Kjúklingur og grænmeti

Á meðan veðrið helst gott reyni ég að forðast að eyða miklum tíma í eldhúsinu. Mitt besta ráð á slíkum dögum er að steikja grænmeti og kjúkling saman á pönnu og bera fram með tzatziki (hægt að kaupa tilbúið í flestum verslunum). Tekur enga stund og er bæði létt og gott í maga.

Það getur verið gott að hafa brauð með (t.d. pítubrauð) en sjálfri þykir mér kjúklingurinn og grænmetið duga. Ég nota sous vide elduðu kjúklingabringurnar sem fást orðið í verslunum (eða hafa þær kannski fengist lengi? Ég uppgötvaði þær bara nýlega) og hendi þeim á pönnuna undir lokin þannig að þær hitni aðeins. Annars er frábært að eiga þær í ísskápnum til að setja í pastarétti eða á pizzur. Geymast lengi og gott að geta gripið í þær.

Það sem ég setti á pönnuna í þetta skiptið var:

 • sæt kartafla
 • sellerírót
 • brokkólí
 • rauðlaukur
 • papikur, rauð og græn
 • 4 kjúklingabringur

Ég byrjaði á að skera sætu kartöfluna og sellerírótina í bita á meðan pannan var að hitna. Það fór svo á pönnuna ásamt smá ólífuolíu og á meðan skar ég það sem eftir var af grænmetinu niður. Þegar kartöflurnar voru farnar að mýkjast bætti ég grænmetinu á pönnuna ásamt smá vatni (ca 1/2 dl), lækkaði hitann og setti lokið á pönnuna. Eftir um 5 mínútur bætti ég niðurskornum kjúklingabringunum á pönnuna og blandaði öllu vel saman. Kryddað eftir smekk og borið fram með tzatziki.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti

Þegar líða fer að helginni berst talið oft að helgarmatnum og hugmyndir fara að fljúga á milli í vinahópnum. Í slíkum pælingum um daginn minntist vinkona mín úr vinnunni á rétt sem maðurinn hennar gerir sem henni þykir svo góður. Ég varð auðvitað ekki róleg fyrr en hún var búin að fá hann til að senda sér uppskriftina. Hann átti eflaust ekki von á að hún myndi enda hér (ég fékk samt leyfi til að birta hana – takk Kalli!) en ég get ekki annað, bæði svo fleiri geta notið og svo ég geti fundið hana aftur.

Þessi kjúklingaréttur er í einu orði sagt æðislegur. Krakkarnir höfðu öll orð á því hvað hann væri svakalega góður og meira að segja Gunnar, sem borðar helst ekki kjúkling, sagðist furða sig á því hvað þetta væri æðislega gott því hann borði nánast ekkert af því sem er í réttinum.

Við vorum 5 í mat og það varð smá afgangur eftir sem Jakob borðaði í morgunmat daginn eftir. Ég bar réttinn fram með brauði, annars hefði hann eflaust klárast upp til agna.

Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti (uppskrift fyrir 5)

 • 4 kjúklingabringur
 • 2 dósir sataysósa (mér þykir langbest frá Thai Choice)
 • 1 rauðlaukur
 • 1 dós fetaostur
 • 150-200 g spínat
 • 3 dl kús kús
 • 3 dl vatn

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í smjöri. Hellið sataysósunni yfir og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur.

Hitið vatn að suðu (mér þykir gott að setja 1 kjúklingatening í vatnið), hrærið kús kús út í, setjið lok á pottinn og takið af hitanum. Látið standa í 5 mínútur.

Setjið kús kús, niðurskorinn rauðlauk, fetaost og spínat út í kjúklinginn og berið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Crunshwrap

Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir á fimmtudögum sem gætu hentað að elda yfir helgina. Á virkum dögum elda ég yfirleitt mat sem tekur stuttan tíma að gera og er kannski meiri hversdagsmatur. Um helgar vil ég hafa meiri stemningu í þessu og reyni að finna rétti sem hitta í mark hjá krökkunum. Mexíkóskur matur er alltaf vinsæll hér heima og um síðustu helgi prófaði ég að gera crunchwrap í fyrsta sinn. Svo gott!

Ég reyndi að mynda hvernig tortillan er brotin saman en veit ekki hvort það hafi tekist nógu vel. Þetta segir sig kannski bara sjálft?

Crunchwrap – uppskrift fyrir 5-6

 • 4 kjúklingabringur (um 1 kg), skornar í strimla
 • 1 msk olía
 • safi af 1 lime
 • 1 bréf fajita krydd

Blandið saman og látið marinerast í 1 klst.

 • 1 laukur, sneiddur
 • 1 rauð paprika, sneidd
 • 1 græn paprika, sneidd
 • 1 tsk salt
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 dl bjór (pilsner gengur líka)
 • 10 tortillur
 • rifinn ostur

Grænmetið er steikt á pönnu, saltað og pressuðum hvítlauki bætt við, og steikt aðeins áfram. Kjúklingnum er bætt á pönnuna og steiktur þar til nánast fulleldaður.  Hellið bjór yfir og látið sjóða saman í nokkrar mínútur.

Rifinn ostur er settur á miðja tortillu, svo kjúklingablandan sett yfir, brotið saman og sett á ofnplötu með sárið niður. Rifinn ostur settur yfir og bakað við 180° í 15-20 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Kjúklingakúskús með miðaust­ur­lensk­um inn­blæstri

Ég er á smá spani þessa dagana þar sem þessi vika býður upp á hvert skemmtilega kvöldið á fætur öðru. Fyndið hvernig það vill stundum allt raðast á sömu vikuna. Í gærkvöldi var saumaklúbbur, í kvöld erum við stelpurnar í vinnunni að hittast og á morgun fer ég í boð sem ég er búin að lofa að mæta með smá veitingar í. Ég var að setja köku í ofninn til að taka með mér á morgun (er að prófa nýja uppskrift sem ég vona að verði góð) en langaði svo til að kíkja hingað inn fyrir helgina og benda á einfalda og æðislega góða uppskrift sem ég prófaði um daginn.

Ég átti nú ekkert endilega von á að strákarnir yrðu hrifnir af þessum rétti en þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér. Það tók enga stund að henda þessu saman og okkur þótti öllum rétturinn alveg æðislegur. Uppskriftin kemur frá Rikku og ég tók hana beint af matarvef mbl. Ég notaði döðlur í staðin fyrir rúsínur en hélt mér annars alveg við uppskriftina. Súpergott!!

Kúskús með miðaust­ur­lensk­um inn­blæstri

fyr­ir 4

 • 500 g kúskús, ég nota forkryddað til að spara tím­ann
 • 500 g pers­nesk­ur kjúk­ling­ur frá Holta (ég var með tvo bakka, minnir að það geri 800 g)
 • 2 hvít­lauksrif, pressuð
 • 100 g rús­ín­ur, saxaðar döðlur eða þurrkaðar fíkj­ur (ég var með döðlur)
 • 2 msk. avóka­dóol­ía, til steik­ing­ar
 • salt og pip­ar

Sósa

 • hand­fylli ferskt kórí­and­er, fínsaxað
 • 1 dós sýrður rjómi 10%
 • ¼ tsk. cayenne-pip­ar
 • 1 msk. sítr­ónusafi
 • ½ hvít­lauksrif, pressað
 • þurrristaðar kasjúhnet­ur
 • granatepla­kjarn­ar

Eldið kúskús sam­kvæmt leiðbein­ing­um á pakkn­ingu. Steikið kjúk­ling­inn upp úr ol­í­unni ásamt hvít­lauk og rús­ín­um. Bætið kúskús sam­an við, steikið áfram og kryddið með salti og pip­ar.

Hrærið hrá­efn­inu í sós­unni sam­an, má líka skella öllu sam­an í bland­ara.

Skellið í skál, stráið kasjúhnet­um og granatepla­kjörn­um yfir og berið fram með sós­unni. Ég bar réttinn einnig fram með nanbrauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Tælensk núðlusúpa

Síðustu dagar og vikur hafa farið í menntaskólapælingar því strákarnir klára 10. bekk í vor. Ég held að ég geti fullyrt að ég velti þessu meira fyrir mér en þeir og bíð spennt eftir hverju einasta opna húsi í skólunum. Í gær skoðuðum við Kvennó og á fimmtudaginn opnar Versló dyrnar. Eftir þessa viku verða bræðurnir vonandi búnir að gera upp hug sinn. Ég sit á skoðunum mínum og ætla sem minnst að skipta mér að þessu.

Það hefur verið lítið fréttnæmt úr eldhúsinu upp á síðkastið þar sem ég hef notið góðs af matarboðum og þess á milli höfum við mest fengið okkur eitthvað fljótlegt á hlaupum. Það var þó eitt kvöldið um daginn sem ég eldaði tælenska núðlusúpu sem var alveg hreint æðislega góð. Við erum öll hrifin af tælenskum mat og þessi matarmikla súpa féll í kramið hjá öllum. Það var strax óskað eftir að ég myndi elda hana fljótlega aftur sem hljóta að vera góð meðmæli með súpunni.

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi

 • 2 msk ólífuolía
 • 2 kjúklingabringur
 • 1 laukur, hakkaður
 • 2 gulrætur, skornar í sneiðar
 • 3 msk rautt karrýmauk
 • 1 msk ferskt rifið engifer
 • 4 hvítlauksrif, pressuð
 • 2 dósir kókosmjólk
 • 1 líter vatn
 • 2 kjúklingateningar
 • 2 msk sojasósa
 • 2 msk fiskisósa
 • 1 tsk mulið kaffir lime
 • 2 msk púðursykur
 • 1/2 msk basilika
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar
 • 1 rauð paprika
 • 2-3 dl blómkál
 • 1 lítil sæt kartafla
 • 100 g hrísgrjónanúðlur
 • 1- 1,5 tsk sriracha
 • kóriander
 • lime
 • salthnetur

Hitið 1 msk af olíu á pönnu og steikið kjúklinginn í um 2 mínútur á hvorri hlið (það þarf ekki að elda hann í gegn, heldur bara að brúna hann). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.

Hitið 1 msk af olíu í rúmgóðum potti yfir miðlungsháum hita. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og mýkið í 3 mínútur. Bætið karrýmauki, engifer og hvítlauki í pottinn og steikið áfram í 2 mínútur. Setjið kjúklinginn í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, kjúklingateningum, sojasósu, fiskisosu, kaffir laufum, púðursykri, basiliku, salti og pipar. Látið suðuna koma upp og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur.

Takið kjúklinginn aftur úr pottinum og látið hann kólna aðeins þannig að hægt sé að skera eða rífa hann í sundur. Bætið papriku, blómkáli og sætri kartöflu í pottinn og látið sjóða í 5-8 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Bætið núðlunum í pottinn og sjóðið áfram eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið rifinn /niðurskorinn kjúklinginn í súpuna og smakkið súpuna til með sriracha og limesafa.

Berið súpuna fram með kóriander, limesneiðum og salthnetum.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Kjúklingur með ólífum í rósmarín- og hvítlauksrjómasósu

Þessi kjúklingaréttur var á boðstólnum hjá mér fyrir tæpu ári síðan þegar ég bauð mömmu í mat. Okkur þótti maturinn ægilega góður og allir voru sammála um að uppskriftin yrði nú að fara beinustu leið á bloggið, svo fleiri gætu notið hennar.

Það fór þó svo að ég týndi uppskriftinni og hún rataði því aldrei á bloggið. Ég hélt myndunum sem ég hafði tekið til haga ef uppskriftin skyldi nú koma í leitirnar, sem gerðist svo loksins í gær. Hér kemur hún því, ári síðar en algjörlega biðarinnar virði!

Kjúklingur með ólífum í rósmarín- og hvítlauksrjómasósu (uppskrift fyrir 6, af blogginu 56kilo.se)

 • 1 kg kjúklingabringur
 • 1 stór laukur
 • 5 hvítlauksrif
 • smjör til að steikja úr
 • 2,5 dl grófhakkaðir sveppir
 • 6 dl rjómi
 • 2 tsk salt
 • smá svartur pipar
 • 2 kjúklingakraftsteningar
 • 2-3 tsk þurrkað rósmarín
 • 6 hakkaðir sólþurrkaðir tómatar
 • hýði og safi úr 1 sítrónu
 • 2 dl svartar ólífur
 • 1 búnt steinselja
 • 2 dl rifinn parmesan

Skerið kjúklingabringurnar í þrennt á lengdina. Bræðið smjör í rúmgóðum potti og steikið kjúklinginn þar til hann hefur fengið lit. Saltið og piprið og takið úr pottinum. Setjið fínhakkaðan lauk og hvítlauk í pottinn ásamt grófhökkuðum sveppum og steikið úr smjöri þar til farið að mýkjast. Bætið kjúklingnum aftur í pottinn og setjið rjóma, sólþurrkaða tómata, sítrónusafa, kjúklingateninga og rósmarín í pottinn. Látið sjóða við vægan hita í um 10 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Hrærið ólífum, hakkaðri steinselju, sítrónuhýði og rifnum parmesan saman við áður en rétturinn er borinn fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Fajitas

Ég las um daginn að mörgum þyki janúar laaaangur mánuður og því eru eflaust einhverjir sem gleðjast yfir að hann sé að baki og glænýr mánuður að hefjast. Ekki nóg með það heldur er helgin framundan og því taumlaus gleði!

Planið er að fara út að borða og á Mið-Ísland um helgina og mig langar að gera enn eina tilraunina til að fara í bíó. Ég er alltaf að plana bíóferðir en þær verða aldrei af. Líkurnar eru því ekki með mér en kannski að þetta verði helgin sem ég læt verða af því. Ég vona það! Helgarmaturinn er enn óákveðinn en um síðustu helgi vorum við með svo góðan kvöldverð að ég má til með að setja hann inn ef einhver er að leita að hugmyndum fyrir helgina.

Ég er yfirleitt með kvöldmatinn í fyrra fallinu en þetta kvöld fór allt úr skorðum. Ég var byrjuð á matnum þegar Gunnar minnti mig á að fótboltaleikur sem við ætluðum á færi að byrja. Ég hafði bitið í mig að hann væri seinna um kvöldið. Það var því ekkert annað í stöðunni en að hlaupa frá öllu og halda áfram með eldamennskuna þegar heim var komið…. kl. 21.30! Við sitjum alltaf lengi yfir kvöldmatnum og klukkan var að nálgast 23 þegar allir voru búnir að borða og búið var að ganga frá í eldhúsinu. Maturinn var sérlega góður (allir voru jú svo svangir og þá verður allt extra gott!) og leikurinn fór Blikum í hag, þannig að dagurinn hefði varla getað endað betur.

Ég bar kjúklinginn fram með mangósalsa, guacamole, sýrðum rjóma, salsa, heitri ostasósu, salati, tortillum og svörtu doritos. Það var einfaldlega öllu húrrað á borðið og síðan setti hver og einn matinn saman eftir smekk. Daginn eftir gerði ég mér salat úr afganginum. Svo gott!

Kjúklingafajitas

 • 1 kg kjúklingabringur
 • 1,5 msk oregano
 • 1,5 msk kúmin (ath. ekki kúmen)
 • 1 msk kóriander
 • 1/2 msk túrmerik
 • 3 hvítlauksrif
 • safi úr 1 lime
 • 1/3 dl rapsolía

Skerið kjúklinginn í bita og pressið hvítlauksrifin. Blandið öllu saman og látið marinerast í um klukkustund (ef tími gefst). Dreifið úr kjúklingnum yfir ofnskúffu og setjið í 175° heitan ofn í um 8 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Það má líka steikja kjúklinginn á pönnu, þá er kjúklingurinn settur beint á heita pönnuna og hann steiktur upp úr olíunni í marineringunni.

Mangósalsa:

 • 1 ferskt mangó
 • 1 rauð paprika
 • safi úr 1/2 lime
 • ferskt kóriander

Skerið mangó og papriku í bita og blandið öllu saman.

Guacamole:

 • 1 avokadó
 • 1/2 rautt chili (fjarlægið fræin)
 • 1 hvítlauksrif
 • cayanne pipar
 • sítrónusafi

Stappið avokadó, fínhakkið chili og pressið hvítlauksrif. Blandið saman og smakkið til með cayanne pipar og sítrónusafa.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í