Mér þykir alltaf jafn leiðinlegt þegar það líður langt á milli færslna en stundum gefst bara ekki tími fyrir meira. Það er búið að vera mikið að gera í haust og nú er smá törn í gangi sem mun halda áfram eitthvað fram í nóvember. Það sér þó fyrir endann á þessu!
Mitt í öllum látunum er kannski viðeigandi að benda á einfaldan og góðan kjúkling sem ég gerði fyrir Hraðrétti á mbl.is í sumar. Þetta er frábær aðferð til að elda góðan mat á einfaldan hátt og hentar sérlega vel þegar ekki gefst tími til að standa yfir pottunum!
Heilsteiktur kjúklingur með fetaostasósu
- 1 kjúklingur
- 6 stórar kartöflur
- 2 stórar gulrætur
- 1 sæt kartafla
- 4 skarlottulaukar
- ½ dl ólífuolía
- 2 pressuð hvítlauksrif
- maldonsalt
- pipar
- timjan
- 1 msk. balsamik-edik
- 1 msk. sojasósa
- 1 msk. ólífuolía
- 2 pressuð hvítlauksrif
Aðferð:
- Skerið kartöflur og gulrætur í fernt á lengdina og sæta kartöflu í bita.
- Afhýðið skarlottulauka og skerið í tvennt.
- Setjið grænmetið í eldfast mót og hellið ólífuolíu, pressuðum hvítlauki, salti og pipar yfir.
- Blandið öllu vel saman og ýtið grænmetinu til hliðar í mótinu.
- Skolið og þerrið kjúklinginn.
Kljúfið kjúklinginn á milli bringanna og leggið hann flatann í miðju eldfasta mótsins
- Hrærið balsamikediki, sojasósu, ólífuolíu og pressuðum hvítlauksrifjum saman og penslið blöndunni yfir kjúklinginn
- Stráið salti og pipar yfir allt
- Setjið í 200° heitan ofn í 60 mínútur
Köld sósa:
- 1 dós sýrður rjómi
- 150 g mulinn fetaostur
- 1 hvítlauksrif
- sítróna
- salt
- pipar
- timjan sett yfir
Hrærið sýrðum rjóma, fetaosti og pressuðu hvítlauksrifi saman. Smakkið til með sítrónusafa, salti og pipar. Stráið fersku timjan yfir áður en sósan er borin fram.