Fyrir mörgum árum kom Jakob þeirri hefð á að það væri súpa í matinn einu sinni í viku. Sú hefð hélt í fleiri ár og ég held að allir hafi verið ánægðir með það fyrirkomulag. Mér þykja súpur svo góðar og sérlega notalegur matur þegar fer að kólna úti. Með súpunum vil ég helst hafa heimabakað brauð og gott smjör (þeytt smjör er í uppáhaldi).
Ég setti á sínum tíma hingað inn uppskrift af blómkálssúpu sem ég fékk hjá vinkonu minni. Í þeirri uppskrift er meðal annars sveppasmurostur en ég prófaði um daginn að skipta honum út fyrir camembertsmurost og breytti aðeins hlutföllunum í leiðinni. Súpan varð æðisleg! Ég bar hana fram með nýbökuðu Gló-brauði og við ætluðum ekki að geta hætt að borða. Dásamleg máltíð á haustkvöldi.
Blómkálssúpa með camembertsmurosti og sweet chili (uppskrift fyrir 5)
- 10 dl vatn
- 2 kjúklingateningar
- 1 dós camembertsmurostur
- um 700 g blómkál
- 1-2 msk sweet chili sósa
- nokkrir dropar hunang
- ½ – 1 tsk balsamik edik
- salt og pipar
Hitið saman vatn og kjúklingateninga í rúmgóðum potti. Skolið blómkálið og brytjið það niður. Hrærið smurostinum saman við soðið. Bætið blómkálinu út í og sjóðið þar til það er orðið meyrt. Bætið sweet chili sósu , hunangi og balsamik ediki út í og hrærið. Smakkið til með salti og pipar.
Gerði þessa í kvöld og hún vakti mikla lukku 🤗 Notaði reyndar beikon smurost því hinn fékkst ekki í búðinni hérna ! Kveðja frá Seyðisfirði, Halla
Sent from my iPhone
>
Meiriháttar góð súpa, mér varð þó á í messunni þegar ég gerði hana fyrst, tók vitlausa flösku úr ískápnum, sem sagt Shiracha-sause í stað sweet chili 🙂 En súpan var svo góð þannig að sú breyting hefur fengið að halda sér enda engin börn hér. Nota þó ekki nema 1msk.