Síðustu dagar og vikur hafa farið í menntaskólapælingar því strákarnir klára 10. bekk í vor. Ég held að ég geti fullyrt að ég velti þessu meira fyrir mér en þeir og bíð spennt eftir hverju einasta opna húsi í skólunum. Í gær skoðuðum við Kvennó og á fimmtudaginn opnar Versló dyrnar. Eftir þessa viku verða bræðurnir vonandi búnir að gera upp hug sinn. Ég sit á skoðunum mínum og ætla sem minnst að skipta mér að þessu.
Það hefur verið lítið fréttnæmt úr eldhúsinu upp á síðkastið þar sem ég hef notið góðs af matarboðum og þess á milli höfum við mest fengið okkur eitthvað fljótlegt á hlaupum. Það var þó eitt kvöldið um daginn sem ég eldaði tælenska núðlusúpu sem var alveg hreint æðislega góð. Við erum öll hrifin af tælenskum mat og þessi matarmikla súpa féll í kramið hjá öllum. Það var strax óskað eftir að ég myndi elda hana fljótlega aftur sem hljóta að vera góð meðmæli með súpunni.
Tælensk núðlusúpa með kjúklingi
- 2 msk ólífuolía
- 2 kjúklingabringur
- 1 laukur, hakkaður
- 2 gulrætur, skornar í sneiðar
- 3 msk rautt karrýmauk
- 1 msk ferskt rifið engifer
- 4 hvítlauksrif, pressuð
- 2 dósir kókosmjólk
- 1 líter vatn
- 2 kjúklingateningar
- 2 msk sojasósa
- 2 msk fiskisósa
- 1 tsk mulið kaffir lime
- 2 msk púðursykur
- 1/2 msk basilika
- 1 tsk salt
- 1/2 tsk pipar
- 1 rauð paprika
- 2-3 dl blómkál
- 1 lítil sæt kartafla
- 100 g hrísgrjónanúðlur
- 1- 1,5 tsk sriracha
- kóriander
- lime
- salthnetur
Hitið 1 msk af olíu á pönnu og steikið kjúklinginn í um 2 mínútur á hvorri hlið (það þarf ekki að elda hann í gegn, heldur bara að brúna hann). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.
Hitið 1 msk af olíu í rúmgóðum potti yfir miðlungsháum hita. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og mýkið í 3 mínútur. Bætið karrýmauki, engifer og hvítlauki í pottinn og steikið áfram í 2 mínútur. Setjið kjúklinginn í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, kjúklingateningum, sojasósu, fiskisosu, kaffir laufum, púðursykri, basiliku, salti og pipar. Látið suðuna koma upp og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur.
Takið kjúklinginn aftur úr pottinum og látið hann kólna aðeins þannig að hægt sé að skera eða rífa hann í sundur. Bætið papriku, blómkáli og sætri kartöflu í pottinn og látið sjóða í 5-8 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Bætið núðlunum í pottinn og sjóðið áfram eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið rifinn /niðurskorinn kjúklinginn í súpuna og smakkið súpuna til með sriracha og limesafa.
Berið súpuna fram með kóriander, limesneiðum og salthnetum.
Sæl.
Takk fyrir meiriháttar blogg elska að kíkja hingað inn.
Nota mikið uppskriftirnar frá þér!
Hvar get ég nálgast
Rautt karrýmauk
Kaffir lime &
Sriracha (er það sósa eða..?)
Gaman að heyra! Ég fékk öll þessi hráefni í Hagkaup en þau fást í flestum stórverslunum (veit þó ekki með kaffir lime, hef bara séð það í Hagkaup).