Kjúklingakúskús með miðaust­ur­lensk­um inn­blæstri

Ég er á smá spani þessa dagana þar sem þessi vika býður upp á hvert skemmtilega kvöldið á fætur öðru. Fyndið hvernig það vill stundum allt raðast á sömu vikuna. Í gærkvöldi var saumaklúbbur, í kvöld erum við stelpurnar í vinnunni að hittast og á morgun fer ég í boð sem ég er búin að lofa að mæta með smá veitingar í. Ég var að setja köku í ofninn til að taka með mér á morgun (er að prófa nýja uppskrift sem ég vona að verði góð) en langaði svo til að kíkja hingað inn fyrir helgina og benda á einfalda og æðislega góða uppskrift sem ég prófaði um daginn.

Ég átti nú ekkert endilega von á að strákarnir yrðu hrifnir af þessum rétti en þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér. Það tók enga stund að henda þessu saman og okkur þótti öllum rétturinn alveg æðislegur. Uppskriftin kemur frá Rikku og ég tók hana beint af matarvef mbl. Ég notaði döðlur í staðin fyrir rúsínur en hélt mér annars alveg við uppskriftina. Súpergott!!

Kúskús með miðaust­ur­lensk­um inn­blæstri

fyr­ir 4

 • 500 g kúskús, ég nota forkryddað til að spara tím­ann
 • 500 g pers­nesk­ur kjúk­ling­ur frá Holta (ég var með tvo bakka, minnir að það geri 800 g)
 • 2 hvít­lauksrif, pressuð
 • 100 g rús­ín­ur, saxaðar döðlur eða þurrkaðar fíkj­ur (ég var með döðlur)
 • 2 msk. avóka­dóol­ía, til steik­ing­ar
 • salt og pip­ar

Sósa

 • hand­fylli ferskt kórí­and­er, fínsaxað
 • 1 dós sýrður rjómi 10%
 • ¼ tsk. cayenne-pip­ar
 • 1 msk. sítr­ónusafi
 • ½ hvít­lauksrif, pressað
 • þurrristaðar kasjúhnet­ur
 • granatepla­kjarn­ar

Eldið kúskús sam­kvæmt leiðbein­ing­um á pakkn­ingu. Steikið kjúk­ling­inn upp úr ol­í­unni ásamt hvít­lauk og rús­ín­um. Bætið kúskús sam­an við, steikið áfram og kryddið með salti og pip­ar.

Hrærið hrá­efn­inu í sós­unni sam­an, má líka skella öllu sam­an í bland­ara.

Skellið í skál, stráið kasjúhnet­um og granatepla­kjörn­um yfir og berið fram með sós­unni. Ég bar réttinn einnig fram með nanbrauði.

Tælensk núðlusúpa

Síðustu dagar og vikur hafa farið í menntaskólapælingar því strákarnir klára 10. bekk í vor. Ég held að ég geti fullyrt að ég velti þessu meira fyrir mér en þeir og bíð spennt eftir hverju einasta opna húsi í skólunum. Í gær skoðuðum við Kvennó og á fimmtudaginn opnar Versló dyrnar. Eftir þessa viku verða bræðurnir vonandi búnir að gera upp hug sinn. Ég sit á skoðunum mínum og ætla sem minnst að skipta mér að þessu.

Það hefur verið lítið fréttnæmt úr eldhúsinu upp á síðkastið þar sem ég hef notið góðs af matarboðum og þess á milli höfum við mest fengið okkur eitthvað fljótlegt á hlaupum. Það var þó eitt kvöldið um daginn sem ég eldaði tælenska núðlusúpu sem var alveg hreint æðislega góð. Við erum öll hrifin af tælenskum mat og þessi matarmikla súpa féll í kramið hjá öllum. Það var strax óskað eftir að ég myndi elda hana fljótlega aftur sem hljóta að vera góð meðmæli með súpunni.

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi

 • 2 msk ólífuolía
 • 2 kjúklingabringur
 • 1 laukur, hakkaður
 • 2 gulrætur, skornar í sneiðar
 • 3 msk rautt karrýmauk
 • 1 msk ferskt rifið engifer
 • 4 hvítlauksrif, pressuð
 • 2 dósir kókosmjólk
 • 1 líter vatn
 • 2 kjúklingateningar
 • 2 msk sojasósa
 • 2 msk fiskisósa
 • 1 tsk mulið kaffir lime
 • 2 msk púðursykur
 • 1/2 msk basilika
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar
 • 1 rauð paprika
 • 2-3 dl blómkál
 • 1 lítil sæt kartafla
 • 100 g hrísgrjónanúðlur
 • 1- 1,5 tsk sriracha
 • kóriander
 • lime
 • salthnetur

Hitið 1 msk af olíu á pönnu og steikið kjúklinginn í um 2 mínútur á hvorri hlið (það þarf ekki að elda hann í gegn, heldur bara að brúna hann). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.

Hitið 1 msk af olíu í rúmgóðum potti yfir miðlungsháum hita. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og mýkið í 3 mínútur. Bætið karrýmauki, engifer og hvítlauki í pottinn og steikið áfram í 2 mínútur. Setjið kjúklinginn í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, kjúklingateningum, sojasósu, fiskisosu, kaffir laufum, púðursykri, basiliku, salti og pipar. Látið suðuna koma upp og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur.

Takið kjúklinginn aftur úr pottinum og látið hann kólna aðeins þannig að hægt sé að skera eða rífa hann í sundur. Bætið papriku, blómkáli og sætri kartöflu í pottinn og látið sjóða í 5-8 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Bætið núðlunum í pottinn og sjóðið áfram eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið rifinn /niðurskorinn kjúklinginn í súpuna og smakkið súpuna til með sriracha og limesafa.

Berið súpuna fram með kóriander, limesneiðum og salthnetum.

Kjúklingur með ólífum í rósmarín- og hvítlauksrjómasósu

Þessi kjúklingaréttur var á boðstólnum hjá mér fyrir tæpu ári síðan þegar ég bauð mömmu í mat. Okkur þótti maturinn ægilega góður og allir voru sammála um að uppskriftin yrði nú að fara beinustu leið á bloggið, svo fleiri gætu notið hennar.

Það fór þó svo að ég týndi uppskriftinni og hún rataði því aldrei á bloggið. Ég hélt myndunum sem ég hafði tekið til haga ef uppskriftin skyldi nú koma í leitirnar, sem gerðist svo loksins í gær. Hér kemur hún því, ári síðar en algjörlega biðarinnar virði!

Kjúklingur með ólífum í rósmarín- og hvítlauksrjómasósu (uppskrift fyrir 6, af blogginu 56kilo.se)

 • 1 kg kjúklingabringur
 • 1 stór laukur
 • 5 hvítlauksrif
 • smjör til að steikja úr
 • 2,5 dl grófhakkaðir sveppir
 • 6 dl rjómi
 • 2 tsk salt
 • smá svartur pipar
 • 2 kjúklingakraftsteningar
 • 2-3 tsk þurrkað rósmarín
 • 6 hakkaðir sólþurrkaðir tómatar
 • hýði og safi úr 1 sítrónu
 • 2 dl svartar ólífur
 • 1 búnt steinselja
 • 2 dl rifinn parmesan

Skerið kjúklingabringurnar í þrennt á lengdina. Bræðið smjör í rúmgóðum potti og steikið kjúklinginn þar til hann hefur fengið lit. Saltið og piprið og takið úr pottinum. Setjið fínhakkaðan lauk og hvítlauk í pottinn ásamt grófhökkuðum sveppum og steikið úr smjöri þar til farið að mýkjast. Bætið kjúklingnum aftur í pottinn og setjið rjóma, sólþurrkaða tómata, sítrónusafa, kjúklingateninga og rósmarín í pottinn. Látið sjóða við vægan hita í um 10 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Hrærið ólífum, hakkaðri steinselju, sítrónuhýði og rifnum parmesan saman við áður en rétturinn er borinn fram.

Fajitas

Ég las um daginn að mörgum þyki janúar laaaangur mánuður og því eru eflaust einhverjir sem gleðjast yfir að hann sé að baki og glænýr mánuður að hefjast. Ekki nóg með það heldur er helgin framundan og því taumlaus gleði!

Planið er að fara út að borða og á Mið-Ísland um helgina og mig langar að gera enn eina tilraunina til að fara í bíó. Ég er alltaf að plana bíóferðir en þær verða aldrei af. Líkurnar eru því ekki með mér en kannski að þetta verði helgin sem ég læt verða af því. Ég vona það! Helgarmaturinn er enn óákveðinn en um síðustu helgi vorum við með svo góðan kvöldverð að ég má til með að setja hann inn ef einhver er að leita að hugmyndum fyrir helgina.

Ég er yfirleitt með kvöldmatinn í fyrra fallinu en þetta kvöld fór allt úr skorðum. Ég var byrjuð á matnum þegar Gunnar minnti mig á að fótboltaleikur sem við ætluðum á færi að byrja. Ég hafði bitið í mig að hann væri seinna um kvöldið. Það var því ekkert annað í stöðunni en að hlaupa frá öllu og halda áfram með eldamennskuna þegar heim var komið…. kl. 21.30! Við sitjum alltaf lengi yfir kvöldmatnum og klukkan var að nálgast 23 þegar allir voru búnir að borða og búið var að ganga frá í eldhúsinu. Maturinn var sérlega góður (allir voru jú svo svangir og þá verður allt extra gott!) og leikurinn fór Blikum í hag, þannig að dagurinn hefði varla getað endað betur.

Ég bar kjúklinginn fram með mangósalsa, guacamole, sýrðum rjóma, salsa, heitri ostasósu, salati, tortillum og svörtu doritos. Það var einfaldlega öllu húrrað á borðið og síðan setti hver og einn matinn saman eftir smekk. Daginn eftir gerði ég mér salat úr afganginum. Svo gott!

Kjúklingafajitas

 • 1 kg kjúklingabringur
 • 1,5 msk oregano
 • 1,5 msk kúmin (ath. ekki kúmen)
 • 1 msk kóriander
 • 1/2 msk túrmerik
 • 3 hvítlauksrif
 • safi úr 1 lime
 • 1/3 dl rapsolía

Skerið kjúklinginn í bita og pressið hvítlauksrifin. Blandið öllu saman og látið marinerast í um klukkustund (ef tími gefst). Dreifið úr kjúklingnum yfir ofnskúffu og setjið í 175° heitan ofn í um 8 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Það má líka steikja kjúklinginn á pönnu, þá er kjúklingurinn settur beint á heita pönnuna og hann steiktur upp úr olíunni í marineringunni.

Mangósalsa:

 • 1 ferskt mangó
 • 1 rauð paprika
 • safi úr 1/2 lime
 • ferskt kóriander

Skerið mangó og papriku í bita og blandið öllu saman.

Guacamole:

 • 1 avokadó
 • 1/2 rautt chili (fjarlægið fræin)
 • 1 hvítlauksrif
 • cayanne pipar
 • sítrónusafi

Stappið avokadó, fínhakkið chili og pressið hvítlauksrif. Blandið saman og smakkið til með cayanne pipar og sítrónusafa.

Kjúklingur í panang karrý

Það styttist í helgina og eflaust margir farnir að gera helgarplön. Sjálf sé ég fram á rólega helgi og hafði því hugsað mér að halda áfram að horfa á Big Little Lies. Við erum búin með fyrstu tvo þættina á jafn mörgum vikum og ég búin að lýsa því yfir hér heima að við munum fara langt með seríuna yfir helgina. Nú er því bara að standa við stóru orðin og leggjast í sófann með popp og nammi.

Fyrir þá sem eru að velta helgarmatnum fyrir sér þá mæli ég með þessum kjúklingi í panang karrý sem við vorum með í kvöldmat um daginn. Ég panta mér alltaf panang karrý þegar ég fer á tælenska veitingastaði og fæ ekki leið á því. Þessi réttur er bæði fljótgerður og súpergóður. Ég mæli með að prófa!

Kjúklingur í panang karrý

Panangkarrýmauk

 • 3 msk rautt karrýmauk
 • 1 msk hnetusmjör (creamy)
 • 1/2 tsk kórianderkrydd
 • 1/4 tsk cumin

Rétturinn

 • 1 msk kókosolía
 • 1 skarlottulaukur
 • 1 msk rifið engifer
 • 1 dós kókosmjólk
 • 300-400 g kjúklingalundir eða -bringur, skornar í þunnar sneiðar
 • 1,5 dl vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 2 tsk fiskisósa
 • 1 msk sykur
 • 10 dl blandað grænmeti (t.d. brokkólí, gulrætur, paprika, kartöflur, sveppir, sætar kartöflur…)
 • 170 g hrísgrjónanúðlur, eldaðar eftir leiðbeiningum á pakkningu
 • ferskt kóriander og lime skorið í báta til að bera fram með réttinum
Skerið grænmetið niður og steikið í smá ólívuolíu á pönnu við miðlungsháan hita þar til grænmetið er komið með fallegan lit (3-5 mínútur). Leggið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu, bætið skarlottulauknum á pönnuna og mýkið í 3-4 mínútur, eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og glær. Bætið engifer á pönnuna og steikið í hálfa mínútu áður en 1/4 af kókosmjólkinni er bætt á pönnuna ásamt karrýmaukinu. Steikið saman í 1 mínútu. Bætið kjúklingi á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur. Bætið því sem eftir var af kókosmjólkinni ásamt vatninu, kjúklingateningnum, fiskisósunni og sykrinum á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita í 5-10 mínútur. Bætið grænmetinu saman við.

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Berið réttinn fram með núðlum, fersku kóriander og lime sem hefur verið skorið í báta.

SaveSave

Kjúklingapasta sem rífur í

 

Ég verð að viðurkenna að þessi kuldi er alveg að fara með mig. Eftir vinnu fór ég í heitan tíma í ræktinni (hef varla stigið fæti inn í ræktarsalinn síðan í vor) og mikið var gott að fá smá hita. Gæti jafnvel endað svo að ég fari aftur fljótlega. Maður getur alltaf vonað. Ég hef verið í krónísku letikasti frá ræktinni síðan ég man eftir mér þannig að líkurnar eru ekki með mér.

Við erum bara tvö í mat í kvöld og ætlum að fá okkur sushi. Það liggur hvítvínsflaska í ísskápnum og ég get ekki beðið eftir að setjast niður og eiga notalega kvöldstund. Elska svona hversdagslúxus.

Á meðan ég bíð eftir að maturinn detti í hús ætla ég að setja inn uppskrift af æðislegum pastarétti sem ég var með um daginn. Þessi réttur vakti mikla luku hjá öllum hér heima. Marineringin rífur aðeins í án þess að gera réttinn of sterkann. Súpergott!

Kjúklingapasta sem rífur í (uppskrift fyrir 4)

600 g kjúklingabringur
1 tsk sambal oelek
½ msk rifið engifer
1 hvítlauksrif
2 tsk ólífuolía
1 lime
3 msk balsamik edik
½ sítróna
1 hvítlauksrif
2 msk hunang
250 g spaghettí (ekki soðið)

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Setjið sambal oelek, engifer, pressað hvítlauksrif og ólífuolíu í poka. Rífið hýðið af lime-inu og setjið í pokann, skerið það svo í tvennt og pressið safann líka í pokann. Kryddið með salti og pipar. Bætið kjúklingabitunum í pokann og látið marinerast í 30 mínútur.

Steikið kjúklinginn með allri marineringunni. Bætið balsamik ediki, sítrónusafa, pressuðu hvítlauksrifi og hunangi á pönnuna og látið allt sjóða saman þar til kjúklingurinn er fulleldaður.

Sjóðið spaghettí og bætið saman við kjúklinginn (það er gott að setja smá af pastavatninu með). Berið fram með salati.

Kjúklinga- og spínatquesadillas

Um síðustu helgi var ég með heimagerðan skyndibita í matinn sem ég má til með stinga upp á ef einhver er að leita að hugmynd fyrir föstudaginn. Quesadillas þykir mér nefnilega vera hinn fullkomni föstudagsmatur, bæði því það tekur stuttan tíma að reiða hann fram og hann vekur lukku hjá öllum hér heima.

Til að hafa sem minnst fyrir kvöldmatnum keypti ég tilbúinn fajitas kjúkling sem var niðurskorinn í bita en það er auðvitað líka hægt að vera með heilan kjúkling og rífa niður. Síðan ætlaði ég að kaupa ferskt guacamole í Hagkaup eins og ég geri svo oft, en það var búið. Ég brá þá á það ráð að kaupa guacamole úr salatbarnum og þar rak ég augun í ferskt salsa sem ég keypti líka. Það var því lítil fyrirhöfn að koma matnum á borðið.

Ég bar quesadillurnar fram með eðlu, svörtu Doritos, fersku salsa, venjulegu salsa, heitri ostasósu, sýrðum rjóma og guacamole. Súpergott!!

Kjúklinga- og spínatquesadillas

 • 1 poki tortillur (8 stk)
 • 1 kjúklingur, rifinn niður (eða 1 bakki fajitas kjúklingur frá Holta)
 • spínat
 • rifinn ostur (ég var með blöndu af gratín- og pizzaosti)

Setjið rifinn ost, handfylli af spínati, kjúkling og rifinn ost (þannig að osturinn sé bæði undir og yfir) á annan helming tortilluköku. Brjótið tóma helminginn yfir, þannig að tortillan myndi hálfmána, og steikið á pönnu eða hitið í ofni þar til osturinn hefur bráðnað.

Skerið í sneiðar og berið fram með því sem hugurinn girnist!

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Stökkar fajita kjúklingavefjur

Fyrir viku síðan fór ég niður í Þríhnjúkagjúg en það hafði mig lengi langað til að gera. Það var ótrúleg upplifun að fara þangað niður og ef þið hafið tækifæri til þess, skuluð þið ekki láta það úr hendi sleppa. Ég veit að það hafa stundum verið tveir fyrir einn tilboð undir lok tímabilsins (síðustu ferðirnar niður eru um miðjan október) sem gæti verið snjallt að nýta sér.

Lyftuferðin niður er mögnuð! 

Það er róleg helgi framundan hjá mér og ég er búin að lofa krökkunum heimagerðum pizzum annað kvöld. Síðasta föstudagskvöld gerði ég hins vegar steiktar kjúklingavefjur sem okkur þótti frábær föstudagsmatur. Ég gerði mér einfalt fyrir og keypti tilbúinn grillaðan kjúkling og tilbúið guacamole (fæst ferskt í Hagkaup) og þá tók enga stund að koma matnum á borðið. Æðislega gott!

Steiktar fajita kjúklingavefjur

 • 1 kjúklingur (ég keypti tilbúinn grillaðan kjúkling)
 • 1 poki fajitas krydd
 • rauð paprika
 • græn paprika
 • laukur
 • kóriander (má sleppa)
 • sýrður rjómi eða ostasósa
 • ostur

Rífið kjúklinginn niður og skerið paprikunar og laukinn í strimla. Steikið allt saman á pönnu og kryddið með fajitas kryddi (notið allan pokann).

Smyrjið tortillaköku með um 3 msk af sýrðum rjóma eða ostasósu, setjið um 1 dl af kjúklingablöndunni yfir (setjið hana í miðjuna á tortillakökunni) og stráið kóriander og rifnum osti yfir. Brjótið tortillukökuna saman þannig að lokist fyrir allar hliðar. Hitið olíu á pönnu og steikið vefjurnar á báðum hliðum þar til þær eru orðnar stökkar. Berið fram með meðlæti eins og t.d. nachos, salsa, salati, sýrðum rjóma, guacamole og/eða ostasósu.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Núðlur með kjúklingi í tælenskri hnetusósu

Á morgun er föstudagur og helgarfríið því rétt handan við hornið. Þó að þessi fyrsta vinnuvika eftir sumarfrí hefur flogið frá mér þykir mér ósköp notaleg tilhugsun að geta sofið út og slappað af yfir helgina. Við erum ekki með nein plön og því vonandi róleg helgi framundan.

Ég hef hugsað mér að elda þessa núðlusúpu annað kvöld en ætla hins vegar að gefa ykkur uppskrift af æðislegum núðlurétti núna, sem mér þykir passa vel sem helgarmatur. Sósan er svo góð að það væri nánast hægt að bera hana eintóma fram með skeið og segja gjörið svo vel!

Núðlur með kjúklingi í tælenskri hnetusósu

 • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri
 • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
 • 3 tsk rautt tælenskt karrýpaste
 • 3 msk hnetusmjör
 • 1 msk fiskisósa
 • 1-2 klípur maldonsalt
 • 1 kjúklingateningur
 • 1-2 tsk sykur
 • safi úr 1 lime
 • 400 g hrísgrónanúðlur (400 g)
 • vorlaukur, skorinn í sneiðar
 • salthnetur, hakkaðar
 • kóriander
 • auka lime

Hitið vatn að suðu í rúmgóðum potti og setjið kjúklinginn í sjóðandi vatnið. Látið kjúklinginn sjóða við vægan hita í 13 mínútur.

Sjóðið núðlurnar í öðrum potti, samkvæmt leiðbeiningum.

Á meðan kjúklingurinn sýður er sósan undirbúin. Hrærið saman kókosmjólk, rautt karrýpaste, hnetusmjör, fiskisósu og safa úr einu lime í skál og leggið til hliðar.

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann tekinn úr pottinum og skorinn í bita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn léttilega. Hellið sósunni yfir, bætið kjúklingateningi og sykri úr í. Látið sjóða aðeins saman og smakkið til með maldonsalti.

Setjið núðlur í botninn á skál og hellið kjúklingnum með sósu yfir. Berið fram með hökkuðum salthnetum, vorlauk, kóriander og limesneiðum.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Tacos með tælenskum kjúklingi, avokadó og kasjúhnetum

 

Í gærkvöldi bókaði ég gistingu í Ubud og við komum hingað seinnipartinn í dag. Við borðuðum hér á hótelinu okkar í kvöld og fengum æðislegan mat, sushi og nautakjöt. Svo ólýsanlega gott, bæði maturinn og að vera komin hingað saman. Þeir sem vilja geta fylgt mér á Instagram, þar set ég í Insta stories.

Ég er svo rugluð í dögunum hérna, þeir renna allir saman og það er enginn munur á mánudegi og laugardegi. Ég þurfti því að hugsa eftir til að átta mig á að það er föstudagur í dag og helgi framundan! Það er aldeilis við hæfi að setja þessa uppskrift inn fyrir helgina því þetta er fullkominn helgarmatur sem vekur lukku hjá öllum.

Tacos er jú bara svo gott og þessi útfærsla er æðisleg tilbreyting frá hinu hefðbundna tacos. Kjúklingurinn er svo bragðgóður og með hnetunum, avokadó, kóriander og sýrðum rjóma verður rétturinn ómótstæðilegur.

Mér þykir gott að þurrsteikja kasjúnhetur (og furuhnetur þegar ég er með þær) og hella síðan smá soja- eða tamarinsósu yfir þær í lokin þannig að sósan festist á hnetunum. Þetta poppar öll salöt upp og líka frábært snarl. Hér gerði ég þetta við hneturnar en rétturinn er góður þó því sé sleppt.

Ég tvöfaldaði uppskriftina fyrir okkur 5 og það kláraðist allt. Þetta var bara svo gott að það var ekki hægt að hætta að borða!

Tacos með tælenskum kjúklingi (uppskrift fyrir 3-4)

 • 2 kjúklingabringur
 • 1 kjúklingateningur (kraftur)
 • 1 líter vatn

Marinering

 • 1/2 dl appelsínudjús
 • 1/2 dl Hoisin sósa
 • 1 tsk hunang
 • 1 kjúklingateningur (kraftur)
 • 1 tsk hvítvínsedik
 • 1/2 chillí, hakkað (hafið fræin með ef þið viljið hafa sterkt, sleppið þeim annars)
 • 1 msk sojasósa
 • 1/2 lime

Meðlæti

 • laukur
 • paprika
 • tortillur
 • ferskt kóriander
 • avokadó
 • vorlaukur
 • kasjúhnetur (gott að þurrsteikja þær og hella síðan smá sojasósu yfir undir lokin)
 • sýrður rjómi

Byrjið á að setja vatn í pott og láta suðuna koma upp. Bætið kjúklingateningi og kjúklingabringum í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur. Á meðan kjúklingurinn sýður er marineringin útbúin. Hrærið öllum hráefnunum í marineringuna saman. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann rifinn niður og settur út í marineringuna.

Skerið lauk og papriku í strimla. Hitið olíu á pönnu og steikið þar til mjúkt og laukurinn hefur fengið smá lit, það tekur um 8-10 mínútur (passið að hafa ekki of háan hita). Takið af pönnunni og leggið til hliðar. Steikið kjúklinginn á sömu pönnu (óþarfi að þrífa hana á milli) þar til marineringin er orðin þykk og klístruð.

Hitið tortillurnar örlítið og berið fram með kjúklingnum, grænmetinu, kóriander, vorlauk, avokadó, kasjúhnetum og sýrðum rjóma.

 

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave