kjúklingalæri

Hitið ofn í 200°. Hrærið saman öllum hráefnum fyrir utan sætar kartöflur og kjúkling. Leggið sætu kartöflurnar í botninn á ofnpotti (eða eldföstu móti), setjið kjúklinginn yfir og endið á að hella sósunni yfir. Setjið lokið á pottinn (eða álpappír yfir eldfasta mótið) og bakið undir loki í 45 mínútur. Takið lokið af og bakið áfram í 15 mínútur.

Sriracha Sesar salat

Það styttist í helgina og ekki seinna vænna en að fara að huga að helgarmatnum. Sjálf er ég búin að borða fisk þrjú kvöld í vikunni og langar í eitthvað gott um helgina, eins og eflaust flestum!

Ég gerði fyrir nokkru síðan Sesar salat sem okkur þótti æðislega gott. Uppskriftina fann ég í bók Chrissy Teigen, Cravings, en sú bók er stútfull af girnilegum uppskriftum. Dressingin er súpergóð og hægt að útbúa með góðum fyrirvara því hún geymist í allt að 2 vikur í ísskáp. Ég hef þó ekki látið á það reyna, þar sem við verðum seint þekkt fyrir að spara sósurnar á þessu heimili. Hér var sósuskálin hreinsuð með síðustu salatblöðunum. Klikkgott!

Sriracha Sesar salat – lítillega breytt uppskrift úr Cravings (fyrir 4-6)

  • kjúklingabringur, kryddaðar eftir smekk og eldaðar
  • Romain salat (eða Iceberg), strimlað
  • 1 askja kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
  • 1 lítill rauðlaukur, sneiddur þunnt
  • parmesan ostur
  • maldon salt og pipar

Brauðteningar:

  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, mjög fínhökkuð
  • 1/4 tsk rauðar piparflögur (red pepper flakes)
  • 1/2 tsk salt
  • 1/4 tsk svartur pipar
  • 12 þunnar sneiðar af snittubrauði

Hitið ofn í 180° og klæðið bökunarplötu með bökunarpappír. Hrærið saman ólífuolíu, hvítlauk, rauðum piparflögum, salti og pipar. Raðið snittubrauðsneiðunum á ofnplötuna og penslið með olíublöndunni. Bakið þar til brauðið er gyllt og stökkt, það tekur um 11-12 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna.

Sriracha Caesar dressing (uppskriftin gefur um 2 bolla af dressingu)

  • 1 bolli majónes
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 1½ bolli fínrifinn parmesan
  • 2 msk ferskur sítrónusafi
  • 1 msk Sriracha eða eftir smekk (byrjið með 1/2 msk og smakkið ykkur til)
  • 1½ tsk Dijon sinnep
  • 1 tsk Worcestershire sósa
  • ¼ tsk maldon salt
  • ¼ tsk nýmalaður pipar

Blandið öllum hráefnum saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Geymið í ísskáp þar til á að nota sósuna. Hún geymist í 2 vikur í lokuðu íláti.

 

Heil­steikt­ur kjúk­ling­ur með feta­ostasósu

Mér þykir alltaf jafn leiðinlegt þegar það líður langt á milli færslna en stundum gefst bara ekki tími fyrir meira. Það er búið að vera mikið að gera í haust og nú er smá törn í gangi sem mun halda áfram eitthvað fram í nóvember. Það sér þó fyrir endann á þessu!

Mitt í öllum látunum er kannski viðeigandi að benda á einfaldan og góðan kjúkling sem ég gerði fyrir Hraðrétti á mbl.is í sumar. Þetta er frábær aðferð til að elda góðan mat á einfaldan hátt og hentar sérlega vel þegar ekki gefst tími til að standa yfir pottunum!

Heil­steikt­ur kjúk­ling­ur með feta­ostasósu

  • 1 kjúk­ling­ur
  • 6 stór­ar kart­öfl­ur
  • 2 stór­ar gul­ræt­ur
  • 1 sæt kart­afla
  • 4 skarlottu­lauk­ar
  • ½ dl ólífu­olía
  • 2 pressuð hvít­lauksrif
  • maldonsalt
  • pip­ar
  • timj­an
  • 1 msk. bal­sa­mik-edik
  • 1 msk. sojasósa
  • 1 msk. ólífu­olía
  • 2 pressuð hvít­lauksrif

Aðferð:

  1. Skerið kart­öfl­ur og gul­ræt­ur í fernt á lengd­ina og sæta kart­öflu í bita.
  2. Afhýðið skarlottu­lauka og skerið í tvennt.
  3. Setjið græn­metið í eld­fast mót og hellið ólífu­olíu, pressuðum hvít­lauki, salti og pip­ar yfir.
  4. Blandið öllu vel sam­an og ýtið græn­met­inu til hliðar í mót­inu.
  5. Skolið og þerrið kjúk­ling­inn.

Kljúfið kjúk­ling­inn á milli bring­anna og leggið hann flat­ann í miðju eld­fasta móts­ins

  1. Hrærið bal­sa­miked­iki, sojasósu, ólífu­olíu og pressuðum hvít­lauksrifj­um sam­an og penslið blönd­unni yfir kjúk­ling­inn
  2. Stráið salti og pip­ar yfir allt
  3. Setjið í 200° heit­an ofn í 60 mín­út­ur

Köld sósa:

  • 1 dós sýrður rjómi
  • 150 g mul­inn feta­ost­ur
  • 1 hvít­lauksrif
  • sítr­óna
  • salt
  • pip­ar
  • timj­an sett yfir

Hrærið sýrðum rjóma, feta­osti og pressuðu hvít­lauksrifi sam­an. Smakkið til með sítr­ónusafa, salti og pip­ar. Stráið fersku timj­an yfir áður en sós­an er bor­in fram.

Indónesískar kjúklinganúðlur

Þegar ég var á Balí í fyrra fannst mér svo gaman að smakka matinn þar. Það var sama hvert ég fór, alls staðar fékk ég æðislegan mat. Kjúklingaréttir, pizzur, steikur, ítalskur matur, hamborgarar, mexíkóskur matur, sushi, indónesískar núðlur og steikt hrísgrjón…  þetta var hvert öðru betra! Það voru þó indónesísku réttirnir sem stóðu upp úr og ég var ákveðin í að prófa að elda bæði núðlurnar og steiktu hrísgrjónin þegar ég kæmi heim. Þeir réttir fengust út um allt og voru meira að segja á morgunverðarhlaðborðinu á einu af hótelunum.

Nú er rúmt ár liðið síðan ég kom heim frá Balí. Steiktu hrísgrjónin hef ég enn ekki gert en ég lét loksins verða að því að elda indónesísku núðlurnar. Svo sjúklega gott!

Bami Goreng (uppskrift fyrir 4)

  • 250 g eggjanúðlur (ósoðnar)
  • 4 msk olía (ekki ólífuolía)
  • 125 g vorlaukur
  • 1 brokkólíhöfuð
  • 2 gulrætur
  • 700 g kjúklingabringur eða úrbeinuð læri
  • 1 tsk karrý
  • 1-2 tsk sriracha (sterk chillísósa)
  • 1/2 dl. ketchap manis
  • 1/2 dl sojasósa
  • 2 tsk sesamolía
  • 2 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 hvítlauksrif

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka..Hellið vatninu af þeim og kælið núðlurnar svo þær haldi ekki áfram að soðna.

Skerið brokkólí, salatlauk og gulrætur niður og hafið tilbúið á bakka.

Skerið kjúklinginn í bita og steikið á pönnu. Kryddið hann með salti og pipar. Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar. Bætið olíu og sesamolíu á pönnuna og steikið grænmetið ásamt pressuðu hvítlauksrifi í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum aftur á pönnuna, kryddið með karrý og sriracha og hrærið öllu vel saman. Setjið vatn, kjúklingatening, ketchap manis, sojasósu og núðlurnar á pönnuna og látið allt hitna saman í nokkrar mínútur. Smakkið til með sojasósu, ketchap manis og sriracha.

Ég bar núðlurnar fram með sriracha, ketchap manis og sweet chili sósu til hliðar, þannig að hver og einn gæti bragðbætt núðlurnar eftir smekk.

Bragðmikið kjúklinga- og avókadó tacos

 

Þar sem ég hef ekki verið heima undanfarnar helgar hlakka ég sérlega mikið til helgarinnar. Ég er ekki með nein önnur plön en að slappa af og borða góðan mat. Í kvöld ætla ég að kíkja í matreiðslubækur og athuga hvort ég finni ekki einhverjar spennandi uppskriftir til að prófa. Mér heyrist á krökkunum að þeim langi í mexíkóska kjúklingasúpu og það er alltaf auðvelt að tala mig inn á hana. Hún klikkar aldrei!

Mexíkóskur matur er alltaf vinsæll hér heima og undir lok sumars eldaði ég svo gott tacos sem ég átti alltaf eftir að setja hingað inn. Uppskriftina fann ég á Gimme Delicious en þar má finna margt girnilegt.

Bragðmikið kjúklinga- og avókadó tacos (uppskrift fyrir 4)

  • 450 g kjúkingabringur, skornar í munnbita
  • 2 msk ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk chillikrydd
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/4 tsk lauk- eða hvítlaukskrydd
  • 1/4 tsk salt
  • ferskur limesafi

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Blandið saman ólífuolíu, pressuðum hvítlauksrifum, chillikryddi, cumin, laukkryddi og salti. Bætið kjúklingnum í blönduna og hrærið vel saman. Setjið í lokað ílát og látið standa í ísskáp í smá stund (má geyma í allt að 48 klst.). Hitið pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er fulleldaður, 8-12 mínútur. Takið af hitanum og setjið smá limesafa yfir.

Kóriandersósa

  • 1/2 bolli sýrður rjómi eða grísk jógúrt
  • 1/4 bolli ferskt kóriander
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 tsk limesafi
  • salt og pipar

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða blandara og vinnið saman í 30 sek.

Samsetning

  • 2-4 avókadó (fer eftir stærð), skorið í sneiðar
  • 6-8 litlar tortillur

Hitið tortillurnar á pönnu. Setjið kjúklinginn á heita tortilluna, setjið avókadó yfir og endið á kóriandersósu.

 

Tælensk núðlusúpa – Hraðréttir

Það varð lengri þögn hér á blogginu en stóð til en undanfarnar vikur hef ég verið að vinna í verkefni sem hefur tekið svo mikinn tíma að ég hef ekki átt lausa stund til að sinna neinu.  Ég man ekki hvenær ég eldaði kvöldmat síðast og matarinnkaupin hafa snúist um að finna eitthvað sem krakkarnir geta eldað sjálf. Nú sér þó fyrir endan á þessari vinnutörn og ég held (og vona!) að það taki því allir fagnandi hér heima.

Ég man ekki eftir að hafa sagt frá því hér á blogginu að ég eldaði nokkra Hraðrétti fyrir Matur á mbl.is í vor. Núna síðast var birt tælensk núðlusúpa sem ég gerði og bara verð að benda á. Eins og sést á myndbandinu þá er súpan bæði einföld og fljótleg en hún er líka alveg meiriháttar góð og passar vel í haustveðrinu. Ég mæli með að prófa!

Kjúklingur og grænmeti

Á meðan veðrið helst gott reyni ég að forðast að eyða miklum tíma í eldhúsinu. Mitt besta ráð á slíkum dögum er að steikja grænmeti og kjúkling saman á pönnu og bera fram með tzatziki (hægt að kaupa tilbúið í flestum verslunum). Tekur enga stund og er bæði létt og gott í maga.

Það getur verið gott að hafa brauð með (t.d. pítubrauð) en sjálfri þykir mér kjúklingurinn og grænmetið duga. Ég nota sous vide elduðu kjúklingabringurnar sem fást orðið í verslunum (eða hafa þær kannski fengist lengi? Ég uppgötvaði þær bara nýlega) og hendi þeim á pönnuna undir lokin þannig að þær hitni aðeins. Annars er frábært að eiga þær í ísskápnum til að setja í pastarétti eða á pizzur. Geymast lengi og gott að geta gripið í þær.

Það sem ég setti á pönnuna í þetta skiptið var:

  • sæt kartafla
  • sellerírót
  • brokkólí
  • rauðlaukur
  • papikur, rauð og græn
  • 4 kjúklingabringur

Ég byrjaði á að skera sætu kartöfluna og sellerírótina í bita á meðan pannan var að hitna. Það fór svo á pönnuna ásamt smá ólífuolíu og á meðan skar ég það sem eftir var af grænmetinu niður. Þegar kartöflurnar voru farnar að mýkjast bætti ég grænmetinu á pönnuna ásamt smá vatni (ca 1/2 dl), lækkaði hitann og setti lokið á pönnuna. Eftir um 5 mínútur bætti ég niðurskornum kjúklingabringunum á pönnuna og blandaði öllu vel saman. Kryddað eftir smekk og borið fram með tzatziki.

Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti

Þegar líða fer að helginni berst talið oft að helgarmatnum og hugmyndir fara að fljúga á milli í vinahópnum. Í slíkum pælingum um daginn minntist vinkona mín úr vinnunni á rétt sem maðurinn hennar gerir sem henni þykir svo góður. Ég varð auðvitað ekki róleg fyrr en hún var búin að fá hann til að senda sér uppskriftina. Hann átti eflaust ekki von á að hún myndi enda hér (ég fékk samt leyfi til að birta hana – takk Kalli!) en ég get ekki annað, bæði svo fleiri geta notið og svo ég geti fundið hana aftur.

Þessi kjúklingaréttur er í einu orði sagt æðislegur. Krakkarnir höfðu öll orð á því hvað hann væri svakalega góður og meira að segja Gunnar, sem borðar helst ekki kjúkling, sagðist furða sig á því hvað þetta væri æðislega gott því hann borði nánast ekkert af því sem er í réttinum.

Við vorum 5 í mat og það varð smá afgangur eftir sem Jakob borðaði í morgunmat daginn eftir. Ég bar réttinn fram með brauði, annars hefði hann eflaust klárast upp til agna.

Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti (uppskrift fyrir 5)

  • 4 kjúklingabringur
  • 2 dósir sataysósa (mér þykir langbest frá Thai Choice)
  • 1 rauðlaukur
  • 1 dós fetaostur
  • 150-200 g spínat
  • 3 dl kús kús
  • 3 dl vatn

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í smjöri. Hellið sataysósunni yfir og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur.

Hitið vatn að suðu (mér þykir gott að setja 1 kjúklingatening í vatnið), hrærið kús kús út í, setjið lok á pottinn og takið af hitanum. Látið standa í 5 mínútur.

Setjið kús kús, niðurskorinn rauðlauk, fetaost og spínat út í kjúklinginn og berið fram.

Crunshwrap

Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir á fimmtudögum sem gætu hentað að elda yfir helgina. Á virkum dögum elda ég yfirleitt mat sem tekur stuttan tíma að gera og er kannski meiri hversdagsmatur. Um helgar vil ég hafa meiri stemningu í þessu og reyni að finna rétti sem hitta í mark hjá krökkunum. Mexíkóskur matur er alltaf vinsæll hér heima og um síðustu helgi prófaði ég að gera crunchwrap í fyrsta sinn. Svo gott!

Ég reyndi að mynda hvernig tortillan er brotin saman en veit ekki hvort það hafi tekist nógu vel. Þetta segir sig kannski bara sjálft?

Crunchwrap – uppskrift fyrir 5-6

  • 4 kjúklingabringur (um 1 kg), skornar í strimla
  • 1 msk olía
  • safi af 1 lime
  • 1 bréf fajita krydd

Blandið saman og látið marinerast í 1 klst.

  • 1 laukur, sneiddur
  • 1 rauð paprika, sneidd
  • 1 græn paprika, sneidd
  • 1 tsk salt
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 dl bjór (pilsner gengur líka)
  • 10 tortillur
  • rifinn ostur

Grænmetið er steikt á pönnu, saltað og pressuðum hvítlauki bætt við, og steikt aðeins áfram. Kjúklingnum er bætt á pönnuna og steiktur þar til nánast fulleldaður.  Hellið bjór yfir og látið sjóða saman í nokkrar mínútur.

Rifinn ostur er settur á miðja tortillu, svo kjúklingablandan sett yfir, brotið saman og sett á ofnplötu með sárið niður. Rifinn ostur settur yfir og bakað við 180° í 15-20 mínútur.