Fyrir viku síðan fór ég niður í Þríhnjúkagjúg en það hafði mig lengi langað til að gera. Það var ótrúleg upplifun að fara þangað niður og ef þið hafið tækifæri til þess, skuluð þið ekki láta það úr hendi sleppa. Ég veit að það hafa stundum verið tveir fyrir einn tilboð undir lok tímabilsins (síðustu ferðirnar niður eru um miðjan október) sem gæti verið snjallt að nýta sér.
Það er róleg helgi framundan hjá mér og ég er búin að lofa krökkunum heimagerðum pizzum annað kvöld. Síðasta föstudagskvöld gerði ég hins vegar steiktar kjúklingavefjur sem okkur þótti frábær föstudagsmatur. Ég gerði mér einfalt fyrir og keypti tilbúinn grillaðan kjúkling og tilbúið guacamole (fæst ferskt í Hagkaup) og þá tók enga stund að koma matnum á borðið. Æðislega gott!
Steiktar fajita kjúklingavefjur
- 1 kjúklingur (ég keypti tilbúinn grillaðan kjúkling)
- 1 poki fajitas krydd
- rauð paprika
- græn paprika
- laukur
- kóriander (má sleppa)
- sýrður rjómi eða ostasósa
- ostur
Rífið kjúklinginn niður og skerið paprikunar og laukinn í strimla. Steikið allt saman á pönnu og kryddið með fajitas kryddi (notið allan pokann).
Smyrjið tortillaköku með um 3 msk af sýrðum rjóma eða ostasósu, setjið um 1 dl af kjúklingablöndunni yfir (setjið hana í miðjuna á tortillakökunni) og stráið kóriander og rifnum osti yfir. Brjótið tortillukökuna saman þannig að lokist fyrir allar hliðar. Hitið olíu á pönnu og steikið vefjurnar á báðum hliðum þar til þær eru orðnar stökkar. Berið fram með meðlæti eins og t.d. nachos, salsa, salati, sýrðum rjóma, guacamole og/eða ostasósu.