Minestrone

Ég keypti mér tvær uppskriftabækur í janúar, þrátt fyrir að hafa lofað mér að draga úr slíkum kaupum. Bækurnar eru eins ólíkar og þær geta orðið þar sem önnur þeirra er bara með grænmetisuppskriftum á meðan hin er bara með uppskriftum af kokteilum. Ég á eftir að prófa kókteilabókina en í vikunni sem leið eldaði ég fyrstu uppskriftina úr grænmetisbókinni, minestrone súpu. Okkur þótti súpan svo góð að þó hún verði eina uppskriftin sem ég mun elda úr bókinni þá réttlætir hún kaupin á henni. Súpuna bar ég fram með mozzarellafylltum brauðbollum sem voru svo góðar að krakkarnir eru enn að tala um þær (ég lofa að setja inn uppskriftina af þeim á morgun). Frábær máltíð sem tekur enga stund að elda.

Minestrone – uppskrift (fyrir 4-5) úr Nyfiken Grön

  • 1 laukur
  • 3 hvítlaukssrif
  • 1 gulrót
  • 250 g kokteiltómatar
  • 2 msk ólivuolía
  • 2 tsk timjan (þurrkað)
  • 1 líter vatn
  • 2-3 grænmetisteningar
  • handfylli af steinselju
  • 1 dós bakaðar baunir (400 g)
  • 2 dl pasta (ég var með spaghetti sem ég braut niður)
  • salt og pipar

Fínhakkið lauk og hvítlauk. Skerið gulrótina í sneiðar og tómatana í tvennt. Hitið olíu í stórum potti og steikið grænmetið með timjan við miðlungsháan hita í nokkrar mínútur. Hrærið reglulega í pottinum á meðan. Bætið vatni og grænmetisteningum í pottinn og látið sjóða í 15 mínútur. Bætið bökuðum baunum, pasta og steinselju í pottinn og látið sjóða þar til pastað er tilbúið. Smakkið til með salti og pipar.

 

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Eftir allan hátíðarmatinn var okkur farið að dreyma um létta máltíð og súpa og brauð var efst á óskalistanum. Það vildi mér til happs að ég rakst á uppskrift að papriku- og kartöflusúpu með fetaostmulningi þegar ég var að skoða myndir í símanum mínum. Ég tek oft myndir á símann þegar ég rekst á spennandi uppskriftir og þessa uppskrift hafði ég séð í dönsku blaði (sem ég þori eiginlega að veðja á að hafi verið Spis Bedre). Ég ákvað að prófa að elda súpuna og hún vakti stormandi lukku. Með súpunni bar ég fram New York Times-brauðið sem er alltaf jafn gott og svo ótrúlega einfalt að baka.

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Þeir sem fylgjast með mér á Instagram eru þegar búnir að sjá mynd af herlegheitunum en hér kemur uppskriftin fyrir þá sem vilja prófa.

Papriku- og kartöflusúpa

  • 1 laukur
  • 4 miðlungsstórar kartöflur
  • 4 rauðar paprikur
  • 2 kjúklingateningar (ég notaði 1 kjúklinga- og 1 grænmetistening)
  • ólífuolía
  • 1 tsk salt
  • nýmalaður pipar

Til skrauts

  • 150 g fetaostur (fetakubbur sem er mulinn niður)
  • 1 msk ólífuolía
  • fersk steinselja eða mynta (eða 2 tsk þurrkuð mynta)

Hitið 1 líter að vatni að suðu. Hakkið laukinn, skrælið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar. Hreinsið paprikuna og skerið þær í strimla.

Stekið laukinn í 2 msk af ólívuolíu í stórum potti í 3 mínútur. Bætið kartöflum í pottinn og steikið áfram í 3 mínútur. Bætið papriku í pottinn og steikið áfram í aðrar 3 mínútur. Myljið teninga yfir og hellið helmingnum af soðna vatninu yfir. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur.

Takið pottinn af hitanum og maukið súpuna með töfrasprota. Þynnið súpuna með því sem eftir var af soðna vatninu þar til óskaðri þykkt er náð. Kryddið með salti og pipar.

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi