Gúllassúpa með nautahakki

Mér þykja sum haust- og vetrarkvöld hreinlega kalla á góðar súpur og nýbakað brauð. Súpur eru svo þægilegur matur. Það er hægt að undirbúa þær deginum áður og þær verða margar bara betri eftir að hafa fengið að standa yfir nóttuna. Síðan er gott að frysta þær til að eiga í nesti eða til að grípa í ef það eru fáir í mat. Eftir til dæmis útiveru í köldu haustlofti eða vetrarkvöld í Bláfjöllum er ólýsanlega gott að koma heim og geta hitað upp súpu og brauð. Ég á alltaf frosin snittubrauð til að geta gripið í á slíkum stundum. Gahhh, það gerist varla betra!

Gúllassúpa (uppskrift fyrir 5 manns)

 • 1 laukur
 • 1 hvítlauksrif, pressað
 • 500 g nautahakk
 • 3 msk tómatpuré
 • 1 líter vatn
 • 7-8 litlar kartöflur
 • 1 nautateningur
 • 2 grænmetisteningar
 • 2 msk sojasósa
 • 2 dósir hakkaðir tómatar (2 x 400 g)
 • 1,5 msk paprikukrydd
 • 1/2 – 1 msk sambal oelek
 • 1-2 msk tómatsósa
 • salt og pipar

Bræðið smjör í rúmgóðum potti og steikið hakkaðan lauk og hvítlauk þar til mjúkt. Bætið nautahakkinu á pönnuna og steikið þar til fulleldað. Hrærið tómatpuré saman við og steikið áfram í eina mínútu. Setjið vatn, teninga, sojasósu, hakkaða tómata og paprikukrydd saman við. Látið sjóða saman í smá stund. Afhýðið kartöflurnar og skerið í teninga. Bætið þeim í pottinn og látið sjóða áfram í 15 mínútur. Smakið til með samal oelek, tómatsósu, salti og pipar.

Berið fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Blómkálssúpa með sveppaosti og sweet chili

Eins og lofað var kemur hér fyrsta græna þriðjudagsfærsla mánaðarins, dásamleg blómkálssúpa. Uppskriftina fékk ég hjá vinnufélaga sem hafði tekið súpuna með sér í nesti og áður en hún vissi af var ég komin með skeið ofan í diskinn hennar til að smakka. Súpan leit bara svo vel út að ég réði ekki við mig! Eflaust til að fyrirbyggja að atvikið endurtæki sig sendi hún mér uppskriftina og ég bauð upp á hana í kvöldmat hér heima í kjölfarið. Súpan er æðisleg og passar vel að bera hana fram með góðu brauði, t.d. New York times brauðinu góða eða Gló brauðinu sívinsæla. Þeir sem vilja ekki blómkálsbita í súpunni mauka hana bara með töfrasprota.

Blómkálssúpa með sveppaosti og sweet chili (uppskrift fyrir 4)

 • 7 ½ dl vatn
 • 1 grænmetisteningur
 • 1/3 – ½ dós sveppasmurostur
 • 400 – 500 g blómkál
 • 1 msk sweet chili sósa
 • nokkrir dropar hunang
 • ½ – 1 tsk balsamik edik
 • salt og pipar

Hitið saman vatn og grænmetistening í rúmgóðum potti. Skolið blómkálið og brytjið það niður. Hrærið smurostinum saman við soðið. Bætið blómkálinu út í og sjóðið þar til það er orðið meyrt. Bætið sweet chili sósu , hunangi og balsamik ediki út í og hrærið. Smakkið til með salti og pipar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa

Það er alveg hreint dásamlegur súpubar í Borgartúninu og þar sem ég vinn í sama húsnæði hef ég ósjaldan skotist þangað í hádeginu. Uppáhalds súpan mín er bara í boði á mánudögum en á þriðjudögum fæst stórgóð frönsk linsubaunasúpa sem mér heyrist vera í uppáhaldi hjá flestum.

Ebba Guðný, heilsugúrú og snillingur, gaf í þætti sínum Eldað með Ebbu uppskrift af linsubaunasúpu sem ég lét loksins verða af að elda um daginn, en franska linsubaunasúpan frá Súpubarnum var einmitt fyrirmynd þeirrar uppskriftar. Súpan er dásamlega góð! Ég bætti smá sellerý og cayenne pipar út í súpuna en því má auðvitað sleppa. Súpuna setti ég síðan í 4 box og átti nesti út vikuna. Stórkostlega gott!

Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa (uppskrift frá Ebbu Guðnýju)

1 stór blaðlaukur eða 2 litlir
1 1/2 dl grænar/brúnar/puy linsur
6-8 hvítlauksrif, pressuð
1 1/2 tsk. Himalaya- eða sjávarsalt
2 msk. lífrænn gerlaus grænmetiskraftur
1 krukka maukaðir tómatar
500 ml vatn
3-4 greinar ferskt rósmarín
1 1/2 msk. timjan (þurrkað)
4-6 gulrætur (ferð eftir stærð – 4 stórar eða 6 fremur litlar)
250 ml rjómi (1 peli)
1 stiki af sellerý
smá cayenne pipar
Graslaukur til að skreyta með í lokin og bragðbæta (má sleppa)

Skerið blaðlauk, sellerý og gulrætur smátt. Hitið smá vatn í botni á rúmgóðum potti og steikið grænmetið. Bætið hvítlauk saman við og síðan hráefnunum hverju á fætur öðru. Látið sjóða þar til baunirnar eru orðnar mjúkar (ég lét súpuna sjóða við vægan hita í um 30 mínútur). Berið fram með góðu brauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Tómatsúpan á Nordstrom café

Tómatsúpa

Sagan segir að tómatsúpan sem fæst á kaffihúsum Nordstrom verslana í Bandaríkjunum sé stórkostlega góð. Mér hefur aldrei dottið í hug að fara á kaffihúsið þegar ég hef verið í Nordstrom, það eru svo margir aðrir matsölustaðir í Bandaríkjunum sem mér þykja meira lokkandi. En kannski hef ég verið að missa af einhverju stórkostlegu?

Tómatsúpa

Nordstrom hefur gefið út matreiðslubækur og í einni þeirra leynist uppskriftin af tómatsúpunni vinsælu. Krakkarnir hættu ekki að dásama hana þegar ég prófaði uppskriftina hér heima. Grilluð ostasamloka færi vel með en hér var boðið upp á nýbakað New York Times-brauð með osti. Krakkarnir voru í skýjunum! Einfaldur,  barnvænn, ódýr og góður hversdagsmatur.

Tómatsúpa

 • ⅓ bolli ólívuolía
 • 4 stórar gulrætur, afhýddar og skornar í teninga
 • 1 stór laukur, sneiddur
 • 1 msk þurrkuð basilika
 • 3 dósir heilir tómatar
 • 1 líter vatn
 • 2 kjúklingateningar
 • ½ líter rjómi
 • salt og pipar
Hitið ólívuolíuna yfir miðlungshita í rúmgóðum potti. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og eldið þar til byrjar að mýkjast, um 10 mínútur, bætið þá basiliku saman við og eldið þar til grænmetið er orðið alveg mjúkt, eða um 5 mínútur til viðbótar. Bætið tómatdósunum, vatni og kjúklingateningum í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur, eða upp til 45 mínútur ef þú hefur tíma. Setjið súpuna því næst í matvinnsluvél eða setjið töfrasprota í pottinn og maukið súpuna. Bætið rjómanum saman við og hitið aftur. Smakkið til með salti og pipar.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
HAGKAUP

Gúllassúpa með nautahakki

Gúllassúpa með nautahakkiÉg veit að ég hef verið súpuglöð upp á síðkastið og gefið hér hverja súpuuppskriftina á fætur annarri en ég ræð ekki við mig. Þetta er sá árstími sem ég gæti lifað á súpum og brauði. Um daginn gerði ég tvo fulla súpupotta sem ég frysti og hef verið að gæða mér á nánast daglega síðan. Súpur hljóta að vera notalegasti matur sem til er í vetrarkuldanum!

Þessi gúllassúpa er sérlega ljúffeng og upplagt að frysta hana til að eiga þegar enginn nennir að elda eða allir koma seint heim. Ég borða hana ýmist með góðu brauði eða nachos og þykir bæði betra. Sýrður rjómi fer yfirleitt í súpuskálarnar mínar en auðvitað má sleppa honum. Eins má leika sér með hráefnið, skipta kartöflum út fyrir gulrætur eða sætar kartöflur, nautahakkinu fyrir gúllasbita… það eru engar reglur, bara að dekra við súpuna og hún verður dásamleg.

Gúllassúpa með nautahakki

Gúllassúpa með nautahakki (uppskrift fyrir 5-6)

 • 500 g nautahakk
 • 3 msk tómatpúrra
 • salt og pipar
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 rauð paprika
 • smjör
 • 1 laukur
 • 2 dósir Hunt´s niðursoðnir hakkaðir tómatar, samtals 800 g (mér þykir gott að blanda Roasted Garlic og Basil, Garlic & Oregano)
 • 7 litlar kartöflur, skornar í bita
 • 1/2 tsk tabasco
 • 8 dl vatn
 • 3 nautateningar
 • 2 msk soja
 • 2 tsk paprikukrydd

Steikið nautahakk á pönnu. Kryddið með salti og pipar og hrærið tómatpúrru saman við. Leggið til hliðar.

Hakkið papriku og lauk. Bræðið smjör á pönnu og bætið prpriku, lauk og hvítlauk á pönnuna. Látið mýkjast við vægan hita.

Setjið allt í pott og látið sjóða saman í 15-20 mínútur. Berið fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.

Gúllassúpa með nautahakkiGúllassúpa með nautahakkiGúllassúpa með nautahakki

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Þykk og góð mexíkósk kjúklingasúpa

Mexíkósk kjúklingasúpaVið tókum okkur smá frí frá hversdagsleikanum þegar keyrðum norður á Akureyri síðasta miðvikudag og dvöldum norðan heiða það sem eftir var af vikunni. Við komum heim aðfaranótt mánudags, eftir 9 klukkustunda akstur sem endaði í bílalest yfir Laxárdalsheiði og Heydal í óveðri. Það ævintýri náði þó ekki að skyggja á yndislega ferð og þó að allir hafi verið orðnir vel þreyttir þegar við komumst heim klukkan hálf fjögur um nóttina vorum við endurnærð. Fyrir norðan náðum við að skíða bæði á Dalvík og í Hlíðarfjalli, fara þrisvar sinnum út að borða, í sund, á kaffihús, spila… já, gera allt það sem tilheyrir svona fríum og gerir lífið svo skemmtilegt.

Mexíkósk kjúklingasúpa

Eins yndislegt og það er að fara í frí þá mun ég þó seint vanmeta hversdagsleikann. Hann hefur sko sinn sjarma. Mér þykir ósköp notalegt að dunda mér í eldhúsinu þegar veðrið lætur svona illa og finnst þá sérlega viðeigandi að bjóða upp á heita, matarmikila súpu.  Þessi súpa er matarmikil, þykk og dásamleg. Ég ber hana fram með rifnum osti, sýrðum rjóma, fersku kóriander, avókadó, lime og nachos. Síðan setur hver og einn það í sína súpu sem hann hefur smekk fyrir (ég tek þetta alla leið, húrra öllu ofan í og kreysti lime yfir). Súpergott!

Mexíkósk kjúklingasúpa

Mexíkósk kjúklingasúpa (uppskrift fyrir 5)

 • 500 g kjúklingalundir (ég nota frá Rose Poultry og set jafnvel allan pokann, 700 g)
 • 1 skarlottulaukur
 • 1 rauð paprika
 • 1 líter vatn
 • 1 dós Hunt´s Diced Roasted Garlic (sjá mynd neðst)
 • 2 kjúklingateningar
 • ½ – 1 tsk chili
 • ½ – 1 tsk cumin
 • 1½ tsk paprikukrydd
 • 4 msk tómatpúrra
 • 1 dós philadelphia rjómaostur með sweet chili
 • 1 dl rjómi

Hakkið skarlottulauk og papriku og steikið við vægan hita þar til mjúkt. Takið af pönnunni og leggið til hliðar. Skerið kjúklingalundirnar í bita og steikið í nokkrar mínútur (þarf ekki að fullelda á þessu stigi). Setjið skarlottulauk, papriku, kjúklingalundir, vatn, tómata, kjúklingateninga, chili, cumin, paprikukrydd og tómatpúrru í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur. Bætið rjómaostinum og rjómanum út í og sjóðið áfram í 5 mínútur.

Mexíkósk kjúklingasúpa

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!Ég gæti vel lifað á súpum og ber þær á borð hér í hverri viku. Bæði þykir mér gaman að elda þær sem og mér þykir eitthvað notalegt við að setjast niður með heita súpu og gott brauð þegar það er kallt úti. Þess að auki eru þær ódýr og fljótgerður matur sem upplagt er að frysta í einstaklingsskömmtum til að eiga í nesti.

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Þessi tómatsúpa er sú langbesta sem ég hef smakkað. Hráefnið er oftast til í skápnum og ég get haft hana á borðinu korteri eftir að ég kem heim. Ódýr og barnvæn máltíð sem hittir í mark hjá öllum aldurshópum.

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Tómatsúpa með pasta (uppskrift fyrir 3-4)

 • 2 dl ósoðið pasta
 • 1 dós Hunt´s hakkaðir tómatar með basiliku, hvítlauk og oreganó (411 g)
 • 1 ½ dl vatn
 •  ½ laukur, hakkaður
 • 1 hvítlauksrif, pressað
 • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 ½ tsk þurrkuð basilika
 • 1 tsk sykur
 • salt og pipar

Sjóðið pastað í vel söltu vatni (verið óhrædd við að nánast missa saltstaukinn í vatnið) og skolið síðan í köldu vatni.

Hakkið og steikið laukinn við vægan hita þar til hann er orðinn mjúkur en ekki farin að brúnast. Bætið öllum öðrum hráefnum fyrir utan pastað saman við og látið sjóða í 10 mínútur. Smakkið til og bætið pastanu í súpuna. Berið fram með ferskrifnum parmesan og góðu brauði.

Mögulega besta tómatsúpa í heimi!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epliÞegar það er svona dimmt og kuldalegt úti þykir mér notalegt að kveikja á kertum og bjóða upp á góða súpu og brauð. Slíkar máltíðir gera lífið svo ljúft. Þessi súpa er þó einstaklega ljúf því hún er í senn æðislega bragðgóð, ofboðslega einföld og sérlega fljótgerð.

Það er upplagt að gera vel af súpunni og frysta í einstaklingsskömmtum því það er svo gott að geta tekið hana með í nesti eða gripið til hennar eftir langan dag.  Dásamleg máltíð sem vert er að prófa.

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli (uppskrift frá Arla)

 • 300 g kjúklingabringur
 • 1 laukur
 • 1 epli
 • 1 msk karrý
 • 2 dósir niðursoðnir tómatar (samtals 800 g)
 • 1 dl vatn
 • 2 grænmetisteningar
 • 2 ½ dl rjómi
 • smá sykur
 • salt og pipar

Skerið kjúklinginn í litla bita, fínhakkið laukinn og rífið eplið. Steikið kjúklinginn, laukinn, eplið og karrý í smjöri þar til mjúkt. Bætið tómötum, vatni, grænmetisteningum og rjóma saman við. Látið sjóða í 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Smakkið til með smá sykri, salti og pipar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

Eins og mér þykir gaman að taka fram jólaskrautið fyrir aðventuna þá finnst mér líka alltaf jafn gott að pakka því niður aftur. Og á hverju einasta ári skipti ég jólaskrautinu út fyrir ferska túlípana. Mér þykir það hreinlega tilheyra því að pakka niður jólunum.

Ég hef undanfarin ár birt hér lista yfir vinsælustu uppskriftir ársins og ætla að halda í þá hefð. Mér þykir alltaf áhugavert að sjá hvaða uppskriftir það eru sem hafa vakið mestu lukku og það gleður mig að sjá tvo fiskrétti á listanum í ár. Að sama skapi er ánægjulegt að sjá sumar uppskriftir á listanum ár eftir ár. Ég bendi á að listann má vel nýta sem vikumatseðill, enda bæði fjölbreyttur og ljúffengur.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti er nú vinsælasta uppskrift ársins annað árið í röð. Uppskriftinni hefur verið deilt yfir 10.000 sinnum og skildi engan undra. Dásamlega góður réttur sem er í senn hollur, fljótgerður og einfaldur að útbúa.

Hakkbuff með fetaosti

Í öðru sæti er hakkabuff með fetaosti. Heimilismatur eins og hann gerist bestur!

Fiskur í okkar sósu

Í þriðja sæti er fiskur í okkar sósu. Þessi fiskréttur er einn af mínum uppáhalds og það gleður mig að sjá hann svona ofarlega á lista.

Mexíkóskur mangókjúklingur

Mexíkóskur mangókjúklingur var fjórða vinsælasta uppskrift ársins. Æðislegur réttur sem mér þykir passa sérlega vel á föstudagskvöldum.

Einföld og góð skúffukaka

Fimmta vinsælasta uppskrift ársins var í öðru sæti á listanum í fyrra. Einföld og góð skúffukaka sem svíkur engan og er ómótstæðileg með ískaldri mjólk.

Bananabrauð

Uppáhalds bananabrauðið heldur sjötta sæti listans frá því í fyrra. Ég vil ekki vita hversu oft ég hef bakað þetta brauð en við fáum ekki leið á því.

Mexíkósúpa

Í sjöunda sæti er mexíkósk kjúklingasúpa. Hér er á ferðinni uppskrift sem ég gríp oft til og hún vekur alltaf lukku. Dásamleg súpa í alla staði.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei er áttunda vinsælasta uppskriftin. Hún stendur alltaf fyrir sínu og er öruggt kort á föstudagskvöldum.

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Í níunda sæti er ofnbakaður fiskur í paprikusósu. Namm!

Milljón dollara spaghetti

Tíunda vinsælasta uppskriftin var sú vinsælasta fyrir tveimur árum, milljón dollara spaghetti. Barnvænn réttur sem slær alltaf í gegn.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

 

 

 

Gulrótar- og tómatsúpa með kókosmjólk

Gulrótar, tómata og kókossúpa Ég hef oft lýst hér dálæti mínu á súpum og er yfirleitt með súpu í kvöldmatinn einu sinni í viku. Það hefur hins vegar ekki komið fram að ég borða oftar en ekki súpu í hádeginu og með það í huga að spara mér hádegissúpukaupin ákvað ég að taka mig til og elda súpu til að eiga í nestisboxum í frystinum. Gulrótar, tómata og kókossúpa

Fyrir valinu varð þessi gulrótar- og tómatsúpa sem ég fann á dásamlegri síðu, Green Kitchen Stories. Súpan er einföld, ódýr og góð. Enginn veislumatur en stórgóður hversdagsmatur. Ég var með hana í kvöldmat og gerði síðan annann skammt sem ég skipti niður í nestisbox og frysti. Það er skemmst frá því að segja að súpan komst aldrei með mér í vinnuna, eins og upphaflega stóð til, heldur nutu vinkonur og heimilismenn notið góðs af henni með mér hér heima við. Stundum getur verið mikill fjársjóður að eiga heimalagaðan tilbúinn mat í frystinum, og kannski sérstaklega í einstaklingsskömmtum, sem tekur ekki nema nokkrar mínútur að koma á borðið þegar vinkonur líta óvænt við í hádeginu eða krakkarnir koma svangir heim.

Gulrótar- og tómatsúpa með kókosmjólk (fyrir 4-6)

 • 1 msk kókosolía eða ólívuolía
 • 1 laukur, hakkaður
 • 2 hvítlauksrif, hökkuð
 • 1 tsk túrmerik
 • 10 gulrætur, skolaðar og sneiddar
 • 1 dós (400 g) plómutómatar eða um 5 hakkaðir ferskir tómatar
 • vatn, nóg til að fljóti yfir
 • sjávarsalt og svartur pipar
 • 1 dós (400 g) kókosmjólk

Hitið olíu í potti. Bætið lauki, hvítlauki og túrmerik í pottinn og steikið við vægan hita þar til mjúkt. Bætið gulrótum og tómötum í pottinn og eldið í um mínútu, hrærið í pottinum á meðan. Hellið vatni yfir þannig að rétt fljóti yfir og kryddið með sjávarsalti og pipar. Látið sjóða við vægan hita í 15-20 mínútur eða þar til gulræturnar eru orðnar mjúkar. Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél, bætið síðan kókosmjólk saman við og smakkið til. Ef súpan er bragðdauf getur verið gott að setja smá grænmetis- eða kjúklingakraft í hana.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP