Ég keypti mér tvær uppskriftabækur í janúar, þrátt fyrir að hafa lofað mér að draga úr slíkum kaupum. Bækurnar eru eins ólíkar og þær geta orðið þar sem önnur þeirra er bara með grænmetisuppskriftum á meðan hin er bara með uppskriftum af kokteilum. Ég á eftir að prófa kókteilabókina en í vikunni sem leið eldaði ég fyrstu uppskriftina úr grænmetisbókinni, minestrone súpu. Okkur þótti súpan svo góð að þó hún verði eina uppskriftin sem ég mun elda úr bókinni þá réttlætir hún kaupin á henni. Súpuna bar ég fram með mozzarellafylltum brauðbollum sem voru svo góðar að krakkarnir eru enn að tala um þær (ég lofa að setja inn uppskriftina af þeim á morgun). Frábær máltíð sem tekur enga stund að elda.
Minestrone – uppskrift (fyrir 4-5) úr Nyfiken Grön
- 1 laukur
- 3 hvítlaukssrif
- 1 gulrót
- 250 g kokteiltómatar
- 2 msk ólivuolía
- 2 tsk timjan (þurrkað)
- 1 líter vatn
- 2-3 grænmetisteningar
- handfylli af steinselju
- 1 dós bakaðar baunir (400 g)
- 2 dl pasta (ég var með spaghetti sem ég braut niður)
- salt og pipar
Fínhakkið lauk og hvítlauk. Skerið gulrótina í sneiðar og tómatana í tvennt. Hitið olíu í stórum potti og steikið grænmetið með timjan við miðlungsháan hita í nokkrar mínútur. Hrærið reglulega í pottinum á meðan. Bætið vatni og grænmetisteningum í pottinn og látið sjóða í 15 mínútur. Bætið bökuðum baunum, pasta og steinselju í pottinn og látið sjóða þar til pastað er tilbúið. Smakkið til með salti og pipar.
Sæl,
takk fyrir allar dásamlegu uppskriftirnar 🙂
Varðandi bökuðu baunirnar í þessari súpu, er átt við bara venjulegar bakaðar baunir og á maður að setja sósuna með úr dósinni út í?
Kær kveðja,
Jónína
Sæl Jónína.
Þetta eru bara venjulegar bakaðar baunir (ég nota frá Heinz) og sósan er líka notuð 🙂
Bestu kveðjur, Svava
Sent from my iPhone
>
Takk fyrir 🙂